top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Ísköld ást í Verona

Updated: Nov 4, 2023

Það eru reyndar fleiri en Rómeó og Júlía sem eiga tragíska ástarsögu frá Verona.


Þar er að finna ástarbrunn sem var sögusvið ákvörðunar sem tekin var af hvatvísi.


Árið er... tja... ekki alveg vitað en svona á bilinu 1509-1516. Ungur hermaður að nafni Corrado di San Bonifazio var þá að gera hosur sínar grænar fyrir henni Isabellu af Donati ættinni og gekk á eftir henni með grasið í skónum í langan tíma. Hann fór ítrekað á fjörurnar við hana en það var eins og hún Isabella vildi ekki þýðast hann.


Einn kaldan vetrardag hittast þau í húsasundi nokkru í námunda við kirkju sem bar nafnið San Marco in foro. Corrado reynir enn og aftur að sýna Isabellu ástleitni og fá hana til fylgilags við sig. Þegar hún sýnir honum ekkert nema kuldalegt viðmót, hreytir hann í hana að hún sé eins og ísklumpur og köld eins og vatnið í brunninum a tarna. Isabella svarar fyrir sig og segir honum barasta að fleygja sér í brunninni til að komast að því hvort hann hafi rétt fyrir sér... sem er einmitt það sem Corrado gerir. Í örvæntingu sinni yfir kaldlyndi Isabellu lætur Corrado sig falla í brunninn.


Þá kemur hið sanna í ljós. Isabella elskaði Corrado í raun og veru allan tímann en hafði látið hann ganga á eftir sér, helst til of lengi. Þegar hún áttar sig á hvaða áhrif orð hennar höfðu haft, hendir hún sér á eftir ástinni sinni ofan í brunninni.


Hvorugt þeirra lifði fallið af en eru vonandi núna einhversstaðar á ástarskýi með þeim Rómeó og Júlíu.Já, svona fór fyrir þessum tveimur turtildúfum. Köttur úti í mýri.


Ástarbrunnur þessi er auðvitað vel falinn í Verona, en auðvelt að finna hann ef maður veit hvar hann er 😊!

Vicoletto Cieco di San Marco er rétt hjá Piazza Erbe og aðgengilegur frá Corsa Porta Borsari. Ástarbrunnurinn er merktur á google mapsRecent Posts

See All

Comments

Rated 0 out of 5 stars.
No ratings yet

Add a rating
bottom of page