2026 Upplifðu Suður-Afríku og Lesóto
3. - 18. febrúar 2026
Þegar veturinn heldur norðurhveli í sínum köldu greipum, býður suðrið upp á sól, hlýju og ævintýri. Hitastigið er á bilinu 25–35°C á þessum árstíma, svo veðráttan verður kærkomin upplyfting í skammdeginu. Suður-Afríka er gjarnan kölluð „heimurinn í einu landi“, og það ekki af ástæðulausu.
.jpg)
Ferðin hefst í Durban við Indlandshafið, þar sem strandir og menning suðurhluta Afríku taka á móti okkur. Við leggjum af stað í gegnum fjölbreytt landslag og náttúruperlur áleiðis til fjallalandsins Lesótó, sem við heimsækjum í einn dag. Þetta hæstliggjandi konungsríki álfunnar býður upp á einstakt landslag og menningu á allt öðrum skala en við þekkjum.
Í ferðinni upplifum við dýralíf á heimsmælikvarða; við leitum að hinum svokölluðu Big Five – ljóni, hlébarða, nashyrningi, fíl og vatnabuffaló og skoðum flóðhesta og krókódíla í sínu náttúrulega umhverfi.
Ferðinni lýkur í hinni stórbrotnu Höfðaborg, þar sem við njótum óviðjafnanlegrar náttúrufegurðar við Table Mountein (Taffafjall) upplifum áhrifaríka sögu Suður-Afríku og kynnumst arfleifð Nelson Mandela með heimsókn á sögustaði eins og Robben-eyju og á heimili hans í Durban.
SNEMMBÓKUNARVERÐ TIL 15. JÚLÍ 2025
Verð á tvíbýli pr. mann: 860.000 kr. / Snemmbókunarverð: 795.000 kr.
Verð á einbýli 990.000 kr. / Snemmbókunarverð:: 890.000 kr.
Staðfestingargjald er 100.000 kr. og er óafturkræft. Ef forföll verða þá er hægt að nota greitt staðfestingargjald upp í aðrar ferðir Fiðrildaferða.
SKRÁNING

Markhópur þessar ferðar er forvitið fólk sem vill kynnast Suður-Afríku með djúpri tengingu við land og þjóð og með ævintýri að leiðarljósi.
Ferðin er farin á vegum Fiðrildaferða sem eru með ferðina í sölu og sér um bókanir, innheimtu, skilmála og tryggingar skv. ferðaskrifstofuleyfi nr. 2022-028 gefnu út af Ferðamálastofu. Sure Voyager Travel er samstarfsaðlinn í Suður-Afríku sem hefur veg og vanda að skipulagningunni.
Ferðatímabilið er 3. - 18. febrúar 2026 en landpakkinn er 4. -17. febrúar. Við ferðumst í rúmgóðri 32ja sæta rútu, en hópurinn telur einungis 16 manns, sem tryggir þægindi á ferðadögum. Hótelin eru öll vel staðsett og með loftkælingu.
Við áskiljum okkur rétt til að breyta dagskrá með stuttum fyrirvara, ef þörf krefur, vegna óviðráðanlegra atvika.
Hótelin í ferðinni
Protea Hotel by Marriott Durban Umhlanga
Þetta þriggja stjörnu hótel býður upp á þægilega gistingu með nútímalegum herbergjum í hjarta Umhlanga Rocks, aðeins 18 km frá King Shaka alþjóðaflugvellinum.
Það er í göngufæri frá baðströndinni og flest herbergin bjóða upp á magnað útsýni út á hafið og með þakverönd og sundlaug. Herbergin eru smekkleg og stílhrein með eldunaraðstöðu, örbylgjuofni, ísskáp, borðbúnaði og hægt að laga sér kaffi og te. Loftkæling.
Anew Hluhluwe hotel & Safaris við þjóðgarðinn
https://anewhotels.com/hotels/lodge-hluhluwe/
Þetta er þriggja stjörnu hótel staðsett í hjarta Zululand, nálægt Hluhluwe-Imfolozi þjóðgarðinum, einum af elstu dýragörðum Suður-Afríku. Staðsett í náttúrulegu umhverfi með afrískum takti og lipri þjónustu starfsfólks sem hefur gildið „Hospitality is our game“ að leiðarljósi. Þar er útisundlaug, veitingastaður, menningarkvöld við varðeld. Heppilegur staður fyrir þá sem vilja upplifa náttúruna án þess að fórna þægindum. Loftkæling.
