Það eru alltaf tímamót hjá þessum heimsfræga klukkuturni þann 14. júlí ár hvert en þann dag árið 1902 hrundi klukkuturninn. Sá sem við sjáum í dag er ungur á skalanum „líftímar klukkuturna" því þessi frægi turn var endurbyggður og endurvígður árið 1912.
Klukkan 9:47 þann 14. júlí 1902 byrjuð steinar að hrynjar úr turninum og kl. 9:53 hrundi turninn endanlega.
Vart hafði orðið við stóra sprungu tveimur dögum áður og frásagnir eru til um að brot og brot hafi verið að detta úr honum nokkrum dögum eða vikum á undan. Fjórtandi júlí er líka Bastilludagurinn, þjóðhátíðardagur Frakka. Ég leyfi mér samt að fullyrða að fallið hafi ekkert að gera með þessa sögulegu staðreynd.
Það var því vel fylgst með atburðarásinni í aðdragandanum og það tókst að rýma turninn, torgið og nærliggjandi byggingar í tæka tíð. Markúsarkirkjan slapp að mestu og ótrúlegar litlar skemmdir urðu á byggingunni sem stendur næst honum. Hreint kraftaverk að enginn hafi orðið undir, slasast eða látist.
Það er auðvelt að ímynda sér að turninn hafi hrunið vegna þess að undirstöðurnar hafi ekki verð nógu rammbyggðar í miðju Feneyjalóninu, en sú er ekki raunin. Ástæðurnar má rekja til þess að hönnunin var ekki rétt frá upphafi og sérstaklega vegna þess að viðbætur og breytingar sem gerðar voru á honum og viðleitni til að styrkja útveggina unnu ekki vel saman þegar á heildina er litið. Einnig er vitað að upprunalega byggingarefnið var ekki í hæsta gæðaflokki. Aukinheldur voru það jarðskjálftar sem höfðu hrist hann töluvert í aldanna rás sem og eldingar sem lustu sér reglulega niður í erkiengilinn Gabríel sem trónir á toppnum og gegnir hlutverki veðurhana.
Maður að nafni Luigi Vendrasco hafði spáð því að þetta myndi gerast og var búinn að vara við þessu í 10 ár, þannig að þeir sem þekktu til voru búnir að koma auga á sprungumyndun og fleiri vísbendingar það sem verða vildi.
Eftir hrunið voru allskonar yfirhylmingar og ásakanir sem gengu á víxl. Pietro Saccardo var byggingafræðingurinn á þeim tíma sem mest mæddi á og á honum dundu ærumeiðingar þeirra sem voru mjög virkir í kommentakerfinu. Hann er eina mennska fórnarlamb hrunsins því hann mun hafa misst heilsuna í kjölfar umræðunnar. Þess er þó getið í heimildum að köttur umsjónarmannsins hafi ekki lifað hrunið af...
Það er í raun enn tekist á um það hvort hægt hefði verið að koma í veg fyrir hrunið og deilt um hversu stóra rullu náttúruöfl spiluðu og hversu stórum hluta má kenna um vanhugsuðum viðbótum og styrkingum. Það liggur þó fyrir sú staðreynd að undirstöðurnar voru massívar og ekki um að kenna, eins og kom í ljós þegar var verið að undirbúa grunninn fyrir nýjan turn.
Á endanum var sú ákvörðun tekin að endurbyggja turninn í upprunalegri mynd, ef hægt er að orða það svo. Turninn hafði jú tekið miklum breytingum frá því að fyrst reis varðturn á torginu líklega á 9. öld. Eftir því sem turninn hækkaði gegndi hann líka hlutverki innsiglingarvita. Árið 1511 hrundi þáverandi bygging að mestu í jarðskjálfta og það var loks árið 1514 sem hann skreið upp í endanlega hæð þegar turnspíran og kirkjuklukkunum var komið þar fyrir. Klukkurnar gegndu margþættu hlutverki, m.a. að hringja öldungaráðið og ríkisráðið til funda, hringja inn messur, tilkynna aftökur og auðvitað að láta vita hvað klukkan væri.
Hönnunin er eignuð Giorgio Spavento og er í endurreisnarstíl, þó svo að seinni tíma breytingar hafi sett fleiri stílbrögð á útlitið. Skemmtilegt að ímynda sér að nafnið hans, spavento, þýðir „að vera brugðið“, eða hræðsla... kannski það hafi alltaf verið markmiðið hans...
En turninn sem við sjáum á torginu í dag var vígður við hátíðlega athöfn árið 1912, 10 árum eftir hrunið. Hann er 98,6m að hæð, töluvert hávaxnari en Hallgrímskirkjuturninn okkar sem er 73m og hæsta bygging í Feneyjum, gjarnan kallaður ‘El Paron de Casa’, eða „húsbóndinn“ af Feneyingum.
Núverandi klukkuturn á sem sagt 110 ára afmæli árið 2022 og Feneyjar áttu 1600 ár afmæli 2021, en jafnan er miðað við daginn 25. mars árið 421 sem stofndag borgarinnar.
„Húsbóndinn“ er tákn um seiglu Feneyinga, frá hruni til endurreisnar og er ágæt táknmynd fyrir upprisuna eftir heimsfaraldurinn. Ítalir hafa ekki farið varhluta af veirunni, hvað þá Feneyingar sem í gegnum aldirnar hafa kynnst drepsóttum oftar en margar aðrar þjóðir.
Hér er líka pistill um hinn alræmda Casanova sem var Feneyingur og hér er afmæliskveðja til Feneyja
Σχόλια