Appíski vegurinn
- Ágústa Sigrún Ágústsdóttir
- May 28
- 3 min read
eða Via Appia lá frá Róm til Brindisi í Puglia og var ein af mikilvægustu og þekktustu rómversku samgönguleiðunum. Vegurinn var mikilvægur fyrir verslun og herflutninga og hafði mikla þýðingu fyrir útþenslu Rómarveldis. Meðfram veginum voru margar mikilvægar borgir og staðir.
Appíski vegurinn hefur verið kallaður „Drottning veganna" eða Regina Viarum.

Tuttugu og níu slíkir þjóðvegir lágu út frá Róm, en þessi var sá fyrsti og er enn sá frægasti. Vegurinn endaði í Brindisi en önnur af tveimur súlunum sem varðaði enda vegarins er núna í Lecce. Hún var gjöf frá Brindisi til Lecce ári9 1666 sem þakklæti til heilags Oronzo fyrir að hafa aflétt plágunni miklu.
Stutt ágrip:
Appíski vegurinn var byggður árið 312 f.Kr. að frumkvæði Appio Claudio Cieco (Appíus Kládíus Caecus, sem var ræðismaður í Róm. Appíus er skírnarnafnið og Kládíus er ættarnafnið. Caecus þýðir „blindi“, þannig að heiti hans merkir Appíus Kládíus hinn blindi. Hann var áhrifamikill rómverskur stjórnmálamaður og auk þess þekktur fyrir byggingu fyrsta vatnsveitukerfis Rómar (Aqua Appia).
Upphaflega lá vegurinnn frá Róm til borgarinnar Capua semer rétt norður af Napoli, en var síðar framlengdur suður til Brundisium (Brindisi) við Adríahafið, mikilvægrar hafnar fyrir siglingar til Grikklands og landsins helga.
Alls var vegurinn yfir 540 km langur. Vegurinn er hrifandi vitnisburður um verkfræðisnilld Rómverja. Hann er lagður úr stórum basaltsteinum, sem voru settir niður með slíkri nákvæmni að margir hlutar hans eru enn heillegir í dag. Um það bil fyrstu 20 km af appíska veginum út frá Róm eru núna hluti af þjóðgarði og vinsæll göngu- og hjólaleið sem kallaður er „Appíagarðurinn” (Parco dell'Appia Antica). Frá árinu 2024 hefur „Via Appia. Regina viarum“ verið skráð á Heimsminjaskrá UNESCO.
Via Francigena - Suðurgangan
Pílagrímaleið seinni tíma lá líka eftir Via Appia og áfram suður frá Brindisi, alla leið til Santa Maria Leuca og var hún hluti af því sem kallaðar hafa verið Suðurgöngur. HÉR er pistill um þær.
Sturlaðar staðreyndir
Samkvæmt rómverskum siðum mátti ekki grafa látna innan borgarmarka. Þess vegna má enn í dag sjá gríðarlega mörg grafhýsi, minnisvarða og katakombur meðfram Appíska veginu, sérstaklega við upphaf leiðarinnar frá Róm.
Þegar Spartacus og fylgismenn hans voru sigraðir í uppreisn þræla árið 71 f.Kr., voru yfir 6.000 þeirra krossfestir meðfram Via Appia frá Róm til Capua sem viðvörun. Þetta minnir óneitanlega á senur úr Game of Thrones.
Meðfram Via Appia
Á þessari leið má finna mörg söguleg minnismerki, þar á meðal:
Katakombur San Callisto og San Sebastiano katakomburnar – fornir grafreitir neðanjarðar
Gröf Cecilia Metella – vel varðveitt grafhýsi frá 1. öld e.Kr.
Circus of Maxentius – rústir af keppnisvelli frá 4. öld e.Kr.
Villa dei Quintili – stórt rómverskt sumarhús með fallegu útsýni. Var stærsta rómverska villukomplexið í útjaðri Rómar. Upphaflega reist af Quintili-bræðrunum, en keisari Commodus lagði eignina undir sig eftir að hann lét taka þá af lífi á árunum 182–183 e.Kr. Eftir það varð villan að keisaralegri eign, var stækkuð og notuð af keisurum allt fram á 5. öld.
Capo di Bove – rústir af rómverskum baðhúsum á lóð sem var í eigu Herodes Atticus og eiginkonu hans, Anníu Regillu, á 2. öld e.Kr. Í villunni á staðnum má sjá hluta úr rómverskri sögu innbyggða í múrverkið, og inni er sýning með kortum. Mjög áhugavert!
Via Traiana
Annar valkostur til að fara í fótspor Rómverja og pílagríma er Via Traiana sem Trajanus keisari lét byggja árið 109 e.Kr., sem hluta af miklu byggingarátaki eftir að hann sigraði Dacíu (núverandi Rúmenía). Þessi sigur fyllti ríkissjóðinn og markaði upphaf tímabils friðar og velmegunar í Rómarveldi. Via Traiana, eins og vegurinn hét, tengdi Beneventum við Brundisium (Brindisi), og var beinni leið en Via Appia á suðurleiðinni.
Comments