top of page
Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Ferðaleiftur frá Suður-Afríku #1

Updated: Mar 11

Er nýkomin frá Suður-Afríku eftir þriggja vikna ferðalag. Ætlaði að skrifa einn lítinn pistil um reynsluna, en það er ekki hægt. Reynslubankinn er á yfirfalli og ég veit ekki hvar ég á að byrja.

Ætla því að búa til nokkra pistla og deila álaginu....



Við ferðastöllur, Tóta og Ágústa #totagusta lögðum af stað þann 30. desember 2023 frá London í þetta langa ferðalag, flugum með Qatar airways til Doha og þaðan áfram til Jóhannesarborgar, þar sem við biðum á meðan "rútan" hleypti fólki út og öðrum inn. Þetta var gott flug, gott að skipta þessa upp í nokkra leggi, ef það er ekki of löng bið á milli fluga. Við sváfum alveg góðan part með hjálp sérstaks svefnpúða sem svo sannarlega er hægt að mæla með. Ég kalla hann "öndunarholuna" og ítreka að ég er ekki á prósentum...


Lentum á áfangastað í Durban, Suður-Afríku á Gamlársdag! 31-12-2023

Við dvöldum á heimili vinahjóna Tótu í Durban, þeim Kevin og Morag. sem tóku vel á móti okkur. Það er þeim að þakka að við fengum að upplifa svona margt í ferðinni. Við erum þakklátar fyrir að hafa fengið að njóta leiðsagnar heimamanna, mikill virðisauki fyrir okkur.


Við vorum drifnar í áramótapartý um leið og við gátum náð andanum og fengum að upplifa hið dæmigerða BRAAI sem er suður-afríska útgáfan af barbeque. Orðið braai er líklega upprunnið frá hollenskum nýlenduherrum og hefur ef til vill þróast frá orðinu Braden (sem þýðir steikt á hollensku), þó að það sé engin opinber staðfesting á þessu.


Þarna hittum við vinafólk þeirra Kevin og Morag sem við áttum eftir að hitta oftar í ferðinni og ferðast með sumum þeirra. Kvöldið var ljómandi skemmtilegt. Við fengum að kynnast tónlistinni sem hljómar á svona hátíðum og var sko ekkert í líkingu við "Nú árið er liðið í aldanna skaut". Þetta voru svona sætar syndir sem ekki allir vilja viðurkenna að þau hlusti á, t.d. Die Campbells með lagið Rooi Rok Bokkie og Kaptein með Kurt Darren.


Ég safnaði í play-lista á Spotify með allskonar tónlist sem við komumst í kynni við á ferðum okkar. Verði ykkur að góðu.


Það efur bæst á annan "lista" hjá mér eru firnin öll af dýrum sem ég hef ekki áður séð. Er einmitt að vinna að því að lista þau upp og finna íslensk nöfn yfir sum dýrin sem voru alls ekki kunnugleg.


01.01.2024

Nýársdag tókum við að mestu rólega, það rigndi hressilega og við reyndum að ná áttum og undirbjuggum vikuna framundan. Fengum þó að komast í kynni við Vervet apana sem eiga heima í hverfinu og koma á hverjum degi í heimsókn á heimlið í leit að einhverju gómsætu. Þeir hafa búið þarna um aldir og láta ekkert hrekja sig í burtu þó svo búið sé að byggja eitt stykki borg á þeirra æskustöðvum. Reglan er að ekki á að rétta öpunum neitt, heldur dreifa mat, hér og þar um garðinn. Þá á ekki venja þá við að taka við mat beint úr höndum fólks. Það er víst fólk sem er illa við þá og skýtur þá ef færi gefst. Þeir voru aufúsugestir í garðinn hjá okkur og við hittum sömu fjölskylduna eða hópinn margoft og vorum farin að læra hver var hvað. Brutum reyndar aaaaaðeins þesssa reglu með matinn, þeir voru of sætir.


Svo fór einn þeirra inn um opinn glugga á herberginu mínu á 2.hæð að leita sér að nammi, en fann bara Bach nóturnar mínar sem hann ruslaði út á gólf. Hann var staðinn að verki. Þegar Morag kom inn í herbergið var einn stríðnisapi í glugganum á útleið eftir rótið.





02.01.2024

Daginn eftir var búið að skipuleggja göngu og við rifum okkur á fætur um kl. 07:00 til að vera mætt og geta gengið áður en það yrði allt of heitt. Eins átti að rigna seinna um daginn. Það er sumar í Suður-Afríku á þessum árstíma og töluvert heitt. Í Durban er mjög rakt loftslag og það rignir töluvert mikið á meðan veðurfar er allt öðruvísi, þurrara og hlýrra í Höfðaborg.


Við keyrðum sem sagt niður að strönd og gengum 7,5 km gönguleið á Umdloti svæðinu. Gönguleiðin kallast Sibaya Costal Forest Reserve og er verndarsvæði skógarins sem þar er. Við sáum auðvitað fullt af dýrum og nokkur sem ég hafði ekki áður séð. Annað merkilegt, en ekki á skemmtilegan hátt, var trjáhýsi sem göngufélagar okkur vissu um inni í skóginum. Þar hafðist við maður árið 2018 í felum fyrir yfirvöldum en hann hafði framið morð sem inngönguþraut í hryðjuverkasamtök og var eftirlýstur. Hann fannst að lokum en það eru ennþá leyfar af trjáhýsinu inni í skóginum. Meira djúsí saga tengist þessu, sem ég er að reyna að grafa upp...


Hér er göngutúrinn með myndum o.fl.


