top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Kastaníur - brauð fátæka mannsins

Sagnir frá Ítalíu frá 1802 segja að kastaníuhnetur hafi verið helsta fæða á ákveðnum stöðum og í ítölskum annálum frá 1879 segir að þjóðin hafi lifað á kastaníuhnetum í sex mánuði vegna uppskerubrests á korni.

Vinsældir kastaníuhneta drógust verulega saman á nítjándu og tuttugustu öld þar sem þær höfðu orð á sér að vera fátækrafæða og var sagt að kastaníuhnetubrauð hefaði sig illa.

Sett var í gang sérstakt átak árið 2015 til að varðveita sögu, menningu og landslag sem tengist kastaníutrjám og afurðum þeirra í Serchio dalnum. Geirinn hefur upplifað erfiðleika og er ekkert lát á því. Segja má að ræktun hafi nánast lagst af bæði vegna loftslagsbreytinga og lífsstílssbreytinga.


Auk þess hafa sveppasýkingar haft áhrif á trjáheilsuna og fyrir nokkrum árum gerðu skordýr sem leggjast sérstaklega á kastaníutré mikinn skaða. Því var mætt með því að kynna til sögunnar önnur skordýr sem þrífast á skaðvaldinum, í stað þess að eitra eða álíka.


Þessu átaki er ætlað að efla kastaníuræktun og afurðir en einnig að endurvekja menninguna og kynna út frá fræðslu- og listrænum sjónarmiðum. Möguleiki er að ættleiða kastaníutré fyrir litlar 75€ á ári.


Algengasta trjátegundin í ræktun er castanea sativa. Ræktun kastanía hefur viðhaldist í Mugello-dal sem er rétt norður af Flórens á meðan átakinu er ætlað að blása lílfi í ræktun og afurðaframleiðslu í Serchio dalnum. Mugello hefur notið verndar Evrópusambandsins frá 1996. Sagt er að Mugello-kastaníuhnetur flysjist auðveldlega, þær séu sætar á bragðið, með vanillukeim og lausar við fnyk af myglu og mold.


Kastaníusögusafnið í Colognora er skemmtilega staðsett safn og þar verður öllum gestum ljóst hversu mikilvægt lífsviðurværi hnetan sú arna var á sínum tíma.


Inn til fjalla í Toskana, í Lima dalnum og Serchio dalnum er hægt að fara í gönguleiðir kastaníuhnetunnar upp um fjöll og firnindi og skoða þessi gefandi tré í þeirra náttúrulega umhverfi og smakka afurðirnar. Einnig hafa verið auðkenndir vegir sem tengja saman söguna og leiða bílandi fólk um söguslóðir.


Tré og aldin

Kastaníur koma oftast af trjám, einmitt, en geta líka vaxið á lágvöxnum runnum. Kastaníutrén geta náð ríflega 60 metra hæð og eru einstofna tré með trefjarót, stóra krónu og mikinn karakter. Börkurinn er sléttur á ungum trjám en verður hrjúfari viðkomu eftir því sem trén eldast, eins og við mannfólkið.



Aldinið, sem er brúnt að utan en hvítt innan, kallast hneta og er 5-11 cm í þvermáli og er umlukið þyrnóttri kápu sem lítur út eins og ígulker. Í hverju aldini eru oftast 1-3 hnetur ef um marroni hnetur er að ræða sem eru algengastar í Toskana. Sumar tegundir geta innihaldið allt að 7 hnetum.


Kastaníutré verða háöldruð og geta lifað af ótrúlegustu náttúruhamfarir. Hér er t.d. mynd af gönguhóp í Göngu- og dekurferð með Ágústu sem hefur komið sér fyrir innan í og fyrir framan kastaníuhnetutré sem er holt að innan en lifir enn góðu lífi. Minnir á söguna Eldfærin úr Grimms ævintýrum.



