Árið 235 hófust miklir róstutímar í Rómarveldi. Hver valdaræninginn úr röðum hersins af öðrum reis upp gegn keisara sínum en flestir stoppuð stutt við í hásætinu áður en þeim var svo sjálfum steypt af stóli eða þeir drepnir. Næstu 49 árin voru 26 keisarar skráðir í Rómarveldi en meðal þeirra mætti nefna marga aðra uppreisnarmenn og keisaraefni sem ekki náðu alveg alla leið.
Árið 284 rændi enn einn herforinginn völdum. Hann hét Díokletíanus, maður af lágum stigum, líklega fæddur í Salona (núverandi Solin í Króatíu). Hann var upphaflega nefndur Diocles og voru foreldrar hans af lágri stétt, faðir hans var annað hvort skrifari eða frelsaður þræll.
Gaius Aurelius Valerius Diocletianus (22. desember 244? – 3. desember 312?).
Til að stemma stigu við fleiri vandamálum reyndi hann að koma á ýmsum endurbótum í ríkinu, m.a. endurbætti hann skattheimtu og lét slá verðmeiri mynt. Einnig gaf hann út tilskipun um hámarksverð á vörum, sem var ætlað að slá á verðbólgu í ríkinu. Þessi tilskipun hafði ekki tilætluð áhrif og var fljótlega virt að vettugi.
Hann lét þjarma illilega að kristnum mönnum og krefjast þess að þeir færðu hinum hefðbundnu rómversku guðum fórnir.
Dæmigerð arftakastjórnun
Til að rjúfa vítahring hinna stöðugu valdarána og borgarastyrjalda greip Díokletíanus auk þess til róttækra stjórnkerfisbreytinga sem álitið er að hafi endað hina svokölluðu 3. aldar kreppu. Hann taldi að ríkið væri orðið of fjölmennt og svifaseint til að einn maður gæti ráðið öllu.
Árið 293 breyttu þeir Díókletíanus og Maximianus stjórnskipulagi Rómarveldis og mynduðu hina svokölluðu fjórveldisstjórn. Þeir tveir voru aðalkeisarar og fóru með helstu völd, annar í austri en hinn í vestri. Þeim til aðstoðar skipuðu þeir hvor um sig einn undirkeisara (Sesar) og voru keisarar Rómaveldis þar með orðnir fjórir.
Tilgangurinn með þessum breytingum var að tryggja að þegar keisari (Ágústus) létist eða léti af völdum, tæki undirkeisarinn við á friðsamlegan hátt.
Díókletíanus útnefndi Galerius, tengdason sinn, sem undirkeisara en Maximianus útnefndi Konstantíus Klórus.
Konstantínus Klórus átti soninn Konstantínus sem fæddist líklega árið 272 í bæ sem nú heitir Niš í sunnanverðri Serbíu. Móðir hans kann að hafa verið frá Litlu-Asíu sem nú heitir Tyrkland.
Umræddur sonur tók einmitt við af föður sínum eftir hans dag en er frægastur fyrir að hafa lögleitt kristni inn í rómverska keisaradæmið árið 313 og fyrir að halda kirkjuþingið í Nikeu árið 325. Hann er oft kallaður Konstantínus mikli.
Höfuðborgir fjórveldisstjórnarinnar
Díókletíanus gerði Níkómedíu (núverandi Izmit í Tyrklandi) að sinni höfuðborg en hinar höfuðborgirnar voru Sirmium (Sremska Mitrovica í Serbíu), Medíólanum (Mílanó) og Ágústa Treverorum (Tríer).
Við þessar breytingar dró úr vægi Rómaborgar, en hún hélt þó öldungaráðinu. Ennfremur hafði hver keisaranna stjórn yfir sínum hluta hersins, sem var stækkaður umtalsvert.
