top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Pétur - Móse - Michelangelo

Updated: Mar 13, 2023

Ég held að það séu allir með örðu af DNA eða rómversku erfðaefni í sér. Það er einhvernveginn skylda okkar að koma til Rómar til að skilja hvaðan við komum. Það falla öll vötn til Dýrafjarðar en það liggja líka allar leiðir til Rómar.


Eftir að hafa virt fyrir sér verk Michelangelo í Péturskirkjunni, þeirri einu og sönnu, Pietà styttuna og undursamlegar freskur í Sixtínsku kapellunni, er þá ekki upplagt að bæta fleiri Péturskirkjum í safnið?


Kirkja heilags Péturs í hlekkjum, San Pietro in Vincoli (Saint Peter in Chains) er frekar lítil kirkja, basilika, sem hýsir hlekki heilags Péturs og hina frægu Mósestyttu sem Michelangelo gerði.


St Peter in Chains - San Pietro in Vincoli - Kirkja Heilags Péturs í hlekkjum

Kirkjan lætur lítið yfir sér, er eiginlega innlyksa, og römmuð inn af tveimur öðrum byggingum eins og sést á þessari mynd. Hún er því í eins og félagsheimilið í Stuðmannamyndinni Með allt á hreinu, töluvert stærri að innan.


Raja Patnaik, post-processed and uploaded by Alessio Damato (with permission of the author) - Own work, CC BY-SA 3.0
Hlekkir Péturs postula
Hlekkirnir

Þar eru sum sé hýstir hlekkirnir sem fjötruðu heilagan Pétur þegar hann var fangelaður í Jerúsalem og síðar frelsaður af engli - eins og gerist og gengur. Hlekkirnir varðveittust og til að gera langa sögu stutta, þá fundu þeir sína leið til Rómar og prýða nú kirkjuna.


Á ögurstundu, þegar Leo I páfi þáði hlekkina að gjöf og snerti þá, sameinuðust slitnu hlekkirnir á einhvern yfirnáttúrlegan hátt og nú er keðjan óslitin - eins og gengur og gerist.


Móse eftir Michelangelo

Eitt af meistaraverkum Michelangelo prýðir kirkjuna en það er höggmyndin af Móse sem er reyndar hluti af stærra verki, grafhýsi fyrir Júlíus II páfa á 16. öld. Segja má að verkið hafi verið lífrænt í gegnum tíðina, í það minnsta á meðan að Michelangelo lifði, því hann breytti því nokkrum sinnum. Hann breytti til að mynda afstöðu höfuðsins 25 árum eftir að hann lauk við verkið og núna horfir Móse til hliðar en ekki fram.

Það eru til sögusagnir um gerð styttunnar. Loks þegar Michelangelo hafði lokið við gerð hennar, á hann að hafa starað á hana og dáðst að handverki sínu. Eftir stutta stund á hann að hafa tekið hamarinn sinn og hent honum í styttuna og öskrað: "Af hverju talarðu ekki?"


Önnur saga segir að áður en Michelangelo hófst handa hafi hann farið í rannsóknarvinnu til að fá hugmynd um hvernig Móse gæti hafa litið út. Hann fann texta á hebresku sem hann fékk kaþólskan prest til að þýða fyrir sig. Textinn sagði að hann hefði haft “קרניים” út úr höfðinu. Hebreska orðið er “kah-WREN” sem þýðir "horn", en það þýðir líka "ljósgeislar". Svo ástæðan fyrir því að styttan hans Michelangelo af Móse hefur horn er að þessi ágæti prestur þýddi ranglega orðið “קרניים”!


Tilbrigði við þessa sömu sögu er að listamaðurinn hafi hagnýtt sér táknmyndafræði listarinnar sem algeng er og hafi metið það sem svo að auðveldara væri að móta horn en ljósgeisla í marmarann og hafi látið áhorfendum eftir að finna tenginguna.


Grafhýsi Júlíusar II páfa eftir Michelangelo
Grafhýsi Júlíusar II páfa eftir Michelangelo


Recent Posts

See All

Comments

Rated 0 out of 5 stars.
No ratings yet

Add a rating
bottom of page