Breiðasti trjábolur sem mælst hefur er á kastaníutré við rót eldfjallsins Etnu á Sikiley, sem kallað er Hundrað hesta tréð. Ummál bolsins er 51 metri, þrátt fyrir að hann hafi orðið fyrir miklum skemmdum í gegnum tíðina af völdum eldinga og annarra náttúruhamfara.


Afurðir

Kastaníur er reyndar brúkaðar í allan fjandann. Þær eru einstaklega mjölmiklar og fitusnauðar og ekki skemmir fyrir að þær eru glútenlausar. Þær eru einnig notaðar heilar í marga rétti og koma þá gjarnan í staðinn fyrir kartöflur.


Neysluhefðir eru ólíkar eftir löndum en á Ítalíu er algengt að marinera kastaníuhnetur í rauðvíni og léttrista áður en þær eru bornar fram.


Þurrkað og malað kastaníuhnetumjöl má nota í bakstur og til að búa til pasta og sem sósu- og súpujafnara. Brauð og kökur úr kastaníuhnetuhveiti hafa gott geymsluþol.


Að búa til kastaníuhnetumjöl eða hveiti tekur langan tíma. Fyrst eru hneturnar þurrkaðar og það tekur 45 daga. Þurrkunin fer fram með því að viðhalda glóðum eða lágbrennandi eldi sem gefur frá sér mikinn reyk. Hér á öldum áður fór ferlið fram í þar til gerðum kofum, þar sem eldurinn brann á jörðinni og nærðist á kastaníuvið sem féll til í kastaníutrjálundunum eftir snyrtingu á trjánum.




Þessi þurrkhús voru í öllum sveitum þar sem kastaníur voru nýttar en nútímaþurrkunaraðferðir hafa gert þau óþörf og þau eru víðast hvar hrunin eða í slæmu ástandi. Einhverjir hafa notað hugamyndaflugið við endurnýtingu húsanna, hafa gert þú upp og nota jafnvel sem gestahús.


En kastaníuhnetur eru notaðar í allskonar


Flestir þekkja ristuðu kastaníurnar um jólaleitið á jólamörkuðum í Evrópu. Þær eru algjört lostæti.


Karamelíseraðar kastaníuhnetur eða Marron glacé upp á franskan máta er annað gott gott dæmi.


Hunang. súkkulaði og ostur búið til úr kastaníuhnetum.


Ekki má gleymi spænsku kastanettunum sem eru úr kastaníuvið.


Vín- og viskítunnur er gjarnan smíðaðar úr kastaníuvið og auðvitað mikið af húsgögnum og nytjamunum.




Eru allar kastaníuhnetur ætar?

Nei - og sumar eru einfaldlega hryllilega vondar. Hrossakastaníursem algengar eru í Norður-Evrópu eru alls ekkert lostæti og maður getur fengið verulega í magann á því að borða þær.


Siðir og hjátrú

Á Ítalíu var til siðs langt fram á nítjándu öld að borða kastaníuhnetur á allra heilagra messu, fyrstu tvo dagana í nóvember, og að skilja eftir nokkrar hnetur handa hinum framliðnu yfir nóttina.


Eitt af því fyrsta sem ég lærði þegar ég fór að umgangast Ítalíu var sú trú að fyrsta kastanían sem verður á vegi þínum að hausti áttu að setja í vasann og geyma hana þar allan veturinn. Hún heldur frá veikindum og kannski veirum sem okkur er ekkert vel við.

 

Göngu- og dekurferð til Bagni di Lucca í Toskana 17. - 24. september 2024

Við förum og skoðum aldargömul kastaníutré og brögðum á afurðum úr kastaníuhnetuhveiti í þessari ferð í bland við hefðbundnari rétti.


HÉR eru frekari upplýsingar um ferðina

Recent Posts

See All

コメント

5つ星のうち0と評価されています。
まだ評価がありません

評価を追加
bottom of page