Premier Resort Sani Pass við rætur Lesótó
https://www.premierhotels.co.za/sani-pass
Hótelið er staðsett við rætur á Sani Pass fjallaskarðins og á bökkum Mkhomazana-árinnar, þar sem ferskt vatn rennur beint úr Drakensberg-fjöllunum. Einungis 19 km frá Underberg þar sem hótelið er komum við að landamærum Lesótó.
Hótelið býður upp á þægileg herbergi í náttúrulegu umhverfi Ezemvelo náttúruverndarsvæðisins. Svæðið er griðland fyrir Eland-Antilópuna og þar eru fjölmargar göngu- og hjólaleiðir fyrir þá sem vilja smá ævintýri. Leyfi þarf til að fara um Ezemvelo-verndarsvæðið og það eru fáanlegt í gestamóttöku hótelsins. Ekki sundlaug. Loftkæling.
City Lodge V&A í Höfðaborg
https://citylodgehotels.com/our-hotels/City%20Lodge%20Hotel/86
Þægilegt og vel staðsett hótel í hjarta Höfðaborgar, steinsnar frá V&A Waterfront, Bo-Kaap hverfinu og helstu verslunum og veitingastöðum. Hótelið býður upp á nútímaleg og snyrtileg herbergi með öllum helstu þægindum. Afþreyingaraðstaðan felur í sér lítið sundlaugarsvæði, líkamsræktarstöð og notalegt kaffihús. Góð staðsetning gerir það að frábærum kost fyrir ferðalanga sem vilja kanna borgina fótgangandi. Loftkæling.

Innifalið í verði ferðar
Flug með Icelandair og Turkish Airlines til Durban og heim frá Höfðaborg.
Innanlandsflug frá Durban til Höfðaborgar.
Loftkæld 32ja sæta rúta með bílstjóra.
4x4 farartæki þann dag sem farið er til Lesótó
Skoðunarferðir og aðgangseyrir samkvæmt ferðalýsingu.
Gisting á fjórum þriggja stjörnu hótelum í 13 nætur. Öll með loftkælingu á herbergjum.
Protea Hotel by Marriott Durban Umhlanga - 1 nótt + 2 nætur = 3 nætur með morgunverði
Anew Hluhluwe hotel – 3 nætur með morgunverði og kvöldverði
Premier Resort Sani Pass – 2 nætur með morgunverði
City Lodge V&A hotel – 5 nætur með morgunverði
Sjá í ferðalýsingu hvaða máltíðir eru innifaldar.
Enskumælandi staðarleiðsögn.
Íslensk fararstjórn.
Kynningar og undirbúningsfundur með fararstjóra og ferðaskipuleggjanda í Suður-Afríku fyrir brottför.
Ekki innifalið
Þjórfé. Ferðatryggingar. Málsverðir umfram þá sem taldir eru upp í ferðalýsingu
3. febrúar 2026 – ferðadagur
Brottför frá Keflavík með Icelandair seinni part dags kl. 15:25 og millilent í Istanbúl kl. 23:55. Flugið er um 5 ½ tími. Seinni flugleggurinn er með Turkish Airlines til Suður-Afríku kl. 02:05. Flugtími um 10 klst. Vélin lendir í Jóhannesarborg og þar er stutt stopp áður en haldið er áfram með sömu vél til lokaáfangastaðarins sem er King Shaka flugvöllurinn í Durban þar sem lent er kl. 13:30 þann 4. febrúar.
4. febrúar 2026 MIÐ - Durban - Þar sem fjölmenning og Indlandshaf mætast
Lent í Durban kl. 13:30. Verðum sótt og farið hótel í Umhlanga hverfinu í Durban þar sem gist verður í fyrstu nóttina.
Umhlanga Rocks er lífleg strandbær með fjöruga þorpsstemningu, fullur af verslunum og veitingastöðum, aðeins nokkrum metrum frá Promenade sem er vinsæll 5 km göngustígur sem liggur meðfram röð af glæsilegum hótelum, sjávarveitingastöðum og auðvitað hinum fræga vita og bryggjunni. Göngustígurinn er í miklu uppáhaldi hjá öllum sem vilja dást að fallegri ströndinni. Promenade-stígurinn frábær staður til að njóta Indlandshafsins.
Við tökum deginum rólega og búum okkur undir ævintýri næstu daga.

