top of page
Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Brýrnar í Ljubljana

Updated: Apr 16

Það er hægt að verja heilum degi í að zikkzakka yfir 17 brýr sem liggja yfir ánna Ljubljanica í borginni Ljubljana. Áin rennur umhverfis kastalahæðina og skiptir borginni eiginlega í tvennt. Hún hefur verið helsta flutninga- og verslunarleið um aldir ásamt því að valda usla með flóðum í borginni. Brýrnar hafa allar sína sögu og sérkenni og þær sem eru næst gamla bænum eru vel þess virði að fjalla um.


Fyrsti vísir að brú yfir ánna var reist á fornum rómverskum tíma og var úr timbri, en hún er horfin með öllu. Í dag er árbakkinn sláandi hjarta dag- og næturlífs þessarar fögru höfuðborgar Slóveníu og þess vegna hefur brúnum fjölgað umtalsvert í gegnum árin.


Drekabrúin

Zmajski most þarf enga stóra kynningu, það er augljóst hverjum brúin er tileinkuð. Upphaflega áttu ljón að prýða brúna en arkitektinn Jurij Zaninović ákvað að nota drekamótív til að heiðra drekann sem er tákmynd borgarinnar. Á hverjum brúarstólpa situr því mynduglegur dreki.


Brúin er byggð árið 1901 þó svo að ártailð 1848-1888 standi á henni og er fyrsta mannvirki í aðskilnaðarstíl (secessionist) sem byggt var í Ljubljana. Einfaldast er að fjalla um þennan stíl sem "Vínar Art Nouveau" stílinn og er hann mjög einkennandi í Ljubljana. Árið 1895 varð stór jarðskjálfti sem eyðialagði fjölmargar byggingar og tískustraumar á tíma uppbygginarinnar ver einmitt ofangreindur stíll sem útskýrir það yfirbragð sem borgin hefur í byggingastíl.


Einn af drekunum sem sitja á brúnni er þessi hér og vitað er að þegar hrein mey gengur yfir brúnna dilla þeir skottinu.



Jože Plečnik er slóvenski arkitektinn "með ákveðnum greini". Hann lagði sitt af mörkum til að skapa heimsborgaralegt yfirbragð við hönnun og endurbyggingu sumra þessara brúa. Hans framlag hefur sett mikinn svip á borgina í heild sinni og hann er í hávegum hafður fyrir list sína í dag, þó svo að verk hans hafi ekki endilega notið hylli á sínum tíma. Það er talið að Plečnik hafi verið innblásinn af brúnum í Feneyjum þegar hann teiknaði brýrnar tvær sem risu skv. hans teikningum. Árbakkinn hefur feneyskt yfirbragð og hann mun jafnframt hafa ákveðið hvaða trjám skyldi plantað meðfram ánni. Það er því grátvíðir sem prýðir árbakkana.


Slátrarabrúin

Hér fyrir neðan sjáið þið hvernig brúin átti að líta út skv. teikningu Plečnik og hvernig hún lítur út í dag.

Mesarski most var byggð árið 2010 en skv. teikningum Plečnik af borgarskipulaginu var alltaf gert ráð fyrir brú á þessum stað fyrir slátrarana til að athafna sig. Sú brú reis aldrei en nafnið hélst þrátt fyrir það. Sá sem hannaði brúnna heitir Jurij Kobe en það er samt fátt sem minnir á nafnið þegar maður gengur yfir hana. Gólfið eru úr gleri og þúsundir hengilása hafa verið festir við handriðin. Hún gegnir því nú því hlutverki að innsigla ástina en ekki að selja kjöt af nýslátruðu. Sérkennilegar styttur eftir Jakov Brdar vekja athygli á og við brúna. Þar eru m.a. Adam og Eva mjög skömmustuleg eftir að hafa verið vísað úr Paradís. Svo virðist sem þau séu á leið í Dómkirkjuna. Þarna er líka stytta af Prómóþeusi eftir að hfa áttað sig á mistökunum sem hann gerði með því að kenna mannskepnunni að notfæra sér eldinn.


Þríbrúin

Tromostovje, eða þríbrúin, hefur frá 1842 komið í stað trébrúar frá miðöldum sem tengdi löndin í Vestur-Evrópu við Balkanskaga. Á árunum 1929-1932 endurgerði urmæddur Plečnik brúnna og bætti tveimur göngubrúm við sitthvoru megin við þá upphaflegu. Það gerði hann til að gefa gangandi vegfarendum öruggari leið yfir brúna, framsýn hugsun í þá daga. Brúin er mikið augnayndi og tengir aðaltorgið við gamla bæinn með þessum einstaka hætti.


Skósmiðabrúin

Čevljarski most er fjórða brúin sem Plečnik hannaði og önnur tveggja sem reis. Hún var byggð á árunum 1931-1932 í stað eldri yfirbyggðar brúar þar sem skósmiðirnir ráku verslanir sínar og reyndar bjuggu þar líka. Þeir fundu glufu á löggjöfinni og komust hjá því að greiða skatta. Löggjöfin náði yfir starfsemi á landi og á vatni en þeir báru því við að þeir byggju ekki í borginni, því þær væru á brú sem var hvorki á vatni né á landi. Sagt er að þeir hafi komist upp með þetta í einhvern tíma.



Stúdentabrúin

Þetta er líklega nýjasta brúin og ber þetta nafn því hún var teiknuð af nemum í arkitektúr í borginni og var hugsuð sem tímabundið verkefni. Á þessum stað hafði Plečnik gert ráð fyrir brú en hún ekki orðið að veruleika, eins og raunin varð með Slátrarabrúnna. Árið 2012 var haldin hönnunarsamkeppni og tillögur arkitektastofunnar Arhitektura d.o.o. báru sigur úr bítum. Ákveðið var að byggja látlausa brú sem myndi ekki reyna að keppa við hönnun Plečnik á brúm beggja vegna við stúdentabrúarinnar.



Hradeckega brúin

Þessi brú þótti mikið verkfræðiafrek og er ein af fyrstu hengibrúm í heiminum og eina steypujárnsbrúin sem varðveist hefur í Slóveníu. Hún ber nafn borgarstjórans sem skipulagði byggingu hennar en það var austuríkismaður að nafni Johann Hermann sem hannaði hana. Hún fékk viðurnefnið líkhúsbrúin (Mrtvaški most) um tímar því bílar frá sjúkrahúsinu færðu líkin þaðan yfir í líkhúsið sem var hinum megin við ánna. Það "gælunafn" hefur haldist og íbúar nota nöfnin jöfnum höndum.


Hún var reist árið 1867 og stóð upphafleg þar sem skósmiðabrúin stendur núna en var færð árið 1931 þegar margnefndur arkitekt Jože Plečnik teiknaði nýja Skóðsmiðabrú. Brúin hefur eiginlega verið á flakki síðan þá, ýmist er opin eða lokuð fyrir bílaumferð en síðan 2011 er hún göngu- og hjólabrú.

Recent Posts

See All

Comments

Rated 0 out of 5 stars.
No ratings yet

Add a rating
bottom of page