Það eru margar skrýtnar skrúfur sem maður kynnist í fararstjórninni. Þessir furðurfuglar vekja alltaf áhuga minn og ég mér nokkrar uppáhalds.
Ég rakti söguna hans Erazem í Slóveníu í nýlegu bloggi en núna er sérvitringurinn, orustuflugmaðurinn, rithöfundurinn, ljóðskáldið, flugmaðurinn, safnarinn, blaðamaðurinn, stjórnmálamaðurinn, leikritaskáldið, einræðisherrann og hermaðurinn Gabriele D'Annunizio viðfangsefnið. Prinsinn af Montenevoso og Hertoginn af Gallese.
Hann var virkur og virtur höfundur á árunum 1889-1910 og svo fengu skrif hans annað vægi og aukna merkingu í hans pólitísku þátttöku á seinni hluta ævi sinnar. Þó svo að Gabriele hafi ekki verið virkur í starfi fasistaflokksins þá hafði hann áhrif á meðal fylgjenda hugmyndafræðinnar í árdaga flokksins.
Gabriele fæddist í bænum Pescara árið 1863 sem er sunnar á Ítalíu en hann bjó við Gardavatn í bæ sem heitir Gardone Riviera, skammt frá Saló sín fullorðinsár. Heimili hans heitir því þrungna nafni "Vittoriale degli Italiani". Hann ánafnaði ríkinu eigninni eftir sinn dag. Villan er núna safn sem geymir ótrúlegasta samsafn af "munum", t.d. tundurspilli MAS96 og SVA-5 flugvél sem hann flaug sjálfur í frægri proparganda flugferð til Vínarborgar. En þar er einnig hið ótrúlega grafhýsi sem var hannað og reist að beiðni Mussolini sem minnismerki um merkan mann. Þeir eiga báðir sínar einræðislegu tilburði og tengingu við bæinn Saló við Gardavatn. Mussolini var plantað þar í leppríki undir lok seinna stríðs skammt frá villunni hans Gabriele. Einmitt.
Gabriele lét sig varða málefni Ítala í fyrri heimsstyrjöldinni og það styrkti ofur-þjóðernishyggju hans og einskonar þráhyggju um endurheimt lands. 10. september 1919 var undirritaður Treaty of Saint-Germain sem leisti upp austurísk-ungverska keisaraveldið. Skv. viðræðudrögum að sáttmála um hvernig landsvæðinu yrði skipt niður í kjölfar stríðsins átti Fiume (nú Rijeka í Króatíu) ekki lengur að tilheyra Ítalíu. Meirihluti íbúa borgarinnar var ítalskur en samsetning íbúanna nærliggjandi sveitum var fjölbreyttari. Þann 12. september 1919 marseraði Gabriele með sínum fylgisveinum inn í borgina og lýsti yfir stofnun sjálfstæðs ríkis. Fyrirætlanir plottaranna var að Ítalía myndi innlima svæðið (aftur) undir Ítala, en þeim var neitað um það. Þessi innrás var því gerð í óþökk ítalska ríkisins sem vildi að Gabriele og co. myndu þegar í stað hætta þessum aðgerðum sínum og hverfa frá.
Samsetningin á liðsmönnum Gabriele var jafn skrautleg og verknaðurinn. Stuðningsmenn hans voru menn á borð við Arturo Toscanini fiðluleikara en liðið hans samanstóð af 2600 hugsjónar - og bardagamönnum. Á þessum tíma voru íbúar Fiume/Rijeka um 50.000 talsins og landsvæðið 28 km2.
Ári síðar, 8. september 1920, var stofnun ríkisins formlega lýst yfir undir nafninu Italian Regency of Carnaro. Stjórnarskráin kynnt til sögunnar og Gabriele tilgreindi sjálfan sig einráðan. Stjórnunarstíllinn, aðferðirnar, hluti stjórnarskrárinnar og fleira hafði áhrif á Benito Mussolini og sagan lýsir því þannig að Gabriele hafi verið undanfari, kannski áhrifavaldur að mótun fasismans á Ítalíu. Hann hefur verið kallaður Jóhannes skírari fasismans. Auðveldlega má lýsa gjörðum hans sem einræðistilburðum. Hann lofaði þessari nýju "þjóð" atkvæðagreiðslu sem var svo haldin en hann var ekki sáttur við niðurstöðuna og hafnaði henni. Kunnuglegt þema!
Til að gera langa sögu mjög stutta þá vanvirti hann annan sáttamála sem gerður var,
Treaty of Rapallo, og 12. nóvember1920 lýsir hann yfir stríði gegn Ítalíu. Á aðfangadag 1920 réðst ítalskur her inn í borgina og þvingaði Gabriele og fylgismenn hans út úr borginni og til að gefast upp.
Í sögulegu samhengi er þetta var í rauninni einstök félagsleg og menningarleg "tilraun".
Eftir heimkomuna hélt Gabriele áfram að sinna sínum sínum hugðarefnum og stundaði pennaáróður. Það var sérstakt sambandið á milli Gabriele og Mussolini. Mussolini leit á hann sem ógn því hann var vinsæll og naut lýðhylli. Um tíma ríkti mikil spenna á milli þeirra. Árið 1922 datt Gabriele út um glugga á heimili sínu, jafnvel talið að honum hafi verið sýnd morðtilraun. Hann slasaðist mikið og dró sig að mestu úr sviðsljósinu en hélt eftir sem áður eftir að koma hugmyndum sínum á framfæri. Segja mætti að Mussolini hafi jafnvel mútað honum til að halda sig fjarri sviðsljósinu. Aðspurður á hann að hafa sagt: "When you have a rotten tooth you have two possibilities open to you: either you pull the tooth or you fill it with gold. With D'Annunzio I have chosen for the latter treatment."
Gabriele hélt áfram afskiptum sínum af stjórnmálum allt til dauðadags. Reyndi að hafa áhrif á Mussolini að ganga ekki í eina sæng með Hitler og vitað er að þeir hittust á lestarstöðinni í Verona árið 1937 þar sem Gabriele reyndi að sannfæra "vin sinn" um yfirgefa bandalagið sem hann hafði gert við öxulveldin.
D'Annunzio dó af hjartaáfalli á heimili sínu í Gardone Riviera árið 1938. (12. mars 1863 – 1. mars 1938)
P.S. með fyrirvara um flækjustigs þessara mála birti ég þetta blogg, meira til gamans og til að setja persónur og leikendur í samhengi. Kvensemin hans og kynlífsþráhyggjan er svo efni í fleiri pistla.
Comments