5. – 8. febrúar 2026 – St. Lucia vatnið og Hluhluwe-Imfolozi þjóðgarðurinn
Við leggjum af stað snemma þann 5. apríl. Á leiðinni þangað toppum við við St. Lucia vatnið sem er hluti af heimsminjasvæðinu iSimangaliso og stærsta ósavistkerfi Afríku. Þar förum við í 1½ klukkustundar siglingu um vatnið og leitum uppi flóðhesta og krókódíla í sínu náttúrulega umhverfi. Auk þess er fuglalífið við vatnið einstaklega fjölbreytt.
Eftir siglinguna keyrum við á hótel Anew Hluhluwe þar sem gist verður næstu þrjár næturnar. Morgun- og kvöldverður innifalinn alla dagana, en ekki hádegisverður.
Þaðan gerum við daglega út í skipulagða dýraskoðunarferð (game drive) í þjóðgarðinum. Þetta eru um 3ja tíma ferðir og eru leiddar af reyndum leiðsögumönnum sem þekkja svæðið og dýralífið vel.
Þjóðgarðurinn er elsti þjóðgarður Suður-Afríku og þekktur fyrir að hafa bjargað hvíta nashyrningnum frá útrýmingu. Á svæðinu má auk þess hinar fjórar af „Big Five“ tegundunum, ljón, fíla, hlébarða og buffalo, en þjóðgarðurinn er einn af fáum þjóðgörðum í Suður-Afríku þar sem öll fimm „Big Five“ dýrin eru til staðar. Auðvitað sjáum við fjölmargar aðrar dýrategundir eins og gíraffa, sebrahesta, antilópur og fleira.
Einstakt tækifæri til að njóta suðurafrískrar náttúru, fá innsýn í lífríkið og upplifa dýralífið í sínu náttúrulega umhverfi – allt í fylgd fagfólks og í afslöppuðu umhverfi.
Á leiðinni til Durban þann 8. febrúar gegnum bylgjótt og grænt landslag Midlands-héraðsins áum við á táknrænum stað þar Nelson Mandela var handtekinn í lestinni á leiðinni milli Durban og Jóhannesarborgar. Þess er minnst með listaverki á handtökustað Mandela. Við fáum tíma til virða fyrir okkur staðinn og safnið í tengslum við hann.
.jpg)
8. – 10. febrúar 2026 - Durban - Arfleifð, krydd og upplifun
Við komum til Durban eftir upplifunina í þjóðgarðinum og tökum kvöldinu rólega. Gist verður í tvær nætur á sama hóteli og fyrstu nóttina við komu til landsins, Protea Umhlanga hotel.
9. febrúar 2026 ÞRI – Menningardagur í Durban
Þennan dag sökkvum við okkur djúpt inn í fjölbreytta menningu og sögu Durban-borgar. Ræturnar liggja í einum af sterkustu ættum allra afrískra þjóðflokka, Zúlú. Nýlendumenning og bresk áhrif er áberandi því borgin varð þekkt sem „síðasti breski útibærinn“ Indverskir innflytjendur einkenna einnig fjölþjóðlega samfélagið í Durban.
Við hefjum daginn á heimsókn í KwaMashu, eitt þekktasta „township“ svæðið í Suður-Afríku. Þar fáum við innsýn í daglegt líf íbúa og kynnumst samfélagsandanum sem hefur mótast af lífsbaráttunni og samkennd
Við höldum svo áfram og förum á heimili Mahatma Gandhi, þar sem hann bjó á meðan hann starfaði í Suður-Afríku. Þar mótaðist friðarstefna hans og borgaraleg óhlýðni sem átti eftir að hafa áhrif á heimssöguna. Í Durban er ennþá stærsta indverska samfélagið í einni borg utan Indlands.
Næst liggur leið okkar á Victoria markaðinn, sem er lifandi og litríkur markaður þar sem finna má alls kyns handverk, indversk krydd, fatnað og minjagripi. Þar verður tími til að rölta um, skoða og njóta andrúmsloftsins.
Við kíkjum einnig á einstakan hluta borgarinnar þar sem finna má Zúlú-jurtamarkað, þar sem lækningajurtir og töfralyf eru enn stór hluti af daglegu lífi. Þar kynnist maður lifandi arfleifð og fornum siðum Zúlúmenningar.
