top of page

Matarmenning í Marche

Writer's picture: Ágústa Sigrún ÁgústsdóttirÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Updated: Sep 21, 2024

Marche hefur verið undir miklum áhrifum frá nærliggjandi svæðum og hefðum sem komu með hinum ýmsu innrásarþjóðum í gegnum langa sögu yfirráða á svæðinu. Segja mætti að matarmenningin í Marche byggi á kröftugum uppskriftum úr sveitunum og frá markgreifum og hirðum sem komu sér fyrir hér fyrr á öldum.


Í dag eru fornar uppskriftir sem eru trúar sögunni reglulega á borðum Markverja. Oftar en ekki hafa matreiðslumenn sett gamlar uppskriftir í nútíma samhengi. Það eru t.d. 39 staðir í Marche sem Michelin mælir með, þar af einn með þrjár Michelin stjörnur, einn með tvær stjörnur og svo staðir með eina stjörnu eða sem Michelin mælir með án stjörnugjafar þó.


Margir bændur halda fast í staðbundnar hefðir. Heiðnir siðir og afstaða himintungla eiga ennþá stóran þátt í því að ákveða hvaða dagar eru heppilegir til að gróðursetja, skipuleggja uppskerutíma, búa til vín og osta og vinna kjöt.


Við ströndina eru augljóslega mikið af fisk- og sjávarréttum í boði m.a. villtur kræklingur, en inn til landsins og upp í hæðunum eru kjúklingur og svínakjöt aðalpróteingjafinn.


Brauðmetið er yfirleitt hvítt, en einnig er algent að borða einskonar flatkökur sem kallast crescia: búnar til úr vatni, hveiti og eggjum og eldaðar á grillinu. UPPSKRIFT. Þetta brauð er algert lostæti og þjónaði upphaflega þeim tilgangi að „taka tímann" á eðalbrauði sem var í bakstri innar í ofninum. Þegar crescia brauðið fór að bæra á sér, var stutt í að brauðið fyrir innan væri að verða tilbúið.


Ólífur vaxa á trjánum í Marche :-) og eru bornar fram bæði einar sér en mjög algengt er að þær séu innbakaðar með bragðmiklum deigi. Algert sælgæti þegar vel tekst til.


Hveitkorn, maískorn, sveppir og mikið úrval af grænmeti sem prýða matarborð Markverja er að finna um allt hérað og sólblómin eru mikil prýði hvar sem farið er. Útflutningur á þessum vörum er aftur á móti óalgengur, meira hugsað til eigin nota. Rjómalagaðar sósur eru algengari í Marche en í mörgum öðrum héruðum á Ítalíu sem ætti að vera góðar fréttir fyrir sósuþjóðir.


Svínakjötsuppskriftir byggja á vænum bitum í stað þunnskorins svínakjöts í prosciutto stíl. Þar sem auðvelt er að fá svínakjöt eru margar tegundir af pylsum framleiddar í Marche. Sú þekktasta er líklega hin reykta ciauscolo pylsa sem er svínakjöt og svínafita til hálfs, mjög vel krydduð með salti, pipar, appelsínuberki og fennelfræum.


Slow food

Ciauscolo pylsan er á vottunarlista Slow-food eða hægfæðis-listanum. Það eru 11 skráningar frá Marche á listanum.


Nokkur dæmi um þær eru baunategundir, grænn anis, rauður flatlaukur, epli, fíkjur, ostar, pylsur og umræddur kræklingur sem er týndur villtur fyrir utan ströndina í Portonovo.


Ísland á skyrið, landnámshænuna og íslensku geitina á sama lista.


Ostar



"Ostalega" séð heldur Marche sínu striki í harðri samkeppni við frábærar ítalskar mjólkurvörur. Casciotta d’Urbino er úr kinda- og kúamjólk sem er handpressuð, söltuð og látin taka sig í röku umhverfi í 20-30 daga. Osturinn er kringlóttur og flauelsmjúkur og hefur sætan og hnetukenndan keim. Cacio er ostur í laginu eins og sítróna og er sauðamjólkurostur sem mótaður í kúlur sem líkjast sítrónum. Þeim er svo nuddað upp úr salti og sítrónuberki. Hressandi og ómótstæðilegt bragð. Nokkra frábæra pecorino geitaosta má líka finna í héraðinu sem nokkrir eru með hægfæðis-stimpil.



Pasta í Marche

er oft meira baserað á eggjum en annars staðar og eru öll formin frekar grófgerð, þykk og breið.



