top of page
2025 Göngu- og dekurferð til Marche

25. maí - 1. júní 2025

Marche hérað er eitt best geymda leyndarmál Ítalíu. Þetta rólega og strjálbýla hérað liggur á milli Adríahafsins og öllu þekktari nágranna þess, Toskana og Umbria. Sumir segja að Marche sé eins og Toskana var fyrir 50 árum síðan, hrátt en undurfallegt. Hér er enn tækifæri til að upplifa Ítalíu án mannfjöldans.

unnamed (7).png

Marche er staðsett á miðju stígvélinu, aftan á kálfanum austan megin, við Adríahafið. Stærsta borgin er Ancona sem stendur við sjóinn og er mikil skipahöfn. Flestir íbúar héraðsins búa við ströndina en inn til landsins eru dæmigerðir kastalabæir á fjallstoppum sem hanga utan í hlíðunum. Sveitirnar eru doppóttar með litlum þéttbýliskjörnum, þorpum og býlum.


Gönguferðirnar eru flestar utan alfaraleiða og á fáförnum stöðum í bland við stórkostlega útsýnisstaði. Þetta eru staðir sem rata ekki endilega inn í ferðahandbækur. Ferðin er hönnuð af sérfræðingum sem þekkja svæðið mjög vel og vita hvar hægt er að finna hið einstaka og dæmigerða fyrir svæðið. 


Göngudagarnir eru fimm, ýmist hálfir eða heilir dagar. Fyrsti göngudagurinn er létt 7 km ganga og lengsta gangan er 15 km. Við munum skoða Marche hérað bæði að innan og utan því við förum einnig ofan í jörðina og skoðum stórkostlegt hellakerfi. Þeir sem kjósa ef til vill að taka sér göngufrí einhvern daginn, geta látið fara vel um sig á hótelinu þann daginn. 


Markhópurinn fyrir þessa ferð er fólk á besta aldri, sem vill hreyfingu og taka vel á því nokkra daga í fríinu. Þess á milli þarf fólk að kunna að njóta lystisemda Ítalíu, láta dekra við sig og gera vel við sig í mat og drykk. Í bland við þetta er lögð áhersla á að kynnast landi og þjóð, sérkennum svæðisins og búa til minningar sem ylja. Þátttakendur í hverri ferð eru aldrei fleiri en 24.


Dvalið verður á Hotel Bel Sit sem er 3ja stjörnu hótel sem stendur á dásamlegum stað með útsýni yfir ströndina í Senigallia og nærliggjandi sveitir með einkennandi aflíðandi hæðum og gömlum þorpum. Hótelið býður upp á mjög góða aðstöðu fyrir gesti sína. Húsakosturinn er upphaflega frá 19. öld og stendur á rústum forns klausturs sem hefur verið smekklega innréttað og blandast vel inn í húsakynnin í dag. Herbergin eru látlaus en staðsetningin og útsýnið sem við njótum úr klausturgarðinum fyrrverandi er stórkostlegt.

Hotel Bel Sit býður upp á mjög góða aðstöðu til að njóta umhverfisins og láta dekra við sig. Stór og góð sundlaug er við hótelið, tennisvellir, líkamsræktaraðstaða og heilsulind þar sem hægt er að láta líða úr sér eftir vasklegar göngur dagsins. 


Heilsulindin hefur heitan pott, heita gufu, SAUNA og góða hvíldaraðstöðu. Kanna þarf bókunarstöðu ég gestamóttöku áður en aðstaðan er notuð. Aðgangseyrir er 15€ og reiknað er með allt að 90 mín dvöl í hvert sinn. Einnig er hægt að bóka nudd og annað dekur með fyrirvara. Hótelið á nokkur hjól sem hægt er að leigja.


Morgunverðurinn er fjölbreyttur og hægt að borða í sérstökum morgunverðarsal eða úti þegar veður er gott.


Veitingastaðurinn er í fallegum sal þar sem dekkað er upp fyrir kvöldverði. Boðið er upp á þriggja rétta máltíðir með bragðgóðum kjöt- og fiskréttum sem framreiddir eru skv. staðbundnum uppskriftum og venjum. Þjónað er til borðs. Hvert kvöld er með fyrirfram ákveðinn matseðil en hægt að velja milli tveggja fyrstu rétta og tveggja aðalrétta og skrá gestir sig í kvöldverð deginum áður.


