Varanlegt Vegabréf í Vasann
Að ferðast um internetið leiddi mig fyrir tilviljun á grein sem heitir "The science of Vanderlust". Þar komst ég að raun um að flakkarinn í mér er líklega ólæknandi því ferðaþráin er genatengd. Vængirnir á bakinu á mér eru sem sagt ekki englavængir heldur heilkenni sem heitir á ensku PPP - Permanent Passport in Pocket syndrome. Snarað yfir á íslensku er það VVV - Varanlegt Vegabréf í Vasa heilkennið.
Þetta var ákveðinn léttir og þegar ég fór að skanna fjölskylduna og frændgarðinn þá eru greinilega fleiri skyldmenni sem hafa þetta sama heilkenni. Ég hef oft velt fyrir mér útþránni sem kraumar og fær mig til að læra tungumál og sökkva mér ofan í ferðabækur. Þarna er skýringin komin.
Flökkugenið eða “wanderlust gene” hefur raðnúmerið DRD4-7R. Genið DRD4 hefur með dópamín framleiðslu í heilanum að gera og um 20% mannkynsins ber afbrigðið DRD4-7R en því er ekki jafndreift um heiminn. Það er margt sem bendir til þess að þjóðir sem hægt er að rekjaa til landkönnuða og mikilla þjóðflokkaflutninga hafi jafnvel meira af þessu geni í sér. Þetta afbrigði tengist forvitni og eirðarleysi og hefur einhverja fylgni við ADHD.
En hvort sem skýringin er þjóðflokkaflutningar fyrri tíma sem hafa ratað inn í erfðaefnið okkar eða sálfræðilegt ástand sem virkjast við ákveðin skilyrði, þá er eitt á kristaltæru. Besta meðferðin við þessu heilkenni er víst að meðtaka það og leyfa ferðaþránni að ráða.
Hér er greinin, eða öllu heldur greiningin mín!