Jólin á Ítalíu þýða Panettone og Pandoro en páskarnir þýða brauð sem mótað er eins og dúfa - Colomba pasquale.
Innihaldsefnin eru fá og einföld - hveiti, egg, sykur, smjör og "karamelluseraður" appelsínubörkur. Svo þarf súrdeigsgerið að vera vel ættað og undirbúningurinn er langur og flókinn. Fyrir baksturinn er deigið húðað með möndlubráð og perlusykri og heilum möndlum.
Annars er Panettone og Colomba nánast sama brauðið, nema hvað það eru rúsínur og blandaðir sykraðir ávextir í Panettone en Colomba inniheldur einungis sykraðan appelsínubörk. Svo er möndluhjúpurinn algengari á Colomba.
Sagnirnar um uppruna páskadúfunnar eru margar og spanna ein 1300 ár.
Ein sögnin nær aftur til ársins 610 til Pavia sem þá var höfuðborg Langbarða. Teodolinda drottning á að hafði hýst hóp írskra pílagríma, undir forystu San Colombano og boðið þeim upp á dýrindis veislu með sínu besta kjöti. Hún áttaði sig ekki á að það var föstutímabil en til þess að móðga ekki drottninguna bað Colombano um að fá að blessa matinn og kjötið breyttist fyrir kraftaverk í brauð sem leit út eins og dúfur!!!
Þetta hafði víst svo mikil áhrif á drottninguna að hún gaf Colombano landsvæði nálæt Bobbio þar sem reyst var klaustur með hans nafni og stendur enn. Dúfan er síðan þá táknmynd dýrlingsins og situr gjarnan á öxl hans.
Önnur sögn er rakin aftur til orrustunnar við Legnano (1176). Sagt er að leiðtogi Langbarða hafi séð tvær alveg grunlausa dúfur sitja vígvellinum r og héldu sig þar jafnvel þegar stríðandi fylkingar nálguðust, Hershöfðinginn túlkaði þetta sem friðarspá. Til að hvetja menn sína til dáða skipaði hann kokkunum að útbúa dúfulaga brauð úr eggjum, hveiti og geri. Kannski er þetta réttari söguskýring, veit ekki.
Líklegasta ástæðan er meira viðskiptalegs eðlis og alls ekki söguleg, nema að litlu leiti. Á þriðja áratug síðustu aldar var panettone framleiðandinn Angelo Motta í Milano einn af þeim stærstu. Panettone brauðið var mjög vinsælt en mesta eftirspurnina var auðvitað um jólin. Þá fékk lista- og auglýsingagúrúinn, Dino Villani þá snilldarhugmynd að nýta sér vélarnar á þessum árstíma til að búa til nýja páskaköku með mjög svipaðri uppskrift.
Gott markaðstrikk, ekki ósvipað snilldarhugmyndinni sem veitingahúsið Naustið fékk til að draga þorramat fram í dagsljósið og fylla veitingastaðinn.
Svona fæddist nútíma páskadúfan.
Colomba er oft borin fram með ferskum berjum, bráðnu súkkulaði, og allskonar sykruðu kökuskrauti eða með þeyttum rjóma. Ítalir fá sér colomba brauð með kaffi í morgunmat og líka til að sykra upp síðdegis kaffið. Svo er líka algengt að fá sér sætt freyðivín, t.d. Moscato d'Asti. Þeir allra huguðustu fá sér svo mascarpone eða heslihnetusmjör á sneiðarnar.
Verði ykkur að góu.
Comments