top of page
Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Í fótspor Dante I

Updated: Nov 16, 2022

Þegar maður fer að gera sér dælt við Ítalíu er ekki hjá því komist að kynnast Dante og hans verkum. Hef einhvern veginn mjög sterka tengingu við hann, kannski vegna þess að hann er fæddur sama ár og ég, nema bara 700 árum fyrr. 1265 => 1965. Auk þess dvaldist hann langdvölum í Verona sem er líka mín heimaborg, eða þannig lít ég að minnsta kosti á það. Borgin hét jú einu sinni Augusta Verona. Ekkert að þakka...


Ég brest því oft í dantísku" í fararstjórninni og virðist ramba á ýmsa sögustaði sem Dante vísaði til og notaði í bókinni ódauðlegu, Gleðileiknum guðdómlega. Einar Thoroddsen þýddi fyrsta hluta þessa meistaraverks, Víti og gaf út fyrir nokkrum árum, þá eru bara tveir hlutar eftir: Hreinsunareldurinn og Paradís. Þá verður það fullkomnað.


Það hafa orðið til tveir pistlar hjá mér um Dante á undanförnum mánuðum. Pistill um 700 ára dánarafmæli hans og annar pistill í Séð og heyrt stíl. Vonandi þessi virði að lesa.


Mig langar líka að segja ykkur frá þremur stöðum sem ég hef komið á sem eiga sterka skírskotun í bókina góðu. Það eru Orrido di Botri í Toskana, San Leo í Emilia-Romagna, og Monte Cacume í Lazio. Auk þess spilar Verona stórt hlutverk. Síðasti hluti skáldverksins, Paradís, er í rauninni tileinkuð hertoganum Scaligeri sem tók Dante undir sinn verndarvæng til lengri tíma og gerði honum kleift að vinna að þessu meistaraverki sínu.


Orrido di Botri

Í bænum Montefegatesi í Toskana er að finna minnismerki um Dante sem stendur efst í bænum í 850 m hæð. Minnismerkið er brjóstmynd af Dante og var reist fyrir sléttum 100 árum síðan. Minnismerkið ber heitið „ghibellin fuggiasco“ sem þýðir gíbellínski flóttamaðurinn með tivísun í útlegðina frá Flórens sem hann sætti mestan part lífs síns . Jafnan er talað um það sé „... hæsta Dante minnismerki í heimi“.


Ástæðan fyrir staðsetningunni er sagan um að Dante hafi komið til Orrido di Botri og heillast af þröngum gljúfrunum og notað það sem innblástur í fyrsta kafla Gleðileiksins, Víti. Dulúðlegur staður, hættulegur á köflum og með fleiri þjóðsögulegar tengingar við karlinn í neðra.


Sjónarsviðið er stórkostlegt. Var svo heppin að ganga í fótspor Dante síðasta sumar þegar fór fram sviðsetning á vísum og kviðum úr Gleðileiknum.


Fyrstu hendingarnar í 3. kvæði úr Víti í þýðingu Einars Thoroddsen þegar Dante sjálfur í fylgd Virgils ganga inn í handanheimana, þá er þessi áletrun þeim til upplýsingar og varnaðar.


Þessa leið til landa þjáninganna. Þessa leið til þrotlausrar pínu.

Þessi leið er tröðin týndra manna.

Réttar gætti Guð í smíði mínu

er gerði mig af ást með vizku sanna

og almáttugur vann í veldi sínu.

Sköpun fannst ei fyrir tíma minn,

fyrndin eilíf, eilíft líka ég.

Von er þrotin þér sem gengur inn."



San Leo og Monte Cacume


Staðirnir San Leo og Cacume eru nefndir í sömu andrá í miðkafla Gleðileiksins sem heitir Hreinsunareldurinn. Ég fór reglulega með skoðunarferðir frá Rimini til San Leo á árunum 2002 og 2003 þegar ég var fararstjóri þar sumarlangt. Það var alltaf einstaklega gaman að koma til San Leo, því staðsetningin er kynngimögnuð. Þar hitti ég sóknarprestinn sem var mikill aðdáandi Passíusálmanna og gat "reddað" mér þýðingu á þeim á ítölsku.



Staðurinn nýtur þess líka að þar hafa viðkomið heimsfrægar persónur á borð við Dante og heilagur Frans fra Assisi var þar á ferð árið 1213 og á að hafa predikað þar undir tré einu. Atburðurinn í sögulegu samhengi þykir það markverður að heilagur Frans prýðir skjaldarmerki bæjarins. Auk þess fá tveir bæjir sín getið í gleðileikinum, svo það er góð uppskera og því gert hátt undir höfði í bænum.


Dante notar mótív og lýsingar úr landslaginu og staðsetningunni sem auðvelt er tengja við hindranirnar og áskoranir hreinsunareldsins. Hann notfærir sér þetta sjónræna sjónarspil síðar í kviðunni og hvernig þeir Virgill þufa að nota hendur og fætur til að klifra klettaveggi og finna leiðir í gegn. Mikilfenglegur upp- og niðurgangur.


Hér er þýðing Erlings E. Halldórssonar á 4. kviðu úr Hreinsunareldinum en hann fellir því miður út það magnaða fjall sem ég gekk á á Gamlársdag 2021, Cacume. Þarf að eiga orð við hann...

Maður gæti farið á fæti upp til San Leó eða niður að Noli, eða stigið upp á tinda Bismantovu, en hér þurftum við að fljúga,

Noli er strönd í Liguria héraði. Bismantova kletturinn er í Apennína-fjöllunum í Emilia-Romagna héraði. Þar á ég eftir að koma.


En gangan á Cacume var mögnuð. Áramótin í ár voru þau "heitustu" sem komið hafa í 120 ár og því var tengingin við hreinsunareldinn töluverð í þessari göngu. Félag að nafni L'Orchidea Patrica hafa lagt metnað í að gera þessa göngu menningarsögulega og tilvísanar, styttur og texta er að finna eftir endilangri gönguleiðinni sem gerir hana enn skemmtilegri. Við hittum þessa heiðursmenn á leiðinni upp og þeir voru ánægðir að fá Íslendinga á fjallið til að kæla það aðeins niður...



En nóg um Dante í bili. Er þó líkleg til að bæta við fleirum pistlum um hann.

A dagskránni er að skipuleggja Dante-ferð til Ítalíu. Láttu mig endilega vita ef þú hefðir áhuga á að fara í slika menningarferð.





Recent Posts

See All

Comments

Rated 0 out of 5 stars.
No ratings yet

Add a rating
bottom of page