top of page
2025 Toskana - Bagni di Lucca - létt hreyfiferð

Náttúruunnendur hafa úr nógu að velja en einnig er hægt að fara í hæglætisfrí því hér er vin fyrir ferðamenn sem vilja láta líða úr sér í friðsælu og fögru umhverfi, burtu frá mannfjöldanum.

Það er stutt til Lucca og Pisa, þannig að það tekur örskamma stund að stinga sér í samband við sumar af þekktustu borgum Toskana.

unnamed (7).png

Bagni di Lucca er einstaklega fallegur lítill bær inn til fjalla í norðurhluta Toskana og er í dag þekkt sem unaðsleg miðstöð fyrir útivist og hreyfingu en fegurðin er þar við hvert fótmál.


Flogið er til Bologna og ekið þaðan til bæjarins Bagni di Lucca. Gist er á Park Hotel Regina  sem er fallegt 3* hótel. Farnar eru mislangar göngur á meðan á dvölinni stendur. Góður tími inn á milli ganga til að njóta þess sem svæðið hefur upp á að bjóða eða slaka á og dekra við sig.


Park Hotel Regina er fallegt og vel búið hótel með sundlaug, loftkælingu á herbergjum og morgunverðarhlaðborði . Hótelið stendur miðsvæðis í bæjarkjarnanum Bagni alla Villa. Herbergin snúa ýmist að götunni eða garðinum og sum herbergjanna eru með svölum.


Bagni di Lucca er eiginlega samnefnari yfir 3 bæi sem nota það sem einskonar regnhlífarnafn. Nafnið þýðir í raun Böðin í Lucca sem er mjög lýsandi og ber bærinn því nafn með rentu.


Bagni di Lucca er í dag þekkt sem miðstöð fyrir útivist með gönguferðum, hjólreiðum, klifri, skíðabrekkum, vatnasporti og ævintýramennsku. Vinsælt er að fara í Gljúfragarðinn (Canyon Park)  og á veturna er vinsælt skíðasvæði í Abetone í Appenína fjöllunum.


Náttúruunnendur hafa úr nógu að velja en einnig er hægt að fara í hæglætisfrí því hér er vin fyrir ferðamenn sem vilja láta líða úr sér í friðsælu og fögru umhverfi, burtu frá mannfjöldanum.

Heimsferðir er með ferðina í sölu og sér um bókanir, innheimtu, skilmála og tryggingar skv. ferðakskrifstofuleyfi nr. 2022-028 gefnu út af Ferðamálastofu.


HÉR er hægt að bóka tvíbýli 

HÉR er hægt að bóka einbýli 


Verð:

306.500 kr. Tvíbýli götumegin

329.000 kr. Tvíbýli með garðsýn

345.00 kr. Tvíbýli með garðsýn og svölum

374.000 kr. Rúmgóð einbýli götumegin

333.000 kr. Lítil einbýli - uppselt


Innifalið í verði: Flug með Icelandair til Milano Malpensa.  Ein taska allt að 20 kg. Gisting í 7 nætur á 3ja stjörnu hóteli með morgunverði. Ferðir sem taldar eru upp í dagskrá og akstur skv. ferðalýsingu. Þrír málsverðir. Pastagerðarnámskeið með kvöldverði. Aðgangur í heilsulind. Göngu- og staðarleiðsögn eins og við á. Íslensk  fararstjórn.


Ekki innifalið: Gistináttaskattur og þjórfé eins og við á hverju sinni.


Það er almennt ekki mikið gönguálag í ferðinni og við höfum sniðið ferðirnar og gönguhraðann svolítið eftir hópnum. Einnig er hægt að taka því rólega heima á hóteli einn og einn dag.

Bagni di Lucca var einn vinsælasti áfangastaður aðalsins á 18. og 19. öld. Heilsulindirnar, fyrsta spilavítið í Evrópu ásamt mikilli náttúrufegurð var helsta aðdráttaraflið. Vinsældir staðarins urðu líka til þess að hér risu villur af betri og stærri gerðinni, sem enn prýða svæðið. Gestir í Bagni di Lucca í dag fá að njóta náttúrunnar og finna víða vísbendingar um blómatímann og söguleg fótspor.


Svæðið er á þekktri gönguleið pílagríma (Via Francigena) sem áttu erindi til Rómar til að hljóta blessun og fyrirgefningu. Þessi sögulega leið lá yfir hina frægu Ponte Maddalena brú sem gengur venjulega undir nafninu Djöflabrúin. Brúin er yfir 1000 ára gömul og er ein elsta brú Ítalíu og setur sannarlega svip á umhverfið kringum ána Serchio.