Dagurinn endar á ljúffengan hátt með því að smakka ekta "bunny chow", sem er holaður brauðhleifur fylltur með með karrírétti og algengur götubiti í Durban. Þetta er bragðmikil og skemmtileg matarupplifun.
.jpg)
11. febrúar MIÐ – Upp Sani Pass að hjarta Lesóto
10. – 12. febrúar 2026 - Frá ströndinni í fjallasælu í Lesótó
Við kveðjum Durban í bili og ökum inn í gróðursælt og hrífandi landslag Drakensberg-fjallanna og gistum á Premier Resort Sani Pass næstu tvær næturnar. Huggulegt fjallahótel sem býður upp á rólegt andrúmsloft, stórbrotið útsýni og ferskt fjallaloft. Hér njótum við kvöldsins og hvílum okkur fyrir viðburðaríkan dag framundan. Hádegis- og kvöldverðir ekki innifaldir.
Í dag, 11. febrúar förum við í eina af mögnuðustu dagsferðum ferðalagsins – leiðangur upp Sani Pass, eitt ævintýralegasta fjallaskarð Suður-Afríku! Með leiðsögn reyndra ökumanna fikrum við okkur upp fjallvegi í sérútbúnum 4x4 farartækjum. Við förum upp í 2.874 metra hæð yfir sjávarmáli, þar sem andrúmsloftið er tærara, útsýnið ótrúlegt og andinn frjáls.
Lesótó er fjalllent landlukt konungsríki sem er algjörlega umkringt Suður-Afríku, með einstaka menningu og landslag sem skapar skýra andstæðu við láglendi nágrannalandsins.
Þegar upp er komið stoppum við í hefðbundnu þorpi í Lesótó, þar sem við fáum innsýn í líf og menningu Basotho-fólksins. Einnig gefst kostur á að heimsækja Sani Top Church, sem stendur í yfirnáttúrulegri fegurð.
Ferðin endar með viðeigandi hætti í hádegismat og drykkjum á "The Highest Pub in Africa", þar sem þú getur borðað, skálað og horft yfir stórkostlegt landslag á mörkum himins og jarðar. (Hádegismatur og drykkir ekki innifaldir)
.jpg)
12. febrúar FIM – Upplifun á leiðinni á flugvöllinn í Durban og flug til Höfðaborgar
Við tökum daginn snemma og leiðin liggur á flugvöllinn í Durban þar sem við tökum innanlandsflug tli Höfðaborgar. (Innifalið í verði ferðar)
Við munum gera stutt stopp við Reichenau trúboðamiðstöðina, þar sem farið verður í leiðsögn um Trappista-kirkjuna og gömlu hveitimylluna, sem gegnir nú hlutverki gistiheimilis. Þessi sögufrægi staður í KwaZulu-Natal geymir ríkulega menningararfleifð og gefur innsýn í líf og starf trúboða á svæðinu.
Við stoppum einnig í Bulwer, þar sem við heimsækjum Marutswa-skóginn. Reikna má með um 1 klst. og 15 mín. göngu og kynningu, undir leiðsögn staðarleiðsögumanns sem mun fræða okkur um einstaka náttúrufegurð svæðisins, fuglalíf og gróðurfar.
Komum á King Shaka alþjóðaflugvöllinn um kl. 15:00, þaðan sem við tökum flug til Höfðaborgar um kl. 16:30 (fer eftir flugtíma).
.jpg)
13. febrúar FÖS – Heimsókn í Robben eyju þar sem Mandela sat í fangelsi
12. – 17. febrúar – Höfðaborg og nágrenni
Við gistum á City Lodge V&A Waterfront hotel í Höfðaborg næstu 5 nætur.
Við verðum vel staðsett við Waterfront-svæðið – í göngufæri við verslanir, veitingastaði og líflegt andrúmsloft þar sem alltaf er eitthvað í gangi.
13. febrúar fáum við fylgd að Nelson Mandela Gateway – brottfararstöðinni til Robben-eyjar. Þar stígum við um borð í ferju sem flytur okkur út á eyjuna.
Þegar þangað er komið mun taka á móti okkur fyrrverandi fangi, sem leiðir okkur í gegnum áhrifaríka og persónulega ferð um eyjuna og sögu hennar, en algengt er að fyrrverandi fangar sjái um leiðsögn á eyjunni. Heildartími ferðarinnar er um það bil 4 klukkustundir, og innifalið er akstur frá hóteli.