Einkennisréttur svæðisins vincisgrassi, pastaréttur sem svipar til lasagna, með flötum pastablöðum og bragðmiklu kjöti. Þetta sérkennilega nafn, vincigrassi, mætti þýða "fitan vinnur" en heitir líklega eftir austurískum hershöfðingja að nafni Windisch-Grätz sem hefur hljóðvarpast yfir í vincigrassi. Hann barðist fyrir habsborgara og mun hafa flæmt her Napóleons frá Ancona árið 1799 og af því tilefni fengið pastarétt nefndan eftir sér.


Annað pasta sem algengt er t.d. spaghetti alla chitarra, eða gítarpasta, því það minnir á gítarstrengi. Ferskt pasta er oftast sem tagliatelle, pappardelle, fettuccine og gnocchi en það er efni í doktorsritgerð að ná utan um öll pastaheitin á landsvísu og hvað einkennir hvert svæði.


Vínræktin í Marche

hefur verið mun minna áberandi en t.d. vínrækt í Toskana, Veneto og Lombardia. Vínin frá Marche eru þó að vekja meiri athygli, fá viðurkenningar og vinna verðlaun. Vínræktandi ársins 2024 Umani Ronchi er einmitt frá Marche. Þau voru heiðruð með Gambero Rosso, eða rauðu rækjunni sem er um mjög virt verðlaun á Ítalíu. HÉR er dásamlegt myndband frá vínekrunum þeirra.



Hvítar þrúgur

Verdicchio er þekktasta hvíta þrúgan í Marche og er um 13% af heildar ræktun á þrúgum í Marche. Nafn þrúgunnar er tengt orðinu verde = grænn með skírskotun í græna litinn á þrúgunni sem einnig skilar sér oft sem fölur blær í víninu sjálfu. Verdicchio hefur aðlaðandi sítrónu og blómailm en er einnig með léttan keim af steinefnum og oft má finna ögn af hnetukeim í víninu. Verdicchio er hátt í sýru og hefur góðan "structure" og á það til að vera nokkuð hátt í áfengisprósentu. Verdicchio þroskast einkar vel og hefur góða aðlögunarhæfni við eik.


Aðal vínræktarsvæðið fyrir Verdicchio er Castelli di Jesi sem er miðsvæðis í Marche og nær upp í Appennínafjallgarðinn.


Rauðar þrúgur

Það eru einkum tvær tegundir sem eru hvað útbreiddastar í Marche með samanlagt 40% af heildinni. Þetta eru Sangiovese og Montepulciano. Sangiovese er hvað þekktust í Toskana og Montepulciano er uppruninn í nágranna fylkinu Abruzzo. Þessum þrúgum er oft blandað saman í víngerðinni og svo líka sem stakar þrúgur.


Sangiovese er ræktuð meira í norðurhluta Marche en Montepulciano er sterkara í suðurhlutanum. Vín úr þessum þrúgum eru gjarnan höfug (full body) dökkrauður litur og há í áfengisprósentu og þroskað tannín, ávaxtarík og dökk kirsuber eru áberandi í prófílnum. Mörg af þekktustu vínum Marche eru framleidd úr þessum þrúgum.









Óþarft að segja það en Marche er enn eitt best geymda matreiðsluleyndarmál Ítalíu. Ár hvert er haldin mikil matarhátið í Fermo sem kallast Tipicità þar sem alls konar matargerð er gert hátt undir höfði.




Var í viðtali í Mannlega þættinum þar sem Marche var til umræðu.






Recent Posts

See All

1 Comment

Rated 0 out of 5 stars.
No ratings yet

Add a rating
Guest
Mar 07, 2024
Rated 5 out of 5 stars.

🇮🇹

Like
Uppruninn
  • Facebook
  • Instagram

Flandrr ferðamiðstöð varð til sem umgjörð og samnefnari fyrir ferðablæti Ágústu Sigrúnar.

 

Í hinu alræmda kófi magnaðist ferðaþráin mjög mikið og Ágústa ákvað að bjóða landsmönnum í sýndarferðalög í gegnum Zoom. Heimsferðir stukku strax á þessa hugmynd og þegar upp var staðið höfðu orðið til 10 sýndarferðalög og yfir 10.000 manns höfðu tekið þátt.

Í framhaldinu fannst henni eðlilegt að útfæra allan þann fróðleik sem hún hafði bætt við sig með einhverjum hætti og pistlaskrifin hófust. Í kjölfarið urðu til hugmyndir að ferðum sem mótast af hennar áhugasviði sem eru hreyfing, menning, tónlist og léttleiki.  

 

Heimsferðir eru söluaðili ferðanna og sjá um bókanir, innheimtu, skilmála og tryggingar skv. ferðakskrifstofuleyfi nr. 2022-028 gefnu út af Ferðamálastofu.​

Flandrr ferðamiðstöð

© 2023 Flandrr. Website by CC Website Design.

bottom of page