Ofsóknir gegn kristnum mönnum
Þekktar eru sögur um ofsóknir Rómverja gegn frumkirkjunni og kristnum mönnum. Ótal frásagnir eru til um dýrðlega píslarvotta sem voru gjarnan brenndir á báli, krossfestir eða jafnvel húðflettir lifandi af hinu grimmheiðna rómverska ríki frekar en að afneita Kristi sínum. Á síðari tímum hefur niðurstaða sagnfræðinga orðið sú að sögurnar um þessar ofsóknir séu stórkostlega ýktar. Rómverska ríkið sjálft hafi nánast aldrei haft forystu um víðtækar ofsóknir. Stundum hafi blossað upp hálfgerð uppþot í einstökum héruðum þar sem einhverjir kristnir menn hafi fallið í valinn, en einnig eru þess dæmi að slíkur trúareldmóður hafi stundum gripið kristna söfnuði að menn hafi nánast krafist þess að vera teknir af lífi fyrir trú sína.
Díokletíanus hóf hins vegar raunverulegar ofsóknir.
Ástæðan var sennilega ekki andstaða hans við kristna kenningu í sjálfu sér, heldur var fremur um að ræða markvissa tilraun til að auka sameiningarþrótt ríkisins með því að hefja „gömul gildi“ til vegs og virðingar á ný.
Þegar kristnir menn vildu ekki taka þátt í því með því að færa gömlu guðunum fórnir, þá lét Díokletíanus banna kristindóminn innan ríkisins, fangelsa og drepa presta og alls er talið um að 20.000 kristnir menn hafi látið lífið á 30 ára stjórnartíma Díókletíanusar.
Athyglisvert er hins vegar að eftir að Díokletíanus skipti upp stjórn ríkisins, eins og fyrr var nefnt, var ofsóknunum aðeins viðhaldið á þeim svæðum í austri sem Díokletíanus sjálfur og undirkeisari hans réðu. Í vestri voru kristnir menn alveg látnir í friði.
Heilsubrestur
Á árunum 304 og 305 versnaði heilsa Díókletíanusar og leiddi það til þess að þann 1. maí 305 lét hann af embætti sem keisari. Nánast um leið lauk ofsóknum gegn kristnum mönnum og lög hans gegn þeim voru lögð á hilluna nær alls staðar í ríkinu. Kristindómurinn fór því fljótt aftur að eflast.
Sama dag lét Maximianus einnig af embætti og hann lést svo ári seinna. Arftakarnir tóku við völdum og skipuðu sína eigin undirkeisara.
SPLIT
Díókletíanus settist í helgan stein í borginni Split á Adríahafsströnd Króatíu og lifði það sem eftir var ævi sinnar í höll sinni sem hann lét byggja fyrir sig. Hann skipti sér lítið af stjórn ríkisins eftir að hafa sagt af sér og er líklega einn af mjög fáum Rómarkeisurum sem sagði af sér í stað þess að vera steypt af stóli.
Elliheimilið sem hann lét reisa sér fyrir áhyggjulaust ævikvöld var engin smásmíð og gengur undir nafninu Díókletíanusar-höllin og er í hjarta núverandi Split. Höllin er feiknarlegt mannvirki, meira en 200m löng og nær 200m breið, samtals um 30.000 fermetrar að flatarmáli. Hún er búin öllum þeim glæsileik sem prýddi keisarahöll, með hofum og súlnagöngum, vatnsleiðslum og baðhöllum, leikhúsum og torgum.
Díókletíanus lést svo árið 312 að því er talið er en það er ekki vitað með vissu, árabilið 311-316 er oftast nefnt.
Þegar fréttist að Díókletíanus væri allur fagnaði lýðurinn. Kristið flóttafólk frá bænum Solin (Salona) sem var að flýja árásir herskárra þjóðflokka hafði sest að í námunda við höllina. Borgin þeirra með 60.000 íbúa var lögð rúst. Í Solin bjuggu um 60.000 og var hún aðalborgin á þessu svæði. Split var á þessum tíma lítið annað en keisarahöllin. Sagt er að síðar hafi fólk notað steina frá fyrrum Solin sem byggingarefni innan Díókletíanusar hallarinnar.
Eftir fráfall Díókletíanusar og fall Rómarveldis fylltist höllin af fólk og til varð einskonar þorp innan hallarveggjanna. Þar sem áður voru stór torg voru byggðar húsaraðir og stræti og nú þarf snjalla fornleifafræðinga til að greiða sundur þessa tetris kubba sem blasa við.
Díókletíanus létt byggja sér grafhýsi en skömmu eftir dauða hans var grafhúsið gert að Dómkirkju.
Grátbroslegt, sannkallað karma.
Díkletíanusarhöllin fyrr og nú
Comments