Herbergin eru með loftkælingu en búast má við að það sé slökkt á henni á þessum árstíma. Góð vifta er í loftinu á öllum herbergjum.

  • Herbergin eru einföld, enginn íburður, eins og sést á myndum, enda gamalt klaustur.

  • Öll herbergin eru með baðherbergi, ýmist baðkar/sturta eða bara sturta.

  • Hótelið er í um 2km inn í landi og stendur á miklum útsýnisstað. Það er eiginlega útsýni í 360°.

  • Það er mjög stór verönd fyrir utan hótelið, með borðum, þar sem dásamlegt er að sitja og njóta útsýnisins í átt að sjónum.


Tvíbýlin eru ýmist Comfort eða Comfort Easy. Comfort herbergin eru stærri herbergi, ca. 16-17m2 og með stærra baðherbergi, baðkar/sturta og eru með fjallasýn. Comfort Easy herbergin eru minni og snúa í áttina að hafinu.


Einbýlin eru af tegundinni Comfort Easy sem eru ca. 14m2 + lítið baðherbergið með sturtu. Snúa í átt að hafinu.


Superior tvíbýli  er 18-20 m2 með baðkari/sturtu og sjávarsýn. 


Hótelið hefur aðstöðu niður við ströndina við Senigallia sem kölluð er flauels-ströndin. Upplagt fyrir þá sem vilja njóta strandlífsins þá daga sem tími gefst til. Á tennisvellinum við hótelið gefst tækifæri til að æfa bakhöndina og einnig er stutt í golfvöllinn í Conero ef þarf að pússa sveifluna. 


Hótelið hefur nokkur hjól sem hægt er að leigja og fylgja merktum hjólaleiðum í Scapezzano sveitinni í kringum hótelið.


Hér er kynningarmyndband frá hótelinu: https://www.youtube.com/watch?v=8B2y6VfCHCo

Heimsferðir er með ferðina í sölu og sér um bókanir, innheimtu, skilmála og tryggingar skv. ferðakskrifstofuleyfi nr. 2022-028 gefnu út af Ferðamálastofu.


Verð fyrir tvíbýli: 289.000 kr. á Comfort  og Comfort Easy herbergjum.

Verð fyrir tvíbýli: 314.000 kr. á Superior herbergjum.

Verð fyrir einbýli 329.000 kr. á Comfort Easy herbergjum


Möguleiki er að fá þriggja manna herbergi líka, en þá þarf að senda fyrirspurn á agustasigrun@flandrr.is 


HÉR er hægt að taka frá herbergi og bóka tvíbýli

HÉR er hægt að taka frá herbergi og bóka einbýli


Dagskrá er útgefin með fyrirvara um smávægilegar breytingar og tilfærslur á tímasetningum. Ítarlegri dagskrá með tímasetningum verður gefin út þegar nær dregur.  


Fararstjóri er Ágústa Sigrún Ágústsdóttir. Hún hefur mannauðsstjórnun og markþjálfun að aðalstarfi en ræturnar hennar eru í söng og fararstjórn sem hún sinnir jafnhliða öðrum störfum. 

Ágústa er menntaður leiðsögumaður frá Leiðsöguskóla Íslands og hefur unnið við fararstjórn á Ítalíu, Króatíu og Slóveníu yfir 20 ár og hún hefur einnig starfað sem leiðsögumaður á Íslandi fyrir ítölsku- og enskumælandi ferðamönnum um Ísland. Hún á sína uppeldisstöð í Marche-héraði og hefur heimsótt svæðið reglulega frá aldamótum.


Gönguleiðsögumaður er Niki Morganti sem er fæddur og uppalinn í Senigallia í Marche og þekkir því svæðið eins og lófann á sér. Hann er menntaður leiðsögumaður bæði fyrir náttúru- og fjallaferðir og er einnig með próf í náttúruvísindum.  Menntun hans er frábær grunnur fyrir leiðsögnina og hann nýtur þess að bæta við upplifunina með að tengja ferðirnar við sögu, menningu, hefðir og matarmenningu svæðisins sem hann fer um. Hann hefur komið nokkrum sinnum til Íslands með hópa og skipuleggur reglulega ferðir innan Ítalíu og til Lapplands, Nepal og Kanaríeyja.


