Það er eitthvað aðdráttarafl sem gamlar sögulegar byggingar hafa og okkur langar einhvern veginn til að bjarga þeim öllum. Villa Fiori er einmitt slík bygging sem þarf á ást og umhyggju að halda, eins og við öll reyndar.
Villan stendur frekar tannlaus við ánna Lima í Bagni di Lucca, bæjarhluta sem kallast Ponte a Serraglio. Villan hefur munað sinn fífil fegri - kannski kaldhæðin staðreynd í ljósi þess að nafnið útleggst sem Blómavillan.
Garðurinn sem tilheyrir villunni hefur hinsvegar fengið hlutverk og ákveðinn hópur ábyrgra borgara sem kalla sig Borgo degli Artisti halda þar reglulega viðburði og hugsa um garðinn. VIð rekumst á skemmtilegar tilvísanir í dverga og náttúruvætti og sérkennilegar styttur af fólki í sundstellingum, stóðu þar um skeið. Þar eru líka stundum yoga-tímar og ýmsar uppákomur og kynningar.
Umgjörðin um garðinn er líka einstök. Það er eins og garðurinn hafi verið hannaður til að næra ímyndunaraflið og stíga inn í annan hugarheim. Sérkennilegir turnar standa vörð við ánna Lima sem rennur þar framhjá og framkallar róandi nið.
Villa Fiori hét upprunalega Villa Pieri en núverandi nafn hennar kemur frá Fiori barón sem keypti eignina um miðja 19. öld. Eignin var í útleigu fyrir þann tíma og var mun minni bygging, kassalaga og á fjórum hæðum. Það var svo Fiori barón sem lét breyta villunni í einskonar miðaldahöll. Hann lét t.d. bæta við turni efst á byggingunni og áðurefndum turnum sem reistir voru á lóðamörkunum.
Nýjasta endurgerð hússins var gerð af Paolinelli á árunum 1916-1917 þegar villan var í eigu Jean Varraud sem þá rak heilsuböðin í Bagni Caldi, allt til ársins 1968. Stærðin á þessu flykki eru litlir 1,250 m² og garðurinn þekur 8,880 m².
Ásýndin hefur því breyst mikið í áranna rás eins og þessar myndir bera með sér. Paolinelli gerði sýnar endurbætur í eclectic style, einskonar "bland í poka" stíll sem notfærir sér það besta úr mörgum byggingarstílum.
Vart hefur verið við hústökufólk í byggingunni en Blómavillan er enn til sölu ef þið hafið áhuga. Ýmsar hugmyndir um notkun hússins hafa verið viðraðar og vonandi er stutt í að skriður komist á áform um að finna byggingunni verðugt hlutverk. Bæjarstjórnin hefur gefið leyfi fyrir endurreisninni og nauðsynlegum breytingum. Jafnframt liggur fyrir leyfi til að byggja annað hús við hliðina með útisundlaug og bílastæðakjallara.
Það er samt allt í biðstöðu ennþá , ein höndin upp á móti annarri hjá þeim sem taka ákvarðanir. Marglaga stjórnsýslan er ekki til þess fallin að smyrja tannhjólin svo að villan verði loks ættleidd og fái þann sess sem hún á skilið á þessum sögufræga stað.
Allt er á huldu hvað varðar framkvæmdir og svo sannarlega kominn tími til að grípa til aðgerða og seilast djúpt í vasana. Villan hefur sýnt seiglu hingað til en mun ekki geta staðist tímans tönn mikið lengur.
Skrifað fyrir Hótel La Corona
Áður birt á Facebook síðu hótelsins 22.4.2021 - endurritað 13.9.2021
Yorumlar