top of page
Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Í fótspor Matthildar

Updated: Nov 4, 2023

Ein leið til að hægja á sér er og skipta yfir hægari takt er að ganga Matthildarveg eða La Via Matildica sem er forn pílagrímaleið á Norður-Ítalíu.


Hinir fornu helgu stígar sem þvera ítalska stígvélið hlykkjast í gegnum unaðslegt landslag og bjóða göngufólki tækifæri til að stíga aftur í tímann á sama tíma og þeir fara fetið fram á við. Pílagrímaleiðirnar eru eins og æðakerfi sem sameinast svo eftir því sem nær dregur Róm. Leiðin frá Bretlandi til Rómar hefur fengið nafnið Via Francigena og ég skrifaði um hana pistil fyrir skemmstu.


Veldi Matilda di Canossa á 10. og 11. öld
Veldi Matilda di Canossa á 10. og 11. öld

Via Matildica er furðu lítið þekktur stígur nefndur eftir Matilda af Canossa, sem var valdamikil greifynja á 11. öld. Lönd hennar og yfirráðasvæði náðu frá Langbarðalandi, gegnum Emilia-Romagna, yfir Apennína fjöllin til Toskana. Via Matildica er ein af hinum fornu pílagrímaleiðum sem tengdi Mantova við Lucca og er hluti af Via Francigena.


Leiðin hennar Matthildar þræðir sig í gegnum net kastala og turna á fjallstoppum, kirkna í dreifbýli og göfugra klaustra sem eitt sinn prýddu kórónu Matthildar.





Hægt er að skipta gönguleið Matthildar upp í þrjú söguleg einkenni:

  1. La Via del Preziosissimo Sangue (Vegur hins dýrmæta blóðs) (frá Mantova til Reggio í 3 áföngum); 90 km

  2. San Pellegrino leiðin (frá Reggio til San Pellegrino í Alpe í 5 áföngum); 115 km

  3. Via del Volto Santo (Vegur hinnar heilögu ásjónu) (frá San Pellegrino í Alpe til Lucca í 3 áföngum). 80 km

Þetta eru samtals 11 áfangar, hver og einn samsvarar dagsgöngu: 285 km alls.


Leiðin fylgir árbökkum, steinstígum, múlasnaslóðum og gönguleiðum um akra, skóga og fjallshryggi. Þrátt fyrir toppótt landslag er hækkunin á leiðinni hæg og sígandi. Hér til forna voru pílagrímsferðir fyrir unga sem aldna, jafnt heilbrigða sem veikburða og leiðin tekur mið af því. Ferðlangar þurftu jú að komast á áfangastað til að sinna sínu erindi.



Eitt frægasta kastalavirki Matthildar er kastalinn Canossa sem var hogginn úr hvítum kalksteini á 10. öld til að mynda kjarnann í gríðarlangri samtengdri keðju varnargarða sem lá yfir Appennína fjallgarðinn. Nú er þetta rómantíska virki rústir einar, því miður, en er samt enn goðsagnarkenndur staður, einskonar ítalskur Camelot.



Í Canossa átti sér stað sögulegur atburður þegar Hinrik IV keisari sem var andvíkgur páfastóli sem þá var setinn af Gregor VII páfa. Hann kom bónför eða auðmýkingarför þar sem hann var látinn bíða krjúpandi í þrjá daga og þrjár nætur fyrir framan innganginn í kastala Matthildar á meðan að snjóstormur geysaði, í janúar 1077. Hinrik vildi sem sagt að páfi aflétti bannfæringu sem hann hafði lagt á hann.


Matthildur var sáttasemjarinn.


Enn þann dag í dag þýðir orðatiltækið „andare a Canossa“ („að fara til Canossa“), að biðjast afsökunar og auðmýkja sig, leggjast í duftið og biðjast fyrirgefningar af heilum hug.

Annars er Matilda ein af merkiskonum sögunnar og hægt væri að skrifa margar bækur um hennar áhrif og valdatíð. Áður en hún lést byggði hún margar kirkjur, stofnaði klaustur og gaf kaþólsku kirkjunni mikið af auði Canossa ættarveldisins. Hún dó árið 1115 úr óþekktum sjúkdómi og var grafin í ástkæru Benediktínusarklaustri sínu í San Benedetto Po. Inni í hinni tignarlegu basilíku, sem var endurbyggð árið 1500 má enn sjá gröf hennar, sem reyndar er tóm. Um 1600 voru nefnilega jarðneskar leifar hennar fluttar í Péturskirkjuna í Vatíkaninu. Hún er þar í félagi við fimm konur sem eiga legstað sinn í Péturskirkjunni.




Recent Posts

See All

Comments

Rated 0 out of 5 stars.
No ratings yet

Add a rating
bottom of page