Útbúnaðarlisti

Góðir en léttir gönguskór, utanvegaskór ættu að duga fyrir flesta. Ökklastuðningur alltaf góður samt. Göngustafir fyrir þá sem vilja. Hattur eða eitthvað til að hylja höfuðið er alveg nauðsyn, ásamt góðum sólgleraugum. Sólarvörn og varasalvi. Lítið handklæði til að þurrka svita. Kannski sessa. Lítill göngupoki og vatnsbrúsi til að fylla á. Mæli með síðbuxum, eða sem hægt er að fjarlægja skálmar af, til að lágmarka rispur á leggjum út af gróðri. Regn og/eða vindjakki. Kannski regnslá. Annar búnaður er undir hverjum og einum komið og hvað hentar best persónulega.


Innifalið í ferðinni: Flug með Play air til Feneyja. Ein 20 kg. taska innifalin. Hótel í 7 nætur með morgunverði, sundlaug og líkamsræktaraðstöðu. Fimm kvöldverðir, þar af einn á hótelinu. Tveir hádegisverðir. Allur akstur skv. leiðarlýsingu. Vínsmökkun. Ólífuolíusmökkkun. Hellaheimsókn og safn tengt hellunum. Staðar- og gönguleiðsögn nokkra daga og íslensk fararstjórn og leiðsögn allan tímann.


Ekki innifalið: Aðgangur í heilsulind og meðferðir á hótelinu, leiga á tennisvelli, hjólum og hjólabúnaði. Ferðir á frjálsum dögum. Nestispakkar. 

1. dagur – SUN 25. maí - Komudagur

Flogið til FENEYJA með PLAY kl. 14:50 og lent kl. 21:10. Um 4 klst í keyrslu en við stoppum á leiðinni til að hressa okkur við og til að tappa af og á.

2. dagur – MÁN 26. maí - Gönguferð í nágrenni hótelsins - 8 km – hækkun 180m – létt ganga

Við tökum morguninn rólega en förum svo í göngu um næsta nágrenni hótelsins í sveit sem heitir Scapezzano. Róleg ganga um hæðótt landslag og að mestu gengið eftir götum og malarvegum. Með okkur í för er Niki sem verður leiðsögumaðurinn okkar í gönguferðunum. Við borðum síðbúinn hádegisverð hjá Ele sem rekur sögulegan stað þar sem forfeður hennar settu á laggirnar á 19.öld. Þetta er kornmylla sem reyndar er komin í nútímabúning og framleitt er hveiti og mjög fyrir brauð og kökur af bestu sort. Við fáum að bragða á þeirra framleiðslu ásamt staðbundnu víni. Möguleiki að kaupa eðalpasta og annað sem hugurinn girnist áður en við örkum aftur af stað.

Komið heim um kl. 15:00. Kvöldverður á hótelinu er innifalinn í verði.

unnamed.jpg
3. dagur - ÞRI 27. maí - Senigallia og Loretello

Við förum í bæinn við ströndina og kynnumst sögu bæjarins sem rekur söguna aftur fyrir tíma Rómarveldis. Rúta skutlar okkur þangað og við fáum leiðsögn um helstu sögustaði bæjarins. Á fimmudögum er einnig markaðurinn á torgum bæjarins og alltaf hægt að gera góð kaup. Senigallia skartar fallegri sandströnd með hinu mjúka nafni flauelsströndin. Auk þess hefur hún fengið umhverfisvottun fyrir hreinleika. Við áttum okkur á umverfinu því upplagt er að koma til Senigallia á frjálsa daginn til að skoða nánar. Hótelið býður upp á frítt skutl fyrir allt að átta manns í einu.

Frjáls tími og hádegisverður á eigin vegum í Senigallia.

Við fáum aftur skutl heim og gerum okkur klár fyrir síðdegisgöngu milli þriggja fornra þorpa. Hálftími til að búa sig á meðan rútan bíður. Síðan ökum við inn til landsins þar sem gangan hefst. Gangan er ca. 8 km – hækkun 250m – frekar létt ganga. Við endum gönguna í bænum Loretello þar sem við fá drykk og nóg af forvitnilegu meðlæti til að gæða okkur á áður en við höldum aftur heim á hótel. Það sem boðið er ætti að vera ígildi kvöldverðar.
Komið á hótel um kl. 20:00.

unnamed (1).jpg
4. dagur – MIÐ 28. maí – Monte Conero og bærinn Sirolo - 11 km – hækkun 400m og lækkun 620m – meðalerfið ganga

Við förum með rútu í náttúverndarsvæðið, Monte Conero, þar sem við verjum megninu af deginum á göngu.
Monte Conero er eina fjallið eða höfðinn við Adríahafið allt frá Trieste í norðri þar til á syðst á Ítalíu.
Við tökum vel á því um morguninn sem er að mestu á fótinn en hádegishlé gerum við á stað þar sem veitingastað er að finna inni í skóginum. Einnig möguleiki að taka með sér nestispakka að heiman. Eftir hádegið göngum við útsýnisleið í áttina að bænum Sirolo, þar sem gangan endar. Þar er hægt fara á ströndina til að láta líða úr sér og taka sundsprett. Aðrir geta notið útsýnisins frá þessum dásamlega bæ og skoðað sig um.

