top of page
 • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Ítalíuferð sumarið 1908

Við jólatiltektina kom aftur upp í hendur mér bók sem ég keypti á bókamarkaði á síðustu öld.


Þarna var kominn Guðmundur Finnbogason sem skrifaði um Ítalíuferð sína sumarið 1908. Sonur hans Finnbogi Guðmundsson hefur líklega látið gefa ferðaþættina út árið 1985 sem höfðu þá birst í Ísafold síðari hluta árs 1908. Ég biðst forláts að hafa ekki fengið leyfi fyrirfram til að vitna í þessa bók en mér fannst skemmtilegt að glugga í hana.


Núna 115 árum síðar eftir þessa Ítalíuferð sem Guðmundur fór eru hughrifin mörg hver þau sömu og ferðamaður dagsins í dag verður fyrir. Eins fannst mér einstaklega skemmtilegt að skoða orðanotkun og nýyrðasmíði Guðmundar um staði og fyrirbæri, enda er honum lýst sem ötulum orðasmið.


Guðmundur Finnbogason
Ítalíuferð sumarið 1908
Nokkur dæmi
 • Marseille = Massilía

 • Seine = Sygna með "y" en við notum oftast Signa með einföldu

 • Notre Dame de la Garde = Vor frú á verði

 • Tevere = Tífur/Tívur

 • Trastevere = Fyrir-handan-Tívur

 • Sibellini = Sabínafjöll

 • Fagursýn = Belvedere

 • Flórens = Blómaborg

 • Canal Grande = Stóráll (sem ég hef kallað Miklasýki)

 • Doge = Togi (sbr. Hertogi)

 • Santa Maria della Salute - Hjálpræðiskirkjan

 • Greypimyndir = mósaik

 • Karnival - föstugleði (sem er ólíkt kjötkveðjuhátíð sem við notum oftast)


Árið 1908 ákvað hann að skella sér til Ítalíu með Sveinbirni Sveinbjörnssyni, frönskukennara í Árósum sem minnist þessa ferðalags með mestu ánægju.


Þeir leggja af stað áleiðis til Ítalíu í gegnum Frakkland og Monaco og koma við í Avignon, Marseille, Nizza, Monte Carlo, Genova, Pisa, Sienea, Róm, Flórens og Feneyjum.


Áhugvert að sjá hversu oft frásagnir af áreitni götusala, burðarkarla, betlara og skóburstunarstráka koma við sögu jafnvel vasaþjófar. Honum tekst vel að lýsa mannlífinu og það sem kemur honum á óvart í fari fólks og framkomu.


Stundum stenst Guðmundur ekki mátið og fer að bera það sem hann sér saman við heimahagana. Í Avignon t.d. segir hann náttúruna vera suðræna, sólbrenda og litsterka og hæðirnar þar í kring minntu hann á Hreppana í Árnessýslu en hann tekur fram að jurtagróðurinn sé mjög ólíkur. Honum finnst líka aðaltorgið í Siena svipa til ráðhússtorgsins í Kaupmannahöfn.


Guðmundur heillast af "Kýprustrjám" sem hann kallar reyndar grátvið og finnst það vera minnisstæðasti gróðurinn sem hann sér í ferðinni. Miðað víð lýsinguna á trénu sem hann segir að minni sig á fjaðrir af einhverjum suðrænum undrafugli sem stungist hafa í stofninn, er líklega um grátvíði að ræða. Það kom einmitt út bók sem heitir Grátvíðir eftir íslenska rithöfundinn, Fífu Larsen núna fyrr á árinu, þar sem sögusviðið er Norður-Ítalía. HÉR er hinsvegar pistill um Sýprustré.


Á einum tímapunkti þegar þeir eru komnir til Rómar þá tjáir Guðmundur sig um "fylgdarmenn" eins og hann kallar þá, sem bjóða þjónustu sína til að sýna ferðamönnum söfn borgarinnar og merkisstaði. Þarna eru komnir leiðsögumenn en kannski maður ætti að fara að nota frekar nafnið fylgdarmaður eða fylgdarkona, neeeei, held ekki, það gæti misskilist. Orðið hefur fengið aðra merkingu í seinni tíð. Það er pínu fyndið hvað honum finnst þessir leiðsögumenn óþarfir og óþolandi, þeir tali allt of mikið, þyljandi upp romsur af fróðleik sem þeir kunna utanbókar. Guðmundur vill miklu heldur styðjast við Baedeker sem er sannfróður og þegir!Baedeker ferðabækurnar eru auðvitað mjög góðar en ég leyfi mér að vera ósammála Guðmundi með leiðsögmennina... ef þeir kunna sitt fag, það er.


Þeir enda ferðina í Feneyjum

Um Feneyjar segir Guðmundur

Borgirnar á Ítalíu virtust vera eins og systur eða frændur. Sama aðalsblóðið rann í æðum þeirra allra, en hver hafði sinn fegurðarþokka, sína töfra. Við vorum ásthrifnir af þeim öllum og eriftt að gera upp í milli þeirra. Einmitt þess vegna óx undrunin. En eigi ég nú að segja fyrir sjálfan mig, þá held ég, að Venezía verði mér hugstæðust; mér fannst hún einkennilegust og ljúflyndust af öllum þeim ítölsku systrunum, sem ég sá.

Það er gaman að sjá staðfestingu á því að klukkuturninn frægi í Feneyjum er í endurbyggingu þegar þeir félagar koma á Markúsartorgið en hann hafði hrunið skyndilega nokkrum árum áður. HÉR er allt um það.


Markúsartorgið segir Guðmundur að sé meira en torg, það sé salur, stærsti salur í heimi, samkomusalur Feneyinga, veggirnir gerðir af manna höndum, þakið bláhvelfing himins.... Hann segist síðan hafa leitað að þessum bláma í öllum safírum, en engan fegri fundið.


Þar erum við Guðmundur á sama máli. Feneyjar er drottningin, risin úr marardjúpi.

Heimildir

Bókin Ítalíuferð sumarið 1908. Hér eru upplýsingar af Vísindavef HÍ um Guðmund Finnbogason en hann var fyrsti Íslendingurinn með doktorspróf í sálfræði. Hér er meiri fróðleikur um Guðmund


Hér eru tvær bækur sem hafa verið gefnar út um verk hans. Bókin Frá sál til sálar og doktorsrannsóknin hans og kenningur um Sympathetic Understanding sem hefur verið þýtt samúðarskilningurinn.Fleiri pistlar um...


Recent Posts

See All

Comentários

Avaliado com 0 de 5 estrelas.
Ainda sem avaliações

Adicione uma avaliação
bottom of page