Horfði á mynd eftir Spike Lee sem heitir Kraftaverkið við Santa Anna. Úff það var erfitt áhorf. Hefur tekið mig smá stund að manna mig upp í að skrifa pistil um myndina.
Miracle at St. Anna er kvikmynd frá 2008 í leikstjórn Spike Lee. Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu eftir James McBride, sem skrifaði handritið. Í myndinni segir frá eftirlitsferð bandarískra hermanna í 92. "Buffalo" herdeildinni, sem var að störfum í fjöllunum fyrir ofan Lucca haustið 1944.
Buffalo deildin var sérstaklega samsett af bandaríkjamönnum sem voru ekki hvítir og fjallar myndin um kynþáttafordóma sem voru/eru útbreiddir í bandarískra hernum.
Myndin fjallar einnig um kynni ólíkra menningarheima og „sérstakt“ samband barns sem lifði af Sant'Anna di Stazzema fjöldamorðin og svarts þroskaskerts hermanns. Drengurinn, Angelo að nafni, verður vitni að hræðilegu fjöldamorði, sem átti sér í átti sér stað í lok seinna stríðs í Stazzema í Toskana. Umræddur hermaður er sá eini sem nær til drengsins sem er í annarlegu ástandi eftir að hann sleppur lifandi frá því að allir bæjarbúar eru teknir af lífi.
Sagan í myndinni er byggð á sannsögulegum atburði sem átti sér stað í seinni heimsstyrjöldinni. Í þorpinu Sant'Anna di Stazzema var framið fjöldamorð á almennum íbúum af þýskum SS-hermönnum og ítölsku svörtu hersveitunum (12. ágúst 1944). Verknaðurinn var aðgerð gegn ítölsku andspyrnuhreyfingunni. Alls voru 560 drepnir og lík þeirra brennd. Þar á meðal voru 100 börn, þar af eitt stúlkubarn, aðeins 20 daga gamalt.
Ungabarnið hét Anna.
En af hverju kraftaverk?
Jú, það var einn ungur drengur sem lifði morðin af sem hét Enrico Pieri. Enrico dó 10. desember 2021, þá 87 ára að aldri en mundi allt sitt lílf hverja einustu mínútu af þessum hildarleik. Í myndinni heitir persónan Angelo Torancelli.
Þessir glæpir hafa verið skilgreindir sem viljaverk og skipulögð hryðjuverk af herdómstólnum í La Spezia og æðsta ítalska áfrýjunardómstólnum.
Árið 1994 fékk þessi atburður aftur athygli þegar fannst tréskápur í höll í Róm sem geymdi 695 skjöl með stríðsglæpum á Ítalíu. Skápurinn fékk nafnið "Skápur skammarinnar."
Síðan árið 2000 hefur bærinn Sant'Anna di Stazzema verið þjóðgarður friðar með minnismerkjum og safni sem helgað er þessum hræðilega atburði, en bærin var aldrei endurbyggður að fullu eftir stríð.
Meirihluti myndarinnar var tekinn á Ítalíu, í Serchio dalnum og í bænum Colognora í Toskana. Aðrir tökustaðir voru New York, Louisiana og Bahamaeyjar.
Lokauppgjörið fer fram í bænum Colognora og er áhrifaríkar senur skotnar þar. en það fer ekki mikið fyrir því þegar maður heimsækir bæinn. Einhverjir hefðu kannski gert sér mat úr því, en bæjarbúar eru stoltari af kastaníuhnetusögusafninu og tónskáldinu Alfredo Catalani sem er fæddur þar og samdi óperuna La Wally þar sem er að finna hina frægu aríu: Ebben? Ne andrò lontana .
Myndin fékk töluverða gagnrýni og vakti deilur á Ítalíu vegna sögulegrar ónákvæmni. Efnistökin hvað varðar Buffalo hersveitina í bandaríska hernum féll líka í grýttan jarðveg. Það virtist enginn vera ánægður með útkomuna. Það er líka mjög einfalt að verða reiður í lok myndarinnar. Fyrir mig skilur hún eftir sig stórt fingrafar á hjartanu.
コメント