top of page
Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Tveir gimsteinar í Marche

Updated: Sep 27

Þetta forna spakmæli er ágætis innleiðing inn í pistilinn um þessi tvö dásamlegu þorp sem horfa yfir hafið og leka niður á strandirnar fyrir neðan.
“Se vai a Lureto e nun vai a Scirolo vedi la Madre ma nun vedi el Fiolo.”

Ef þú ferð til Loreto en sleppir Sirolo, hittir þú Móðurina en ekki börnin.


Hið leynda finnst mér meira spennandi en hið ljósa og það á líka við um ferðalög og áfangastaði. Í Marche er einmitt að finna óþekkta en heillandi fjársjóði sem sumir hverjir eru vel faldir.


Svæðið hefur ekki enn orðið fyrir áhrifum af stærstu ferðaþjónustuaðilunum sem moka ferðamönnum inn á tiltekin svæði.


Marche er staðsett á milli Apennína fjallgarðsins og Adríahafsstrandarinnar og er eina ítalska svæðið sem er í fleirtölu. Kannski vegna þess að það dugar ekkert minna en fleirtala til að ná utan um Marche! nafnið er að öllum líkindum dregið af nafninu marca (í eintölu) sem best er að þýða sem landamæri eða mörk. Við þekkjum orðið markgreifi sem gjarnan ríkja yfir ákveðnu svæði innan ákveðinna marka. Ekki gleyma svo að bera Marche fram með K-i.


Sirolo og Numana

Bæirnir Numana og Sirolo eru oft kallaðir gimsteinarnir við Adríahafið. Segja má að þeir séu hið fullkomna sýnishorn af Ítalíu. Landslag þar sem hlíðarnar mæta stóra Monte Conero höfðanum og fegurðin er sýnileg í öllum smáatriðum landslagsins.


Sirolo og Numana eru innan náttúruverndarsvæðis Conero sem var stofnað árið 1987 og þekur um 6.000 hektara.


Liturinn á hafinu á þessu slóðum er smaragðsgrænn. Eins og oft, er besta að virða fyrir sér þessa dásemd frá sjó. Strandlengjan sem tilheyrir Conero er um 20 km og það eru 16 mismunandi bæir sem standa á og við strandlengjuna.




Sirolo er fornt miðaldaþorp byggt í kringum víggirtan kastala en Numana er upprunalega fiskimannaþorp sem er vel sniðið inn í alla skorninga og upp á klettinn fyrir ofan. Í dag eru ekki skýr skil á milli þorpanna.

Sirolo

Það sem fær mann til að leggja á brattann upp í Sirolo er einmitt útsýnið. Sirolo stendur hæst í 126 m hæð og þaðan er gott útsýni yfir á klettahöfðann Conero sem nær upp í 570 m hæð. Lögun bæjarins efst á klettinum er eins og hestaskeifa sem kemur til af því að fremsti hluti borgarmúranna hrundi í sjó fram í jarðskjálfta um árið 1280 og með honum nokkur hús. Þetta var svona á svipuðum tíma og síðasta goshrina stóð yfir á Reykjanesi.


Takturinn í Sirolo byggist á hæglætisferðamennsku, sjálfsprottinni og sterkri tengingu við náttúru og staðbundinni sögu. Í Sirolo elskar fólk að taka sér tíma, lifa og njóta. Hér er sólríkt en vindasamt í senn og það er dásamlegt að sitja á aðaltorginu og dreypa á góðum drykk eftir uppgönguna.




Sirolo er einnig þekkt fyrir litla Cortesi leikhúsið sitt sem er nítjándu aldar perla byggt úr ljósum conero steini. Bæjarbúum var boðið að velja á milli þess að lagður yrði vegur til að auðvelda aðgengi að ströndunum fyrir neðan eða að leikhkús yrði byggt. Bæjarbúar völdu hið síðarnefnda og árið 1875 var leikhúsið opnað, vel smurt inn í gömlu borgarmúrana. Leikhúsið hýsir 220 manns í sæti. Svo er feykivinsælt að fara í Teatro alle Cave útileikhúsið á sumrin sem býður upp á 1.500 sæti undir stjörnunum. Eins og nafnið gefur til kynna er leikhúsið staðsett í gömlum grjótnámum sem nú hafa verið friðaðar og umbreytt í fallegt leikhús sem vinsælt er til óperuflutnings, vegna einstaks hljómburðar.