Dagur 1 - Ísland – Ítalía – fimmtudagur 8. maí

Flogið með Icelandair til Milano Palpensa. Ekið til Bagni di Lucca sem er um 3,5 tíma akstur. Hótel Park Regina er staðsett í fallegum bæjarhluta sem heitir Bagni alla Villa. Hótelið er í klassískum stíl og er snyrtilega innréttað. Hvert herbergi hefur sitt sérkenni. Loftkæling og ísskápur á hverju herbergi.

Dagur 2 - Bagni di Lucca og gönguleið vatnsins – föstudagur 9. maí

Eftir morgunverð búum við okkur af stað í gönguferð frá hótlinu sem heitir Via dell‘Acqua eða gönguleið vatnsins. Gangan er um 4-5 tíma rölt með nokkrum útúrdúrum og sögustundum.
Á gönguleið vatnsins kynnumst við hvernig heilsulindirnar komu þessum stað á heimskortið á 19. öld og njótum útsýnisins yfir Lima dalinn og ána. Við komum við í þeim bæjarkjörnunum sem tilheyra Bagni di Lucca. Við fáum að skoða villu sem var áður í eigu Webb og Buonvisi þar sem eru hýst innvolsið úr spilavítum sem starfrækt voru á svæðinu. Fyrsta spilavítið í Evrópu var einmitt staðsett hérna þar sem sagt er að rúllettan hafi var fundin upp. Við heyrum um nafntogaða einstaklinga sem settu mark sitt á svæðið á blómaskeiðinu og hvað aðdráttarafl þessi staður hafði fyrir aðalsfólk, listamenn og spjátrunga alls staðar úr í Evrópu.
Létt ganga með sögulegu ívafi til að kynnast nærumhverfinu.
Fordrykkur á hótelinu um kvöldið og svo borðum við saman kvöldverð á veitingastað í bænum. Innifalið í verði.

unnamed.jpg
Dagur 3 – Gönguleið forfeðranna – laugardagur 10. maí
6-7 klst. – 800 metra hækkun – 12 km

Heilsdagsferð. Lengsti göngudagurinn. Lagt af stað kl. 07:30. Við munum samt sníða þennan dag eftir getu hópsins. Síðast voru tvær útgáfur í boði og það heppnaðist vel. Þá geta sumir tekið styttri hring og aðrir lengri. Ef einhverjir vilja hvíla þennan dag, þá er það líka í boði og nóg við að vera á hótelinu.

Við förum með skutlum til bæjarins Montefegatesi sem stendur í 847m hæð. Þaðan liggur leiðin upp til fjalla og við hefjum göngu eftir leið sem heitir gönguleið forfeðranna sem er um 12km leið. Við förum á topp fjallsins Monte Coronato (1218m) og ef aðstæður leyfa förum við líka upp á hásléttuna Prato Fiorito. Við göngum í gegnum fjölbreytt landslag, fyrrum beitilönd.

Undir lok ferðarinnar stoppum á dæmigerðu AGRITURISMO, bændagistingu með mat beint frá býli. Síðbúinn hádegisverður innifalinn í verði.

Ferðin endar í bænum Montefegatesi og við skoðum og fræðumst um sögu bæjarins sem er bæði í senn átakanleg og frækileg. Við kíkjum við hjá Dante Alighieri sem stendur þar hæst í landslaginu í tæplega 900m hæð.

Þar er líka upplagt að kíkja á barinn og skála fyrir góðum degi. Við verðum sótt aftur að göngu lokinni á upphafsstað göngunnar, rétt fyrir ofan bæinn.

unnamed (1).jpg
Dagur 4 – Lucca – sunnudagur 11. maí
Rölt um borgina og 4 km ganga eftir borgarmúrunum

Við leggjum af stað um hádegið og verjum deginum í Lucca. Einkennismerki borgarinnar eru borgarmúrarnir því borgin var ein af valdamestu borgum Evrópu á 13. og 14. öld. Við blöndum saman hreyfingu og borgarferð og markmiðið er að ganga eftir endilögum borgarmúrunum, 4,2 km, sem ramma hana inn. Við heyrum auðvitað um sögu borgarinnar og um hennar frægasta son, Giacomo Puccini, tónskáld. Hægt er að heimsækja heimili hans sem er núna safn honum til heiðurs. Vera má að kaupmátturinn hellist yfir fólk áður en við höldum aftur heim því mikið er af fallegum verslunum í gamla bænum.
Við eigum svo pantað borð á veitingastað þar sem við borðum áður en haldið er heim áleið. Kvöldverður innifalinn í verði ferðar. Áætlað að koma heim á hótel kl. 23:00.

