top of page
Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Síprustré

Updated: Nov 4, 2023

Nafn síprustrésins kemur úr grískri goðafræði. Kyparissos (Cyparissus) var myndarlegur ungur maður frá eyjunni Keos sem guðinn Apollo bar mikla ást til. Kyparissos varð fyrir því óláni að drepa gæludýrið sitt fyrir slysni þegar hann var á veiðum einn daginn. Yndið hans var hjartarkálfur og við það fylltist Kyparissos svo mikilli sorg að hann breyttist í síprustré, eins og gengur og gerist. Tréð varð því tákn sorgarinnar og þeirra sem syrgja. Til að taka fyrir algengan misskilning þá hafa síprustré ekkert með Kýpur að gera. Nafn þeirrar eyjar þýðir kopar.

Póstkortalandslag Toskana er ríkulega búið síprustrjám sem eru sígræn (sempervirens). Þau eru þó ekki upprunalega staðbundin hér, þó að oft sé talað um ítölsk eða toskönsk síprustré, heldur tengist tilvist þeirra hér hinum dulúðlega og sögufræga þjóðflokki Etrúra sem byggðu Ítalíuskagann áður en Latverjar og Grikkir komu. Talið er að þeir hafi komið með síprusinn frá sínum heimaslóðum, frá svæðinu sem nú er Sýrland, Tyrkland og Íran (Persía). Tréð hafði yfirnáttúrulega merkingu í þeirra heiðnu trúarbrögðum. Í Biblíunni er tengingin í gegnum sköpunarsöguna og dauðastund Adams. Síprustréð fékk þaðan bæði táknmynd dauðans og ódauðleikans.


Síprustréð er sígrænt, formfagurt og viðurinn hefur sterka angan og olíu sem varnar því að það rotni hratt. Það gerði þau hentug sem efnivið í líkkistur. Í raun hafa trén mikla tengingu við kirkjugarða og er nær ófrávíkjanleg regla að sjá þyrpingu af síprustrjám hvar sem grafreiti kaþólskra er að finna. Auk þess fannst fólki angan trjánna fríska upp loftið í kringum kirkjur og heimili fólks.


Þau eru langlíf, geta náð allt að 2000 ára aldri og þau og geta þolað mikla skógarelda. Jafnvel talið að þau geti haldið aftur af skógareldum því þau safna í sig vatni og varna útbreiðslu eldhafsins. Það má segja að þau séu kameldýr trjánna.


Auk þess að hafa alla þessu gildishlöðnu merkingu hafa síprustrén mikið sjónrænt aðdráttarafl og eru góðir vindbrjótar. Þau ramma inn landslag og heimreiðar og varða leiðina. Þeim hefur verið markvisst plantað til að fanga athygli þeirra sem eiga leið um og beina sjónum að því sem skiptir máli. Síprustré eru því einskonar áherslutúss eða pensill í landslagi Toskana eins þessar myndir bera glöggt með sér.


Skrifað fyrir Hótel La Corona

Áður birt á Facebook síðu hótelsins 3.5.2021


Kyparissos (Cyparissus)
Kyparissos (Cyparissus)


Kirkjugarður í Enna á Sikiley
Kirkjugarður í Enna á Sikiley

Recent Posts

See All

Comments

Rated 0 out of 5 stars.
No ratings yet

Add a rating
bottom of page