top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Guinigi í Lucca

Updated: Oct 26, 2023

Ein af fallegustu ástarjátningum miðalda er höggvin í stein í San Martino Dómkirkjunni í Lucca. Verkið er talið ein mesta yfirlýsing ást karlmanns til konu í listasögunni.

Paolo var yngstur af fimm sonum Francesco Guinigi og Filippa Serpenti og erfði allan ættarauðinn eftir að fjórir eldri bræður hans létust um aldur fram, einn myrtur, tveir fengu drepsótt og fjórða af fimm bræðrunum er ekki vitað hvað varð að aldurtila.


Paolo erfði auk þess allar eigur úr móðurfjölskyldunni sinni og ekki nóg með það erfði hann eigur eftir fyrstu konu sína, Caterina Antelminelli, sem var af valdamikilli ætti. Umrædd Caterina var í raun einungis 11 ára gömul þegar þau giftust og mun hafa dáið skömmu eftir brúðkaupið.


Vegna þessara tenginga við þrjár valdamiklar ættir á svæðinu komst hann frekar auðveldlega til valda og varð hertoginn við stjórnvölinn í Lucca árið 1400.


Ástarsaga frá miðöldum

Paolo giftist svo Ilaria del Carretto árið 1403 sem var dóttir annars aðalsmanns, Carlo af Finale Ligure. Eignuðust þau tvö börn, son að nafninu Ladislao og stúlku sem skírð var eftir móður sinn, Ilaria. Móðirin hinsvegar dó af barnsförum við að koma henni í heiminn. Árið var 1406.


Paolo giftist reyndar tvisvar til viðbótar. eftir að Ilaria fellur frá. Næst giftist hann Piacentina da Camerino en hún dó meðan hún var enn þunguð og loks Iacopa af Foligno sem dó nokkrum tímum eftir að hún fæddi barn, eins og Ilaria.


Kistan hennar

Paolo sem unni Ilariu heitt, fékk einn frægasta myndhöggvara þess tíma, Jacopo della Quercia, til að búa til grafkistu fyrir ástina sína.

Það tók Jacopo della Quercia um tvö ár að fullklára hana og sagt er að hann hafi ekki verið sjálfum sér líkur eftir að verkinu lauk, hafi í raun orðið ástfanginn af Ilariu við að vinna verkið.


Bein Ilariu hvíla hins vegar á öðrum stað og hún hefur aldrei komist í kistuna. Hennar jarðnesku leyfar er að finna í kapellu ættarinnar í Santa Lucia í San Francesco kirkjunni.


Stjórnartíð

Paolo stjórnaði veldi sínu skynsamlega og með reynlsu sem hann hafði öðlast í viðskiptum á uppeldisárunum. Hann reyndi að viðhalda friði og efnahagslegum stöðugleika og hvatti til opinberra framkvæmda. Hann hafði líka raunsæa afstöðu til utanríkisstefnunnar sem Lucca stundaði, án útópískra drauma um "heimsyfirráð" á Ítalíuskaganum. Hann elskaði að umkringja sig með fallegum hlutum eins og margir aðalsmenn þess tíma. Hann átti gott bókasafn og var virkur verndari menningar og lista.


Fall hans á endanum var líklega vegna þess að hann sýndi mikla varkárni í samskiptum sínum við óvini og bandamenn sína á Ítalíu. Hann reyndi að halda öllum góðum með einhverjum hætti sem leiddi til þess að bæði óvinir og bandamenn fóru að fyrirlíta hann. Hann tapaði á endanum virðingu Lúkverja sem höfðu stutt uppgang hans.


Þegar honum var steypt af stóli árið 1430, tóku arftakar á honum með óvenju mikilli hefnigirni. Hann var dreginn fyrir rétt, dæmdur til dauða í eigin fjarveru og eignir hans, þar á meðal mikilvægir innanstokksmunir í hertogahöllinni voru gerðar upptækar og þeim dreift. Einungis grafkista Ilariu hefur varðveist.


Hann dó árið 1432 sem fangi hertogans af Mílanó í kastalanum í Pavia.


Sagt er að daginn sem Paolo dó hafi trén á þaki Guinigi turnsins í Lucca fellt öll laufin sín.


Recent Posts

See All

Comments

Rated 0 out of 5 stars.
No ratings yet

Add a rating
bottom of page