top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Tesla - barn ljóssins

Updated: Nov 4, 2023

Í ár eru 80 ár síðan Nikola Tesla dó og er því haldið upp á dánardægur meistarans.

Hann fæddist í miklu eldingaveðri um hásumar og ljósmóðirin á að hafa sagt að það fylgdi ógæfa þessari fæðingu en móðir hans sagði að hann yrði barn ljóssins og var þar forspá, svo sannarlega.

  • Fæddur 10. júlí 1856 í Smiljan í núverandi Króatiu.

  • Dáinn í New York 7. janúar 1943.

Hvers lenskur var Tesla?

Það fer ekkert á milli mála hvar hann fæddist en síðan þá hefur heimbær hans heyrt undir ólík yfirráð og landamæri hafa færst til. Auk þess var hann af serbneskum uppruna og fjölskylda hans hafði flutt á króatískt landsvæði, en þau voru serbnesk-orþódox trúar. Þegar Tesla fæðist var Smiljan hluti af austuríska keisaraveldinu, sem skipti um nafn, víkkaði og skrapp saman með regluegu millibil. Um tíma voru Ungverjar með í spilinu.

Í vegbréfinu sem hann fékk áður en hann flutti til Bandarikjanna, var hann sagður þegn Konungsríkis Króatíu, Slavoníu og Dalmatíu sem þá var hluti austuríska heimsveldisins. Svo líður tíminn og Júgóslavía verður til og nær okkur í tíma verður Króatía sjálfstætt ríki. Flækjustigið er ögn meira en ég læt þetta duga.


Hann flytur til New York árið 1884 og fær bandarískan ríksiborgarrétt árið 1891 og býr þar í tæp 60 ár og deyr þar árið 1943. Það eru því margir sem vilja eigna sér hann. Á veraldarvefnum er hann ýmist sagðir serbó-amerískur, austrísk-ungverskur, serbi eða króati, jafnvel serbó-króati.


Réttast væri að segja serbneskur króati með bandarískan ríkisborgararétt en hann fæðist klárlega á austurrísku yfirráðasvæði þess tíma. Alltént er heimabær hans innan landamæra Króatíu í dag.


Hér er lífstímalínan hans


Sjúkdómar og vitranir

Hann var oftar en einu sinni nær dauða en lífi á unga aldri vegna sjúkdóma. Hann veikist alvarlega af kóleru sem unglingur og var mjög hætt kominn, lá tæpt ár á spítala. Þegar hann bjó í Búdapest veikist hann aftur og læknar geta ekki sjúkdómsgreint hann, talað um taugaáfall. Ástandinu fylgdu skjálfta- eða flogaköst og mjög óreglulegur hjartsláttur. Auk þess urðu skilningarvit hans ofurnæm, þannig að hljóð, ljós og titringur urðu honum óbærileg og hann lýsir því að hann hafi getað séð í myrkri eins og leðurblaka.


Tesla „læknaðist“ þó af þessu ástandi en hann fékk reglulega ofsjónir. Á göngutúr með vini sínum í Búdapest eitt sinn, laust niður í huga hans hugmynd sem leysti vandamálið með víxlstraumsmótorinn, eins og hann skynjaði snúning segulsviðs, si sona. Hann sagðist sjálfur geta séð hluti fyrir sér svo skýrt að þeir urðu nánast áþreifanlegir og að þannig hafi hann geta fundið upp og hannað vélar og önnur flókin tæki án þess að smíða eða teikna nokkurn hlut. Hann hafði næm skilningarvit og frámunalega gott sjónminni.


Nokkrar af uppfinningum Tesla

Hann var óþrjótandi í uppgötvunum sínum og þrátt fyrir mörg áföll í lífinu og amk tvö gjaldþrot hélt hann alltaf áfram. Hann á yfir 300 einkaleyfi, frá þráðlausri tækni til riðstraums, rafmótora, , röntgengeisla, ratsjár og útvarps sem hann fékk reyndar úrskurðað til sín eftir að hann dó. Listinn heldur áfram. Sagan segir að hann hafi verið á undan Röntgen sjálfum að gegnumlýsa hendina á sér, en of seinn að sækja um einkaleyfið.


Hann hafði háleitar hugmyndir, til dæmis að eftir nokkrar kynslóðir gæti fólk haft frjálsan aðgang að þráðlausri raforku hvar sem er og hvenær sem er í heiminum. Hvur veit. Bandaríska ríkið tók eigur hans til skoðunar eftir andlátið og hafa ýmsar flökkusögur spunnist um það sem þar var að finna, s.s. þróun gereyðingarvopns o.fl.


Söfn tileinkuð Tesla

Fyrir þá sem eiga leið um æskustöðvar Tesla í Krótaíu mæli ég með heimsókn á safn helgað honum í Smiljan, hans heimabæ. Safnið var sett á laggirnar árið 2006 þegar minnst var 150 ára fæðingarafmælis hans.


Í Zagreb er tæknisafn sem ber nafnið hans. Hann bjó í raun aldrei í Zagreb en fékk heiðursnafnbót við háskólann þar og bauð fram aðstoð sína við þróun á búnaði tengdum rafmagnsvæðingu borgarinnar. Safnið býður upp á alls konar upplifun sem hægt er að heimfæra á Tesla og börn finna þar ýmislegt að sýsla við.Dýrð, vald, virðing

Árið 1960 var ákveðið að SI-eining fyrir segulstyrk skyldi nefnd eftir Nikola Tesla. Segulsvið jarðar sem mæla má með áttavita er um 50 míkró-Tesla en segulsvið í segulómtæki getur verið um 1 Tesla. Bæði Edison og Tesla voru orðaðir við Nóbelsverðlaun 1915 en þeir voru slíkir óvinir að báðir tilkynntu að þeir myndu ekki taka við verðlaununum ef hinn fengi þau á undan og þaðan af síður höfðu þeir áhuga á að deila þeim! Þetta varð líklega til þess að hvorugur fékk nokkru sinni hin eftirsóttu verðlaun, þrátt fyrir gríðarlegt framlag beggja til tækni og vísinda þess tíma.


Það var í raun ekki hugmynd Elon Musk að skýra tesluna, Tesla en þeirra nöfn verða liklega tengd um aldur og ævi. Elon Tesla Twitter Musk!


Eftir að evran var tekin upp í Króatíu þann 1. janúar 2023, fékk Tesla heiðursess á 10, 20 og 50 centa myntinni. Hann hafði áður prýtt 100 kuna seðilinn. Einhverjir agnúuðust út í þetta og vildu heldur sjá Teslu á 1 EUR myntinni, en mörðurinn fékk það hlutverk. Hann er þjóðardýr Króatíu og króatíski gjaldmiðillinn sem var aflagður um áramótin, heitir einmitt KUNA eða mörður. Helvítis mörðurinn ;-)Nikola Tesla bjó mest allt sitt líf á hótelum og hann fannst látinn á New Yorker hótelinu í New York á 33. hæð í íbúð 3327, slyppur, snauður, illa farinn og þjáður af þráhyggju, þá 86 ára gamall.


Heimildir sóttar víðsvegar um veraldarvefinn,Recent Posts

See All

Comments

Rated 0 out of 5 stars.
No ratings yet

Add a rating
bottom of page