top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Pele á Hawai‘i

Já, nú hélstu að þú ættir von á pistli um knattspyrnugoðið Pele, blessuð sé minning hans.

Þessi pistill er hins vegar tileinkaður kvenkyns Pele sem er stór hluti af goðatrú frumbyggjanna.


Hún er gyðja elds og eldfjalla.


Tilefni skrifanna er að gera ferðalaginu mínu til Hawai‘i einhver skil, rifja upp þessa ævintýraferð og koma skikk á myndasafnið. Við komum til eyjunaar O'ahu þann 27. október og dvöldum þar í viku en færðum okkur svo yfir á eyjuna Hawai‘i sem er oftast kölluð Big Island.

Núna tveimur mánuðum síðar er dvölin þar draumi líkast. Ekki nóg með það heldur sendi eldfjallgyðjan okkur úr landi með vænum hristingi og góðu "sparki". Það byrjaði nefnilega að gjósa um tveimur vikum eftir að við yfirgáum svæðið.

Í þjóðsögum birtist Pele mannkyninu sem falleg ung kona eða gömul kona og henni fylgir stundum hvítur hundur. Hún á það til að umbreytast sjálf í hund eða puttaferðalang. Ef þú neitar henni um greiða færðu að upplifa ógurlega reiði hennar.

Frumbyggjar Hawai'i persónugerðu öll náttúruöfl sem guði og gyðjur, og þannig heldur hin tiginborna Pele áfram að láta vita af sér frá toppi til sjávar. Landslagið ber vott um hennar ríki. Hún er táknmynd fyrir andstæðurnar, sköpun og eyðileggingu og hún beitir þessum kröftum sínum jöfnum höndum. Hún er umbreytandi afl.


Hvaðan kom Pele?

Sagan segir frá því hvernig Pele, ein af sex dætrum og sjö sonum sem fæddust Haumea (jarðgyðjunni) og Kane Milohai (skapara himins og jarðar ), kom til Hawaiʻi eftir að hafa verið gerð útlæg frá hinum goðsagnakenndu Kahiki eyjum við Tahiti af föður sínum vegna óstjórnlegra skapsmuna sinna.


Hún barðist við eldri systur sína, vatnsgyðjuna Namakaokaha‘i, sem eiginmaður hennar hafði tælt til lags við sig. Flestir elskendurnir sem Pele tók sér voru reyndar ekki svo heppnir að sleppa við reiði hennar og guldu fyrir með lífi sínu.


Elsti bróðir Pele, konungur hákarlanna Kamohoali‘i, gaf henni kanó sem hún og nokkur systkini hennar sigldu yfir hafið, á meðan hún barðist við vatnagyðjuna, systur sína, sem sendi brotsjó á eftir henni.


Pele kom fyrst að landi á eyjunni Kaua‘i, en í hvert sinn sem hún stakk stafnum sínum (grafarstafnum) í jörðina til að grafa grunn fyrir heimili sitt, flæddi sjór frá systur hennar yfir holurnar. Pele færði sig til og endurtók leikinn nokkrum sinnum í sömu tímaröð og jarðfræðileg myndun eyjanna. Tilviljun!


Hér má sjá hvar Pele stakk niður staf sínum
Hér má sjá hvar Pele stakk niður staf sínum

Pele lenti að lokum á Big Island þar sem henni tókst að búa til land án þess að systir hennar léti flæða yfir. Þar settist hún að í eldfjallinu Kilauea.


Varnaðarorð til ferðamanna

Til eru munnmælasögur af Pele í líki gamallar konu í alhvítum fatnaði sem hefur beðið ökumenn um far í Kilauea þjóðgarðinum. Þeir sem bjóða henni far upplifa tómt aftursæti stuttu síðar þegar horft er í baksýnisspegilinn. Minnir á söguna um Stapa-drauginn.


Bölvun Pele felst í því að gestir sem taka með sér "minjagrip úr náttúrunni" , fá ekki frið. Því gerist það reglulega að hraunmolar og skeljar berast í pósti til eldfjallamiðstöðvarinnar frá fólki sem telur sig hafa upplifað reiði Pele eftir að þeir yfirgáfu eyjuna. Ferðamennirnir skrifa innileg bréf, iðrast og lýsa þeirri ólukku sem þeir hafa orðið fyrir eftir að hafa ögrað Pele með þessum hætti. Þeir biðjast afsökunar og óska þess heitt að hraunmolinn verði færður aftur til heimkynna Pele. Um þúsund slíkra bréfa og pakka berast á ári hverju og eru oftast stílaðir á "Queen Pele" og berastvíðsvegar að úr heiminum.


Pele gegnir því líka landvernandi hlutverki og gæti verið líkt við okkar Grýlu, sem reyndar er mun meir illfygli skv. þeim sem best vita.


Nýjasta eldgosið

Pele gerir reglulega vart við sig, síðast þann 27. nóvember þegar hún sendi frá sér hraunflóð niður hliðar Mauna Loa. Gosið stóð til 11. desember, í rétt rúmar 2 vikur.


Gígurinn sem gaus úr heitir Moku'āweoweo en mest varð var við hraunflæði frá sprungisvæði neðar í hlíðinni. Þetta var fyrsta eldgosið í 38 ár hjá þessu virkast eldfjalli veraldar.


Eldfjallið Kīlauea var í áratugi eina eldfjallið sem gaus á Hawaii, en það er eitt af 6 virkum Hawaii-eldfjöllum sem HVO (Hawaiian Volcano Obervatory) fylgist með! Mauna Kea gaus fyrir nokkrum þúsundum árum, Haleakalā gaus fyrir nokkrum hundruðum árum, Hualālai gaus fyrir nokkrum öldum, Kama'ehuakanaloa (áður Lō'ihi Seamount) gaus árið 1996, og - þar til mjög nýlega - gaus Mauna Loa síðast árið 1984 .


Gosið var í raun túristagos eins og nýleg gos í Fagradalsfjalli og Merardölum. Hér er nokkrar svipmyndir sem ég fékk lánaðar af vefnum.Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir af ferð okkar vinkvennanna í elfjallaþjóðgarðinn, þar sem við gengum m.a. yfir Kīlauea gíginn sem gaus síðast 1959. Eins horfðum við yfir hrauntjörn sem sendir frá sér gufustróka og óskuðum þess innst inn að færi að draga til tíðinda, en Pele sendi okkur af landi brott áður en hún lét til skarar skríða.

Ferðin okkar til Hawaii var skipulögða af ferða skrifstofunni AltruVistas sem svo sannarlega er hægt að mæla með. Malia Everett sá til þess að þessi ferð verður okkur ógleymanleg.
2 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments

Rated 0 out of 5 stars.
No ratings yet

Add a rating
bottom of page