top of page
Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Dante 700

Updated: Jul 1, 2023

Dánarafmæli Dante Alighieri var haldið hátíðlegt frá september 2020 allt til 14. september 2021. Hann bar sín bein í Ravenna á Ítalíu stuttu eftir að hann kom heim úr samningaferð til Feneyja. Á heimleiðinni til Ravenna smitaðist hann af malaríu og lést 14. september 1321, sama ár og hann lauk við meistaraverk sitt, Gleðileikinn guðdómlega. Þá var hann 56 ára.

Ég hef alltaf tengt sterklega við Dante og hans sögu, enda erum við fædd "sama ár" með 700 ára millibili. Þegar ég fékk óslökkvandi þörf fyrir að læra ítölsku nældi ég mér í styrk frá Dante Alighieri stofuninni á Íslandi og árið 1997 lagði ég land undir fót og flutti til Urbania í Marche héraði á Ítalíu. Síðan eru liðin örfá ár.


Eitt af meistaraverkum heimsbókmenntanna er La Divina Commedia eða Hinn guðdómleiki gleðileikur eða Gleðileikurinn guðdómlegi. Dante orti þetta ítalska söguljóð á árunum frá 1308 og lauk við rétt fyrir dauða sinn árið 1321. Verkið er samið í útlegð og er kvæðabálkurinn einhvers konar uppgjör við það stjórnmálaástand sem ríkti þegar skáldið hraktist frá heimkynnum sínum. Þar segir frá för skáldsins Dante um handanheimana árið 1300. Þar er vitnað um örlög og íverustaði ýmissa manna og kvenna sem dáið höfðu fyrir hið gagnmerka ár. Verkið skiptist í þrjá hluta: Víti, Hreinsunareldinn og Paradís. Um hina fyrstu tvo staði fer hann í fylgd rómverska skáldsins Virgils og um Paradís í fylgd sinnar ástkæru Beatrice. Alls myndar kvæðabálkurinn 100 kviður.


Dante var gerður útlægur frá Flórens árið 1302 því hann aðhylltist ekki þá aðila sem komust til valda. Flækjustig, plan og plott sem hann þurfti á endanum að lúta í lægra haldi fyrir. Hann fékk sekt fyrir að styðja ranga aðila en neitaði að greiða sektina eða var ekki borgunarmaður fyrir henni. Einnig segja sumar heimildir að hann hafa verið ásakaður um fjárdrátt. Hvort eitthvað var til í því er ekki vitað en honum var ekki boðin sakaruppgjöf fyrr en nýverið, árið 2008, um sjö öldum síðar. Til stendur að setja á laggirnar einhver sýndar-syndaaflausn, táknræna athöfn, en ekki útlit fyrir það að afkomendur Dante muni þiggja það leikrit.


Hann fékk um tíma skjól í Verona hjá þáverandi hirð, Scala/Scaligeri, bæði Bartolomeo og Cangrande I. Hann dvaldi þar meira og minna í tæp 7 ár á árbilinu 1303-1304 og svo aftur 1312-1318 og tileinkaði einmitt Scaligeri-hertoganum Cangrande I, þriðja og síðasta kafla verksins, Paradís.


Dante hafði verið giftur í Flórens og fjölskylda hans kom til Verona nokkrum árum eftir að hann þurfti að fara þaðan. Eitthvað eru heimildir á reiki um hversu mörg börn Dante eignaðist, en oftast er talað um að hann hafi eignast þrjá syni og eina dóttur með konu sinni.


Dante kom víða við á ferðum sínum á meðan á útlegðinni stóð sem var góðan part ævi hans. Hann notar sviðsmyndir í Gleðileiknum víða að, þannig að flestum Ítölum finnst þeir eigi eitthvað í Dante. Á öllum húsum í hverjum einasta smábæ þar sem Dante hafði viðdvöl er að finna skjöld með áletrun um að Dante hafi gist eða dvalið þar á ferðum sínum.


Eftir hans dag settust afkomendur hans að í Verona, og einn sonurinn, Pietro keypti vínræktarjörð í Valpolicella dalnum árið 1353, þar sem enn búa afkomendur hans. Staðurinn heitir Tenuta Serego Alighieri og er undurfögur landareign með víngerð, núna starfrækt undir Masi vínframleiðandanum. Þar er hægt að fá gistingu, leigja sali, fara í vínsmökkun og drekka í sig aldagamla sögu ættarinnar.


Greifinn Pieralvise Serego Alighieri og dóttir hans Massimilla á myndinni hér að neðan, eru fulltrúar 20. og 21. kynslóðar afkomenda Dante.


Áríð 2021 var mikið um dýrðir og allir og amma þeirra vildu minnast þessa merka skálds. Gleðleikurinn er jú mikið listaverk og á sér enga hliðstæðu. Verkið er ritað á mállýsku heimabæjar Dante, en með þessu meistaraverki staðfesti hann að ítalskan væri nothæf sem bókmenntamiðill og gerði það einnig að verkum að toskanska varð grundvöllurinn að ítölsku ritmáli.


Einar Thoroddsen hefur þýtt fyrstu tvo hluta Kómedíunnar, Víti og Skírnarfjall. Það er mikið meistaraverk sem ég hvet ykkur til að lesa. Einar er núna staddur í Paradís.


Dante bíður reyndar tómur grafreitur í Santa Croce kirkjunni í Flórens. Ravenna-búar vilja hins vegar ekki skila honum, segja að Flórens hafi ekki viljað hann lifandi og fái hann ekki dauðan! Á myndinn hér að neðan sést greinilega hversu engillinn sem vaktar tómu gröfina í Flórens er orðinn þreyttur á að bíða eftir honum.


Til hamingju með dánarafmælið, gæskur.



Recent Posts

See All

댓글

별점 5점 중 0점을 주었습니다.
등록된 평점 없음

평점 추가
bottom of page