Talandi um rigningu og flóð. Þá hafa komið rignarflóð sem hafa rutt húsum á haf út á þessu svæði. Það varð mjög stórt flóð hér í apríl 2022 sem olli miklu tjóni. Náttúruhamfarir sem höfðu víðtæk áhrif, þær hörmulegustu sem mælst hafa í KwaZulu-Natal (KZN) héraðinu þegar litið er til týndra mannslífa og heimila, skemmdum á innviðum og efnahagslegra áhrifa í kjölfarið.


Þessi áhætta er greinilega alltaf til staðar, því það er mikill skortur byggingareglugerðum og spilling er útbreidd hjá hinu opinbera. Það sárvantar að bæta innviðina. Þetta sést einnig vel því að reglulega, eiginlega á hverjum degi er "load shedding" á rafmagni. Orkukreppan í Suður-Afríku eða álagslosun er viðvarandi og hefur staðið lengi yfir. Ein helsta orsökin fyrir þessu sú að landið treystir mikið á kolaorkuver. Þessar verksmiðjur eru að eldast og þurfa mikið viðhald, sem leiðir til bilana sem draga úr magni raforku sem er tiltækt fyrir netið. Árið 1998 kom út skýrsla þar sem bent var á hið augljósa að auka þyrfti afkastagetuna og bæta kerfnið. Þáverandi forseti Mbeki og ríkisstjórninagreip ekki til aðgerða, líklega vegna þess að verið var að íhuga einkavæðingu á Eskom, orkukveitunni í þjóðareigu. Umræaða um spillingu er heldur aldrei langt undan.


Þetta vandamál er því viðvarandi og við urðum mjög varar við það sem ferðamenn.


Auk þess er ekki nóg af vatni þó að rigni töluvert, þá á vatnið til að valda skemmdum. Það var því oft látið vita að vatnið yrði tekið af í nokkra tíma og þá þurfti að birgja sig upp og gera ráðstafanir.


Seinna í ferðinni, á meðan við vorum í ferðlagi inn i Hluhlui-Imfolosi þjóðgarðinu, rigndi mikið í Durban og rignarflóð gerði óskunda á því svæði sem við höfðum verið að ganga í Umdloti 10 dögum áður. Hér er smá sýnishorn af því sem gekk á meðan við vorum í burtu.



Seinni partinn fórum við svo í fjölskylduheimsóknir þar sem við fengum fallegar móttökur hjá foreldrum Morag og bróður Kevin.



03.01.2024

Daginn eftir héldum við aftur niður að strönd, að þessu sinni á lgenga göngu- og skokkleið meðfram sjónum í hverfi sem heitir Umhlanga. Thea var okkar fylgdarmaður.


Á leiðinni þangað sáum við merði, eða ég hélt það væru merðir, en sem voru í raun dýr sem heita Banded Mongoose sem er alls ekki gæsir heldur! Eftir því sem ég kemst næst heita þessi dýr Mangar á íslensku.


Mangar - Banded Mongoose

Annað dýr sem mjög sjaldgæft er að sjá því það felur sig svo vel í náttúrunni er kameljónið sem er alls ekki ljón, en mikið var gaman að sjá það í fyrsta sinn.


Kameljón

Það var umhugsunarvert að sjá svæði við enda strandarinnar sem er lokað af með keðjum, en þar varð mikið umhverfisslys fyrir nokkrum árum. Ólöglegt geymsluhúsnæði sem hýsti eiturefni varð fyrir tjóni og eitrið og óværan lak niður hlíðarnar niður á strönd og mengaði lón sem þar er og grunnvatnið. Okkur var sagt að það tæki tugi ára að hreinsa sig.


Hér er göngutúrinn okkar í Umhlanga


Seinna um daginn lá leið okkar inn í eitt fátækrahverfið að finna heimili Gandhi og prentsmiðjuna sem hann starfrækti´þar. Við keyrðum í gegnum township sem umlykur safnið. Hér eru nokkrar myndir sem við tókum út um gluggann á leiðinni til Gandhi.



Vísað er til safnsins sem Gandhi's Phoenix Settlement in Inanda og þangað eru allir velkomnir sem vilja fræðast um Gandhi og hans starf framlag til heimsins.


Hann kom þangað ári eftir útskrift frá laganámi í London. Hann tók tilboði indversks viðskiptajöfurs í Suður-Afríku, um að starfa sem lagalegur ráðgjafi hans. Dvölin átti að vera stutt en varð mun lengri en Gandhi ætlaði sér, og samanlagt dvaldi hann þar í rúmlega 20 ár. Í Suður-Afríku komst Gandhi að því að Indverjar þar bjuggu við mjög bág kjör. Þeir voru nánast réttindalausir, almennt kallaðir niðrandi nöfnum og jafnvel ekki mennskir í augum Evrópumanna. Gandhi fór ekki varhluta af hatrinu, til dæmis var honum hent af fyrsta farrými lestar í Pietermaritzburg, jafnvel þótt hann hefði gildan farmiða í fórum sér.


Ghandi segir sjálfur að hann hafi orðið það sem hann varð í Suður-Afríku. Hann þróaði hugtakið satyagraha, sem felur í sér einarða en ofbeldislausa andspyrnu við ákveðnu afli eða óvin. https://www.visindavefur.is/svar.php?id=3426


Hér eru nokkrar myndir úr safninu, en við vorum einu gestirnir og fengum einkaleiðsögn um safnið. Það kostar ekkert inn en öllum frjáls framlög vel þegin.



Þá er ég búin að dekka fyrstu fjóra daga ferðalagsins til Suður-Afríku, 31. desember 2023 til 3. janúar 2024.

Recent Posts

See All

Comments

Rated 0 out of 5 stars.
No ratings yet

Add a rating
bottom of page