Áin Lima á upptök sín í Abetone fjöllunum og rennur í gljúfri í Lima dalnum þar til hún sameinast ánni Serchio við mynni Lima dalsins. Í gljúfrið renna jafnframt fjölmargar lindár. Áin er einstaklega tær og ljósbrotið sem speglast í vatninu og litbrigðin sem verða til eru óteljandi. Þar er að finna alla bláu og grænu liti regnbogans sem mynda litasinfóníu af betri gerðinni.
Á ákveðnum stað í gljúfrinu þræðir áin sig í gegnum mjóa kalksteinskletta sem hún hefur sorfið í aldanna rás. Þar sem liturinn á ánni er hvað skærastur heitir Strette di Cocciglia, rétt við nærliggjandi þorp, Cocciglia. Akvegurinn liggur meðfram gljúfrinu á þessum stað og nánast hægt sé að teygja sig ofan í gljúfrið og snerta þetta túrkís-bláa vatn. Eitt svæði í gljúfrinu hefur fengið nafnið Bláa lónið en á reyndar lítið sameiginlegt með því íslenska. Þetta ítalska bláa lón er einskonar tjörn í gljúfrinu með grýtta strönd þar sem hægt er sitja og njóta eða dýfa sér til sunds. Canyon Park eða Gljúfragarðurinn er sannkölluð útivistarpardís þar sem allir útivistargemsar geta fundið afþreyingu við hæfi.
En þessi gljúfragarður hefur upp á margt fleira að bjóða. Undanfarin fjögur ár hefur verið stöðug uppbygging fyrir hreyfiþurfi ferðamenn og hvatahópa sem koma til að njóta náttúrunnar hér með ýmsum hætti. Hægt er að njóta útiverunnar á nýstárlegan hátt með því að fikra sig eftir gljúfraveggjunum í línum og láta sig svo gossa í rennilínu (zip-line) ef svo ber undir. Þarna eru vaggandi kaðlabrýr sem liggja yfir gljúfrin en svo er líka hægt að ferðast inn á við. Boðið er upp á jóga inni í skógi og einnig úti á bláa lóninu á árabrettum (SUP-boards). Þar er því hægt að stilla sér upp í stríðsmanninn og æfa jafnvægið á nýjan máta. Svo er hægt að gerast gljúfrabúi og sigla á árabrettunum niður eftir gljúfrinu og njóta litanna sem speglast í umhverfinu.
Hugmyndina að Gljúfragarðinum áttu vinir sem deila sömu ástríðu og vildu búa til öðruvísi en umfram allt skemmtilega upplifun á sama tíma og þeir fá útrás fyrir það sem gleður þá mest. Hingað koma líka íþróttamenn að æfa rafting og dýfingar ofan í gljúfrið og hvataferðir verða sífellt vinsælli, ekki síst vegna þess að hér er hægt að finna viðurværi við allar hæfi.
Það nýjasta eru svo verkefnið ECOlab sem verður sett á laggirnar í ár. Þróað hefur verið margmiðlunarefni sem örvar skynfærin og útlistar vistkerfið, jarðfræðina, gróðurinn og lífríkið á lifandi og listrænan hátt. Gljúfrið breytist þá í einskonar listagallerí.
Ferðaþjónustan hjá Canyon Park hefur sett sér stefnu varðandi það hafa engin áhrif á umhverfið þar sem starfsemin fer fram. Orkan sem verður til kemur frá fólkinu sem rær, rennir sér eftir línum, klifrar í klettum eða æfir jóga. Ekkert rafmagn og engin veitingaaðstaða. Sjálfbær rekstur þar sem hægt að fjarlægja mannvirki með lítilli fyrirhöfn til að raska ekki jafnvæginu í umhverfinu hér.
Náttúran er í aðalhlutverki í Gljúfragarðinum og þar fær náttúran alltaf að njóta vafans.
Hér eru stutt kynningarmyndbönd
Skrifað fyrir Hótel La Corona
Áður birt á Facebook síðu hótelsins 10.5.2021 - endurritað 12.10.2021
Comments