Á meðan á heimsókninni stendur munum við ferðast um eyjuna með rútu, áður en við heimsækjum fangaklefa Nelson Mandela.
Eftir að í land er komið gefst tími til að slaka á og melta það sem fyrir augu bar í dag og njóta kvöldsins.
.jpg)
14. febrúar LAU – Vín, ostar og húgenottar í franska króknum
Í dag eigum við fallegan bragðlaukadag í vændum á vínræktarsvæðum Suður-Afríku, umlukin fjöllum og vínekrum. Fyrsta stopp dagsins verður í sögufræga bænum Stellenbosch, þar sem við förum í stutta gönguferð um miðbæinn og skoðum fallega enduruppgerðar byggingar í Cape Dutch-stíl.
Að því loknu keyrum við í um 30 mínútur til þess að heimsækja hinar myndrænu sveitir Franschhoek. Við lítum inn í minningarmiðstöð Húgenotta sem voru franskir mótmælendur sem flúðu trúarofsóknir í Frakklandi og áttu stóran þátt í að móta samfélag og vínmenningu í Suður-Afríku, einkum í Franschhoek.
Við heimsækjum síðan vínekrusvæði, þar sem við lærum um vínframleiðsluferlið. Við fáum að smakka úrval vína og bragða á dýrindis ostum, allt saman í stórbrotnu umhverfi með fjöllin í Franschhoek sem bakgrunn.
Hádegisverður ekki innifalinn.
.jpg)
15. febrúar SUN - Höfðaborg – Taffafjall, Malay Quarter og Bo-Kaap hverfið
Í dag er skoðunarferð um sjálfa Höfðaborg. Fyrsta stopp dagsins er eitt þekktasta kennileiti borgarinnar, Table Mountain eða Taffafjall. Við förum upp með kláfi og njótum stórkostlegs útsýnis yfir allan skagann, lengra en augað eygir.
Að því loknu heimsækjum við helstu byggingar og svæði miðborgarinnar, þar á meðal þinghús Suður-Afríku og Company’s Gardens, sögufrægan almenningsgarð.
Malay Quarter / Bo-Kaap er líflegt og sögufrægt hverfi í miðri Höfðaborg sem gefur innsýn í sögu þrælahalds, trúfrelsis og fjölbreyttrar menningararfleifðar í Suður-Afríku og hefur sterka tengingu við múslimska og malaýska samfélagið. Þar lítum við inn og borðum saman hádegisverð sem er innifalinn. Kvöldið frjálst.
.jpg)
16. febrúar MÁN - Cape Point & mörgæsir – dagur við endimörk meginlandsins
Stórbrotinn dagur framundan í rútuferð sem liggur í gegnum Seapoint og Camps Bay, eftir Victoria Road, þar sem við njótum útsýnis yfir tignarlega Tólf postula fjallgarðinn. Við fylgjum þessari stórkostlegu strandleið áfram að hinu víðfræga Chapman's Peak Drive, sem liðast meðfram björtum klettum og hafinu.
Við endum förina við Cape Point, þar sem Atlantshaf og Indlandshaf mætast. Þar rísa stórbrotnar klettabrúnir yfir úfnu hafi og útsýnið frá vitanum ofan á hásléttunni er engu líkt. Cape Point er ekki aðeins jarðfræðilegt undur, heldur einnig táknrænn staður sem markar suðurenda meginlandsins – kraftmikill og kyrrlátur í senn.
Á heimleiðinni stoppum við í heillandi sjávarbænum Simon’s Town og Boulders Beach, þar sem heimkynni afrísku mörgæsarinnar eru. Þar sjáum við þær í sínu náttúrulega umhverfi meðal gróðurs og granítkletta.
Eftir það njótum við útsýnisins meðfram suðurströndinni og keyrum í gegnum Kalk Bay, sem er sjarmerandi sjávarþorp. Áfram um Muizenberg, sem er þekkt fyrir breiðar sandstrendur og litríkar baðhúsaklefa.
Við ljúkum þessari einstöku og fjölbreyttu ferð okkar um Suður-Afríku með ógleymanlegri matarupplifun. Á veitingastaðnum GOLD fáum við að njóta tónlistar og fjölbreyttra rétta hvaðanæva úr Afríku í lifandi umhverfi – og jafnvel læra að tromma á afrísk hljóðfæri, líkt og innfæddir!
(Kvöldverður innifalinn en ekki hádegisverður)
.jpg)