Numana

Þó svo að þessir bæir séu nánast samvaxnir nú orðið er Numana allt öðru vísi bær. Héðan var sjórinn sóttur og er enn þann dag í dag. Fiskveiðar með herpinót voru stundaðar hér og einn af óskasonum bæjarins, Altì, eins og vinir hans kölluðu hann, var hin klassíska sjóhetja, ósvikinn frjáls andi sem fór til veiða á öllum árstímum. Góð höfnin í Numana færir líka ferðamenn upp og niður eftir strandlengjunni.


Það má segja að Numana sé tvískiptur bær, hafi tvær sálir: hinn sjónræna efri hluta „Numana Alta“ og líflegan neðri hlutann „Numana Bassa“ sem liggur niður að höfninni og meðfram þessari stórkostlegu strandlengju.


Það sem tengir þá er brött gata, kölluð Costarella þar sem fiskimennir bjuggu venjulega og sátu og stöguðu netin sín á milli túra. Að ganga costarella þýðir að sökkva sér inn í fjarlæga fortíð þegar grjótnám var ein helsta starfsemi svæðisins, en síðustu námunum var lokað um miðjan sjöunda áratuginn. Conero steinninn er og verður einkenni bygginganna á þessu svæði.


Sögulegi miðbær Numana er net af þröngum götum og dæmigerðum sjómannshúsum með útsýni yfir hafið. Staðsetningin er einstök, einskonar verönd eða svalir með útsýni yfir strandlengjuna. Vinsælt er að fara upp á torgið þar sem stendur stæðilegur bogi, það sem eftir er af varðturni eða klukkuturni sem þar var.




Ráðhúsið á torginu hefur þjónað ýmsum tilgangi, verið sumardvalarstaður biskupsins af Ancona en einnig var hér rekin harmonikuverksmiðja í tugi ára, Frontalini. Saga harmonikunnar tengist bænum mjög sterkt sem og nærliggjandi bæja, því á blómatíma nikkunnar voru á milli 40-50 verksmiðjur í Marche á þessum slóðum.


Á neðri hæðinn er mjög áhugavert safn um sögu Písena sem var þjóðflokkur sem byggði Ítalíuskagann á undan rómverjum. Á safninum er hægt að rekja sögu þessa þjóðflokks og m.a. virða fyrir útfararskart drottningar þeirra og vagn sem hún var grafin í. Þessi gröf ásamt fleirum fannst nýlega í nágrenninu.


Svo eru það strandirnar sem tilheyra þessum bæjum og teygja úr sér svo langt sem augað eygir. Flestar skarta þær bláa strandfánanum og það getur verið töluverð vinna að komast á sumar þeirra. Þræða þar stíga niður höfðann á meðan aðrar eru bara í seilingarfjarlægt. Sumar þeirra eru einungis aðgengilegar frá sjó.


Er ekki einu sinni byrjuð að minnast á vínið sem hér er ræktað þar sem líklega þekktast er Rosso di Conero. Hreyfiferðamennskan á þessum slóðum er líka fjölbreytt og af mörgu að taka.



Recent Posts

See All
Uppruninn
  • Facebook
  • Instagram

Flandrr ferðamiðstöð varð til sem umgjörð og samnefnari fyrir ferðablæti Ágústu Sigrúnar.

 

Í hinu alræmda kófi magnaðist ferðaþráin mjög mikið og Ágústa ákvað að bjóða landsmönnum í sýndarferðalög í gegnum Zoom. Heimsferðir stukku strax á þessa hugmynd og þegar upp var staðið höfðu orðið til 10 sýndarferðalög og yfir 10.000 manns höfðu tekið þátt.

Í framhaldinu fannst henni eðlilegt að útfæra allan þann fróðleik sem hún hafði bætt við sig með einhverjum hætti og pistlaskrifin hófust. Í kjölfarið urðu til hugmyndir að ferðum sem mótast af hennar áhugasviði sem eru hreyfing, menning, tónlist og léttleiki.  

 

Heimsferðir eru söluaðili ferðanna og sjá um bókanir, innheimtu, skilmála og tryggingar skv. ferðakskrifstofuleyfi nr. 2022-028 gefnu út af Ferðamálastofu.​

Flandrr ferðamiðstöð

© 2023 Flandrr. Website by CC Website Design.

bottom of page