Fyrstu brýrnar sem byggðar voru yfir Canal Grande eða Miklasíki í Feneyjum voru byggðar af eigendum húsanna sem stóðu næst þeim og með framlögum frá nágrönnum. Þetta voru allt viðarbrýr, oftar en ekki einfaldir plankar sem hvíldu á bökkunum sitt hvoru megin við síkið.
Fyrsta steinbrúin var Ponte della Paglia eða Hálmbrúin sem byggð var 1170 og tengir Riva degli Schiavoni við Markúsartorgið. Hún liggur samsíða hinni frægu Andvarpsbrú eða Il Ponte dei Sospiri sem tengir gamla fangelsið við dómshúsið/hertogahöllina og er síðasta brúin sem gengið er yfir núna til að komast á Markúsartorgið.
Nafnið er tilkomið vegna þess að þar lögðu að bátar og affermdu hálm og hey. Hálmurinn var notaður í strádýnur því fangelsið var jú þar rétt hjá.
Í lærðri ritgerð, Enciclopedia Storica di Venezia, staðhæfir höfundurinn, Lorenzo Bottazzo að í Feneyjum séu 438 brýr talsins en 455 ef við teljum með brýrnar í eyjunum Murano (9) og Burano (8).
Rialto brúin var upphaflega byggð á tréstöplum árið 1181 af Nicholas Barattieri og er elsta brú í Feneyjum. Hún kom í staðinn fyrir lausn sem samanstóð eiginlega af bátum/gondólum sem lagt var þétt saman til þess að hægt væri að komast yfir Mikla-síki. Hún var þá kölluð Ponte della Moneta vegna þess að fólk þurfti að greiða toll til að fara yfir hana. Um árið 1250 var brúin endurbyggð með tveimur römpum og hreyfanlegum miðhluta sem hægt var að lyfta svo stærri skip kæmust undir hana. Meðfram brúnni beggja vegna voru svo verslanir og leigan fyrir "húsnæðið" var notuð til að viðhalda brúnni sem þurfti stöðuga aðhlynningu.
Árið 1310 brann brúin að einhverju leiti en var tjaslað saman og árið 1433 var hún endurbyggð. 11 árum seinna hrundi hún svo undan mannmergð sem hafði komið sér fyrir á brúnni til að fagna komu greifans af Farrara sem var að heimsækja Feneyjar. Enn á ný var brúin endurbryggð úr tré en hrundi svo aftur 1524.
Loks árið 1551 var ákveðið að byggja steinbrú og þremur árum seinna kynntu margir frægir arkitektar sínar tillögur. Mörg sögufræg nöfn voru þar á meðal t.d. Michelangelo Buonarroti, Andrea Palladio, Sansovino, o.fl. en sá sem sigraði var Antonio da Ponte. Það er skemmtileg tilviljun, kannski nafnið hans hafi hjálpað til, því það þýðir "Antonio frá/á Brúnni".
Brúin varð sem sagt 28,8 m á hæð, 23 m löng byggð á sömu hugmynd og fyrri brúin, þ.e. verslanir báðum megin og göngusvæði í miðjunni. Brúarsmíðin hófst árið 1588 og lauk árið 1591.
Margir spáðu því að verkfræðilega myndi brúin ekki standa lengi en brúin stendur enn og er mest heimsótti staðurinn í Feneyjum, næst á eftir Markúsartorginu.
Comments