Puccini hét fullu nafni Giacomo Antonio Domenico Michele Secondo Maria Puccini og var fæddur í Lucca þann 22. desember 1858 . Hann dó 29 nóvember 1924.
Einkalíf Giacomo Puccini var jafn litríkt og óperur hans. Hann lifði fjörugu ástarlífi og framhjáhöldin voru fjölmörg og rötuðu mörg hver inn í óperur hans með einhverjum hætti. Puccini var þekktur fyrir að daðra við (og "rúmlega" það) söngkonur í óperum sínum og hann fann sér innblástur eftir ýmslum leiðum.
Konur settu mark sitt á alla tilveru hans, þær voru (ásamt sígarettunum sem hann byrjaði að reykja tólf ára gamall) fastur liður í lífi Puccini.
Ég ætla að hlífa ykkur við lýsingum tengdar við kynlífsfíkn. Miðað við þær sögur sem til eru af honum, gengi hann líklega ekki laus í dag... Hann lýsir sér reyndar sjálfum sem miklum gallagrip.
Hann hóf samband við Elviru Gemignani, gifta konu. Eiginmaður hennar, Narciso Gemignani, var þekktur kvennamaður og Elvira var ekki ánægð í hjónabandinu. Hún varð ólétt eftir Puccini og þurfti að flytja frá Lucca til að eignast barnið og forðast hvers kyns slúður. Þegar Narciso var svo myrtur af eiginmanni annarrar konu sem hann átti í ástarsambandi við, gat Elvira gifst Puccini. Þá var sonur þeirra, Antonio, orðinn 17 ára gamall og fékkst loks viðurkenndur sem lögmætur sonur þeirra. Elvira átti svo eina dóttur úr fyrra hjónabandi hins myrta Narciso, Fosca að nafni.
Eitt framhjáhald sem átti sér stað í raunheimum hafði þó afdrifaríkar afleiðingar á líf hans og hans nánustu eftir það. Árið 1909 sakaði Elvira þjónustustúlku sína, Doria Manfredi, opinberlega um að eiga í ástarsambandi við Puccini. Stúlkunni varð svo um þessar ásakanir og skömminni sem þeim fylgdi að hún svipti sig lífi. Við krufningu kom í ljós að hún var hrein mey.
Sumar heimildir segja að hún hafi verið að sendast með bréf fyrir Puccini sem átti í ástarsambandi við frænku hennar, Giulia Manfredi. Elvira var dæmd í fimm mánaða fangelsi fyrir falskar ásakanir en Puccini greiddi sekt til að leysa hana úr haldi og bætur til fjölskyldu Doriu. Þau fluttu í sundur eftir þennan hildarleik, um tíma. Á sama tíma er eiginmaður Elviru myrtur og hún getur loksins gifst Puccini, laus úr hjónabandinu. Má ske að Puccini hefði ekki gifst Elviru eftir öll þessi ár og eftir þetta atvik, ef ekki hefði komið til alvarlegt bílslys sem hann lenti í og endaði næstum líf hans. Þessir þrír atburðir áttu sér stað nánast á sama tíma - sjálfsvíg Doriu, bílslysið og morðið á Narciso, eiginmanni Elviru.
Margir fræðimenn telja að þessi reynsla, þ.e. sjálfsvígið, hafi haft veruleg áhrif á mörg síðari verka Puccini. Sumir túlkendur verka hans hafa leitt líkum að því að sálfræðileg áhrif þessa atviks á Puccini hafi truflað hæfni hans til að ljúka tónverkum síðar á ferlinum og einnig haft áhrif á þróun persóna hans eins og t.d. Liù (Turandot), þrælastúlka sem deyr á hörmulegan hátt af völdum sjálfsvígs.
Á þeim tíma var Puccini að vinna í óperunni La Fanciulla del West og kannski það sé ekki tilviljun að Giulia rak bar, alveg eins og Minnie, aðalpersónan í óperunni sem hann var með í smíðum þá.
En það er ekki allt búið enn.
Fram hafa komið gögn sem styðja það að umrædd Giulia, sem hann átti í ástarsambandi við, hafi eignast son með Puccini, sem líka var skírður Antonio. Í janúar árið 2007 kemur fram kona að nafni Nadia sem hefur rykfallna ferðatösku í fórum sínum. Hún sýnir innihaldið manni að nafni Paolo Benvenuti sem var að skyggnast inn í líf Puccini og velta fyrir sér hvar Puccini hefði fundið innblásturinn fyrir verk sín. Margt bendir til þess að skáldagyðjurnar hafi verið hjákonur sem áttu margt sameiginlegt með þeim persónum sem hann var að skapa í óperum sínum hverju sinni. Paolo Benvenuti var að búa til kvikmynd þegar þessar upplýsingar rak á fjörur hans og úr varð myndin Puccini e la fanciulla (Puccini og stúlkan) sem frumsýnd var í á Feneyja-kvikmyndahátíðinni (Leone d'oro) árið 2008, þar sem rakin er saga hinnar ólánsömu stúlku, Doriu og ástarsambandið við Giulu.
Í ljós kemur að í töskunni eru um 40 handskrifuð bréf og ýmis skjöl í tengslum við sjálfsvíg frænku hennar, Doria. Nadia er sum sé hugsanlega dóttir Antonio, sem er óskilgetni sonur Puccini. Þessi Antonio var alinn upp í Pisa og deyr bláfátækur maður, árið 1988, þá 65 ára gamal. Sama banamein og meintur faðir hans og samnefndur bróðir.
Með töskuna sem sönnungargagn og margar myndir sem sýna hversu mikill svipur er á milli hennar ættboga og Puccini, fer Nadia þessi fram á DNA rannsókn en Simonetta fékk þeirri beiðni hnekkt.
Já þetta er að verða alvöru drama.
Simonetta þessi, sem bar áður eftirnafnið Giurumello, hafði nefnilega barist fyrir rétti sínum að fá viðurkennt að hún væri óskilgetin dóttir Antonio Puccini. Hún fékk það í gegn árið 1980, 34 árum eftir að pabbi hennar dó árið 1946, án þess að eignast löggilda erfingja með konu sinni, Rita Dell’Anna. Þar með varð Puccini afi hennar og hún tók upp eftirnafnið Puccini. Hún hefur haldið nafni hans hans á lofti, stofnaði félag í kringum heimilið Torre del Lago. Simonetta var fædd 1929 en lést fyrir 4 árum, árið 2017.
Ekki laust við að það sé vottur að kómík í þessari fléttu.
Söguþráðurinn er að vinda sig upp í að verða efni í nýja Puccini óperu, sem byggir á sönnum viðburðum - í rauntíma.
Simonetta: “My grandfather was not a perfect man, but he was a truly great artist. The art stands for itself.”
Alltént. Í dag á Puccini enga lögmæta erfingja - en það gæti breyst í náinni framtíð.
Addio, senza rancor - Addio fiorito asil
Heimildir:
Comments