unnamed (4).png
Dagur 5 – Frjáls dagur – mánudagur 12. maí

Möguleiki að fara í Gljúfragarðinn, þar sem hægt er að fara í rennilásalínu og fikra sig eftir klifurbrautum utan á klettaveggjunum. Ef áhugi er nægur væri hægt að fá kennslu á flotbretti. (paddle board)
Áin Lima rennur í gljúfrinu og þar er að finna alla bláu og grænu liti regnbogans sem mynda litasinfóníu af betri gerðinni. Eitt svæði í gljúfrinu hefur fengið nafnið Bláa lónið en á reyndar lítið sameiginlegt með því íslenska. Gljúfragarðurinn er sannkölluð útivistarpardís þar sem allir útivistargemsar geta fundið afþreyingu við hæfi. Við tökum með okkur nesti því garðurinn hefur sett sér stefnu um að hafa engin áhrif á umhverfið þar sem starfsemin fer fram. Orkan sem verður til kemur frá fólkinu sem rær, rennir sér eftir línum, klifrar í klettum eða æfir jóga. Ekkert rafmagn og engin veitingaaðstaða.

Þeir sem kjósa frekar að eiga hæglætisdag, geta tekið því rólega á hótelinu og flatmagað við sundlaugina. Einnig er hægt leigja rafmagnshjól og fara með leiðsögumanni í hjólatúr um svæðið. Sögufræg heilsulind er líka í göngufæri, Bagno Terme Barnabó.

unnamed (2).jpg
Dagur 6 – Gönguleið hveitikornsins – þriðjudagur 13. maí
3-4 klst - 350m hækkun - 8 km

Við leggjum af stað um kl. 10:00 og förum í farveg hveitræktar. Við göngum götuna yfir í næsta bæjarhluta sem heitir Ponte a Serraglio, þar sem gönguleiðin hefst. Til að byrja með er hún nokkuð á fótinn og við göngum að mestu á skógarstígum. Eftir að upp er komið njótum við svo dásamlegs útsýnis.
Við skoðum litla bæjarkjarna upp í hlíðunum fyrir ofan Bagni di Lucca. Um þessar slóða lágu leiðir pílagríma sem áttu erindi við páfann í Róm. Hér var herjað í margar aldir, eilífar erjur um völd og eignarhald og því löng hefði fyrir því að byggja virki og bæi sem líta út eins og kirsuber á fjallstoppunum.
Smalar og múlasnar mótuðu leiðirnar sem við skoðum í dag. Við fetum í fótspor þeirra sem á undan fóru og fáum undursamlegt útsýni að launum. Kapellur, kirkjur, brunnar, hellar og húsaþyrpingar á ótrúlegustu stöðum gleðja augað og auðga andann.
Gangan eftir það er að mestu leiti niður í móti. Við komum niður í bænum Fornoli þar sem hægt er að fá sér hressingu áður en haldið er heim á leið. Það er markaðsdagur í Fornoli á þriðjudögum, en líklega verður honum að mestu lokið áður en við komið ofan af fjalli.

unnamed (3).jpg
Dagur 7 – Pian di Fiume - gönguferð, pastagerðarnámskeið og kvöldverður – miðvikudagur 14. maí
2-3 klst. – 8 km – 300m hækkun

Við heimsækjum sérstakan stað niður við á ánna Lima. Pian di Fiume er gamalt þorp sem var komið í eyði þegar apótekarinn í bænum keypti nokkur hús þar og hefur verið að byggja upp ferðaþjónustu undanfarin ár. Við kynnumst sögu staðarins en förum svo í 2-3ja tíma gönguferð og heimsækjum 5 yndisleg forn þorp. Við erum umkringd dalverpum, fjöllum, notalegri fjallagolu og angan af villtum plöntum og blómum og fáum stórkostlegt útsýni í kaupbæti.
Dagurinn byrjar og endar á þeim stað sem við förum á pastagerðarnámskeið (Pian di Fiume) og borðum kvöldmat. Ef einhverjir vilja frekar taka því rólega geta þau bara beðið og notið staðarins á meðan hinir rölta þessa 2-3 tíma. Við hittumst svo öll í lokin, lærum pastagerð og borðum góðan mat.
Eftir hressandi göngu förum við á pastagerðarnámskeið og tökum til hendinni í eldhúsinu á staðnum. Því næstupplifum dæmigerða toskanska sveitaveislu í mat og drykk. Á Pian di Fiume er lagt upp úr matgæðum og hráefni beint frá býli með heimagerðu pasta, heimaræktuðu grænmeti og úrvali vína sem ræktuð eru nágrenninu. Hér borðum við kvöldverð sem við búum sjálf til, áður en haldið er heim á hótel.

unnamed (4).jpg
Dagur 8 – Heimferð – fimmtudagur 15. maí

Brottför frá hótelinu kl 08:00 um morguninn og ekið á Malpensa flugvöllinn og flugið tekið heim kl. 15:10.

unnamed (5).png


unnamed (5).png

unnamed (5).png
bottom of page