Eftir frjálsan tíma hittumst við í rútunni og keyrum á fallegan stað þar sem við förum í vínsmökkun og fáum nóg að maula áður en haldið er heim á hótel. Komum heim södd og sæl um kl. 21:00.

unnamed (4).png
5. dagur – FIM 29. maí - Frjáls dagur

Hægt að sinna hugðarefnum eða slappa af. Kannski má athuga hvort kaupmátturinn sé í lagi og skjótast í búðir, fara á ströndina eða verja deginum á hótelinu við dekur og afslöppun. Hótelið býður upp á frítt skutl til Senigallia fyrir þá sem vilja.
Möguleiki að borða þriggja rétta kvöldverð á hótelinu, sem þarf að skrá sig í daginn áður.

unnamed (2).jpg
6. dagur – FÖS 30. maí - Elcito og Canfaito - 13 km – hækkun 450m – meðalerfið ganga

Við tökum daginn snemma og keyrum inn til fjalla. Að þessu sinni göngum við upp á hásléttunni og komum í þorpið Elcito sem var áður eyðiþorp en er aftur að öðlast líf. Elcito stendur í 821m hæð í hlíðum fjallsins San Vicino og er það sem eftir stendur af fornum kastala sem reistur var til varnar Benedikts-klaustrinu og hefur verið kallað Tíbet Marche-héraðs. Þaðan göngum við fjölbreytta leið um skóglendi og breiður með frábæru útsýni yfir Sibellini fjöllin. Gangan er töluvert á fótinn fyrsta hluta leiðarinnar en við munum taka nauðsynleg hlé svo að allir njóti sín á meðan á göngunni stendur. Síðasti hluti leiðarinnar er töluvert niður í móti en uppskeran er stórkostleg þar sem við lendum í bænum Elcito, ofan frá.

Við tökum með okkur nestispakka sem við gæðum okkar á í hádeginu. Hægt er að panta slíka nestispakka á hótelinu.

Á heimleiðinni borðum kvöldverð út við sjóinn á veitingastað sem sérhæfir sig í sjávarfangi. Við fáum að smakka marga framandi sjávarrétti en gæðin á hráefninu þar eru einstök. Frábær matarupplifun. Komið heim um kl. 22:00.

unnamed (3).jpg
7. dagur – LAU 31. mai - Marche að innan og utan - 10 km – hækkun 300m – frekar létt ganga

Við leggjum af stað í bítíð með rútu inn til fjalla þar sem við verjum deginum. Við förum í góða göngu fyrir hádegið en eigum svo hádegishlé þar sem lagt er af stað í hellaskoðun .Við ætlum nefnilega að skoða Marche að innan og skyggnumst inn í hina stórkostlegu Frasassi hella. Við heimsækjum líka safn sem tengist hellunum. Ef mögulegt er skoðum einnig sérkennilega kapellu sem er vel falin í hellakerfinu á þessum slóðum.

Áður en komið er á hótel komum við á stað þar sem framleidd er eðal ólífuolía. Við lærum um framleiðsluna, smökkum á afurðunum og fáum vel útilátið meðlæti og vín með sem ætti að duga sem kvöldverður. Komið heim á hótel um kl. 20:00.

unnamed (4).jpg
8. dagur – SUN 1. júní - Heimferðardagur

Við leggjum af stað um kl. 14:00 en hægt er að taka því rólega á hótelinu og nýta aðstöðuna þar eftir útskráningu á hótelinu kl. 10:00. Ekki mögulegt að halda herbergjum lengur en það. Léttur hádegisverður verður framreiddur áður en haldið er af stað.

Flug frá Feneyjum kl. 22:10 og lent í Keflavík um 00:45.

unnamed (5).png

unnamed (5).png

unnamed (5).png
bottom of page