top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Þær eiga afmæli í dag, Feneyjar!

Updated: Nov 4, 2023

25. mars 2021 áttu Feneyjar 1600 ára afmæli. Já, gott betur en aldur Íslandsbyggðar.


Sagnfræðin er almennt sammála um það að íbúar Feneyja hafi upphaflega verið flóttamenn frá Róm. Diokletíanus, keisari Rómaveldis, ofsótti kristna menn rétt eftir aldamótin 303 e.Kr. og fólk flúði þangað sem það taldi að væri öruggara að hreiðra um sig.

Fólk flæmdist einnig frá nærliggjandi sveitum vegna ágangs herskárra þjóðflokka s.s. húna, germanna, langbarða og gota.


Fólkið sem hraktist til Feneyja var sem sagt af allskonar þjóðarbrotum og mismunandi trú. Hér bjó því marglitur hópur þó svo að Feneyjabúar séu að stofni til afkomendur veneta sem bjuggu í óshólmum Pó-dalsins á valdatíma Rómverja.


Mannlífið í Feneyjum hefur því frá upphafi verið fjölbreytt. Það er því írónísk staðreynd að það sem ógnar tilvist Feneyja í dag sé mannfjöldinn og vinsældir borgarinnar.



Það er engin söguleg gögn eða heimilidir um það hvenær Feneyjar voru stofnaðar sem borgríki. Það sem jafnan er miðað við er sögulegur atburður sem sannanlega átti sér stað, kirkjuvígsla kirkju heilags Jakobs (San Giacomo) á eyjunni Rialto (Rivoalto). Sá dagur er viðmiðunardagur um stofnun borgríkisins. Árið var 421, dagurinn var 25. mars. Feneyjar eru samt ung borg miðað við aðrar ítalskar borgir.


Feneyjar hafa á sér draumkenndan blæ og oft er talað um að Feneyjar séu stærsta fljótandi listasafn heims. Fólk gerir sér ekki alltaf grein fyrir því að Feneyjar eru borg, heimabær Feneyinga. Þær 20 milljónir ferðamanna sem heimsækja borgina á hverju ári líta frekar á hana sem skemmtigarð eða jú listasafn úti undir berum himni.


Gjalddtaka á ferðamenn sem hyggjast dvelja einn dag í borginu mun hefjast áður en langt um líður. Þá verða ferðamenn sem ætla í dagsferð til Feneyja rukkaðir um komugjald til borgarinnar. Með þessu er verið að leggja grunn að því að hvetja ferðamenn til að dvelja lengur í borginni og njóta þess sem hún hefur upp á að bjóða. Slow travel.


Í síðasta skiptið sem ég kom til Feneyja, þann 20. október 2019, var íbúafjöldinn 52.751. Í venjulegu árferði koma allt að 60 þúsund ferðamenn til Feneyja á degi hverjum. Ferðamenn eru þar ætíð í meirihluta og þjappast á sömu svæðin í kringum Markúsartorgið og Rialto brúnna. Það segir sig sjálft þetta er gífurleg áskorun.


Það sem talið er að bjargi framtíð Feneyja og stuðli að meiri sjálfbærni er einkum fækkun ferðamanna samfara auknum tekjum af ferðamennsku með breyttu skipulagi og gjaldtöku. Fækkun skemmtiferðaskipa inn í lónið. Betri stýring á hæð sjávar í lóninu með Móse áætluninni. Stemma stigu við háum kostnaði á íbúðum og aðföngum. Styðja við litlu kaupmennina á horninu, verslun sem hefur verið við lýði kynslóð fram af kynslóð, þannig að erlendir fjárfestar með sínar lundabúðir taki ekki yfir.


Önnur þjóðþrifaráð eins og að koma spilltum embættismönnum frá stýrinu myndi líka verða mikil blessun fyrir borgina, en mörg hneykslismál hafa komið upp í sambandi við endurreisn Feneyja.


Venezia Autentica er félag stofnað í Feneyjum árið 2017. Markmið okkar er að umbreyta því hvernig ferðaþjónusta hefur áhrif á borgina. Við viljum fara úr ósjálfbærri fjöldaferðamennsku, sem gagnast hvorki gestum né íbúum, yfir í sjálfbærari og ábyrgari ferðaþjónustu sem er sannur ávinningur.

Þú getur lagt lið með því að styrkja Venezia Autentica. Hægt er að gerast Feneyjaljón og styrkja þetta þarf verkefni fyrir því sem nemur einum kaffibolla á mánuði.


Væri það ekki frábær afmælisgjöf?


98 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments

Rated 0 out of 5 stars.
No ratings yet

Add a rating
bottom of page