Lífrænt, vistvænt, lífeflt – hvað þýðir það?
Vín sem er vottað lífrænt (e. organic / it. biologico) er gert úr þrúgum sem eru ræktaðar með lágmarks innigripi hvað varðar áburð og eiturefni. Það hljómar einfalt og augljóst, en krefst mikillar aukavinnu (20-30%) og framleiðslumagnið er mun minna. Tilbúinn áburður, skordýraeitur og öll önnur eiturefni sem notuð eru til að verjast sníkjudýrum eða sníkjuplöntum eru á bannlista sem og erfðabreyttar plöntur.
Lífefld (e. biodynamic / it. biodinamico) þrúgnarækt er jafnvel enn meira krefjandi framleiðsla og byggist á heimspeki Rudolfs Steiner, um að heimurinn og geimurinn séu ein heild og samvirkandi. Ræktunin verður að eiga sér stað í þessu samhengi og fer jafnvel eftir gangi himintunglanna. Þetta hljómar skringilega en útkoman er býsna spennandi vín – og afar vel útlítandi vínekrur, kannski vegna þeirrar miklu natni sem lögð er í umönnunina.
Umræðan um lífræna ræktun hefur vakið vínræktendur til vitundar. Þeir sem búa ekki endilega yfir þeirri sannfæringu eða fjárráðum sem þarf til að fara alla leið hafa í auknum mæli tileinkað sér vistvæna ræktun (e. ecological / it. ecologico). Vistvæn ræktun er víða vottuð eins og lífræn ræktun og leyfir notkun tilbúinna áburða og eiturefna en í litlum mæli.
Sjálfbærni í vínrækt og framleiðslu er orðin sjálfsögð krafa og þar standa framleiðendur lífrænna, lífefldra og vistvænna vína mun sterkari fótum. Einnig eru meiri líkur á því slíkar framleiðsluaðferðir henti betur þeim sem eiga til að sýna ofnæmisviðbrögð.
Súlfít eða brennisteinsdíoxíð (SO2) er rotvarnarefni með andoxunar- og bakteríudrepandi eiginleika og gegnir því mikilvæga hlutverki að sporna gegn oxun í vínum og viðhalda ferskleika þess. Súlfít verður bæði til á náttúrlegan hátt við gerjun og svo er hægt að bæta því við í framleiðsluferlinu. Brennisteinn hefur verið notaður í þessum tilgangi síðan á tímum Rómverja. Því miður er súlfít jafnframt dæmigerður ofnæmisvaki hjá fólki sem glímir við astma. Súlfít er nánast í öllu áfengi og leyfilegt hámarksmagn er tilgreint í reglugerðum. ESB mörkin er mun lægri en víða annars staðar í heiminum og mörkin leyfð fyrir vottuð vín úr lífrænni og lífefldri ræktun eru svo enn lægri.
Það er útbreiddur misskilningur að súlfít sé einungis í hvítvíni, ekki í rauðvíni. Súlfít er í öllu léttvíni til að byrja með, en magnið minnkar eftir því sem vínið eldist. Reyndar er súlfít yfirleitt í minna magni í rauðvíni vegna þess að tannín gegnir að hluta til sama hlutverki og súlfít í rauðvíni og kemur úr dökku hýði vínberjanna sem gefa rauðvíninu litinn.
Óþol gagnvart tannín má oftast tengja við persónulegan smekk fólks því vín með háu tannínmagni skilur eftir sértaka tilfinningu á tungunni, svona stama, þurra tilfinningu. Dæmi eru um að fólk sé með ofnæmi fyrir tannín en auðvelt er að komast að því, því kaffi og ákveðnar te-tegundir sem innihalda tannín, geta skorið úr um það.
Sannleikurinn er að orsakir timburmanna er oftast að finna í magni og styrkleika vökvans sem við innbyrðum - ekki nýjar fréttir það.
Annað sem getur framkallað svipuð áhrif er histamín og tannín, ef einhverskonar ofnæmi er til staðar. Histamín er oft að finna í léttvíni og tannín er algengt í rauðvíni. Margar rannsóknir hafa verið gerðar til að mæla magn histamíns í víni en það hefur ekki gengið vel. Magnið er mismunandi frá náttúrunnar hendi en getur einnig verið mismikið frá flösku til flösku úr sömu framleiðslu jafnvel.
Ofnæmisviðbrögð þurfa ekki að þýða að þú hafir ofnæmi fyrir léttvíni, heldur þurfir að skoða betur hvaða vín þú velur. Lífræn, lífefld og vistvæn vín ættu að vera laus við eiturefni og bara við það fækkar ofnæmisvökunum um heilan helling.
Annað sem gott er að hafa í huga er að einstaklingar sem eru viðkvæmir fyrir histamíni í víni, ættu að láta rauðvín vera og varast freyðivín sem innihalda tyramín sem er afar skylt histamíni. Þeir sem þola illa tannín ættu að drekka hvítvín og þeir sem þola illa súlfít eru með dýrasta smekkinn, því þeir ættu að drekka mjög gamalt rauðvín.
Sannleikurinn liggur í víninu – IN VINO VERITAS
Skrifað fyrir Colletto Vínklúbbinn
Áður birt á Facebook síðu klúbbsins 24.5.2021
コメント