top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Zagorka í Zagreb

Marija Jurić (2. mars 1873 – 30. nóvember 1957) var rithöfundur, kvenréttindabaráttukona, mikill þjóðernissinni og einn mest lesni króatíski rithöfundurinn. Hún varð fyrst kvenna blaðamaður í Króatíu og skáldsögur skrifaðu hún undir rithöfundarnafninu Zagorka.


Konan sú átti eftir að upplifa fordóma, klessast upp við glerþök en ryðja brautina fyrir aðrar konur. Hún vann sleitulaust að því að skapa sér nafn í afar karllægum samtíma. Hún kom eilíft að lokuðum dyrum og var sniðgengin þar sem karlarnir við stjórnvölinn töldu að konur ættu aðeins að skrifa rómantískar skáldsögur. Hennar framlag var lítilsvirt og hún uppnefnd. Skáldsögurnar sínar skrifaði hún framan af undir nafninu Zagorka, sem síðar festist við hana.


Árið 2005 gerði stærsta dagblaðið í Zagreb skoðanakönnun um vinsælustu króatísku rithöfunda allra tíma og þar lenti Zagorka í 2. sæti. Árlega eru veitt verðlaun sem kennd eru við hana fyrir framúrskarandi frammistöðu í blaðamennsku.



Vinsælasta verk hennar er sjö binda söguflokkur sem er blanda af ævintýri, rómantík og sögulegri skáldsögu og heitir Nornin af Grič (Grička vještica). Til að kynnast rithöfundinum sjálfum sem átti erfiða ævi er sjálfsævisagan, Steinninn á götunni eða (Kamen na cesti) frá 1934, mikilvæg lesning.

Engin verk hennar hafa verið þýdd á íslensku enn sem komið er og ekki á ensku heldur. Tvær af bókum hennar hafa verið þýddar á þýsku.


Bernskan

Hún var fædd inn í yfirstétt en ekki var algengt að konur á þeim tíma fengju tækifæri til að mennta sig. Marija fékk reyndar góða menntun framan af, fékk einkakennslu og var svo hæst í öllum greinum í barnaskóla í bænum Varaždin þar sem hún gekk í skóla.


Mamma hennar virðist hafa verið mikið hex, illgjörn jafnvel, allavega kom hún í veg fyrir að hún færi í nám á námsstyrk til Sviss eins og faðir hennar vildi. Þess í stað lauk hún menntun sinn í Zagreb.


Mamma hennar krafðist þess að hún gengi í hjónaband 17 ára gömul með slóvak/ungverskum manni sem var 17 árum eldri en hún. Hún flutti til Ungverjalands með manni sínum sem starfaði við járnbrautirnar. Brátt kom í ljós að hann beitti hana miklu ofbeldi. Eftir fjögurra ára hörmung í hjónabandinu flúði hún en eiginmaðurinn eltir hana uppi og lætur leggja hana inn á geðveikrahæli. Þar komust læknar að því að ekkert amaði að henni. Henni tókst að fá skilnað með hjálp föður síns en henni var kennt um skilnaðinn eftir að mamma hennar ber vitni gegn henni. Maðurinn hennar fyrrverandi þurfti því ekki að skila henni persónulegum eigum sínum eða borga með henni eins og tíðkaðist.



Ferillinn

Hún hóf feril sinn sem blaðamaður þegar hún var enn í námi og ritstýrði dagblaði sem heitir Samostanske novine en um ævina vann hún fyrir öll stærstu dagblöð Króatíu um lengri eða skemmri tíma og einnig fyrir tvö ungversk dagblöð.


Þegar hún hóf störf hjá króatíska dagblaðinu, Obzor, var hún ráðin sem prófarkalesari en ekki sem blaðamaður, þar sem ritstjórinn og stjórnin mótmæltu því að kona væri ráðin.


Árið 1917 hætti Marija þar og stofnar sitt eigið tímarit, Zabavnik og skrifar jafnhliða greinar fyrir önnur dagböð.


Femínistinn og baráttukonan

Hún gefur jafnframt út fyrsta krótíska kvennablaðið, Ženski list [Womans' Paper] (1925–38) þar sem hún skrifar greinar með þjóðernislegu og feminístísku inntaki.


Hún hættir að vinna fyrir Ženski list árið 1938, óánægð með nýja ritstjórnarstefnu sem var orðin mjög íhaldssöm og holl undir klerkastéttina, öndvert við það sem var yfirlýst stefna um frjálslyndi og femínisma. Hún stofnar sjálfstætt tímarit árið 1939, Hrvatica [Croatian Woman] þar sem hún skrifaði um baráttumál sín, gegn því sem í gangi var. Öll innkoma fyrir sölu á tímaritinu fór í prentkostnað og vinnuframlag hennar var í sjálfboðavinnu.


Árið 1941 í upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar var hún bannfærð ef svo má segja og allar eigur hennar gerðar upptækar, jafnvel húsgögin af heimili hennar. Þar voru Ustaše að verki, en það var ráðandi fylking sem fylgdi Hitler að málum og komst til valda við yfirlýsingu sjálfstæðs ríkis Króatíu þann 10. apríl 1941. Undir stöðugu áreiti af þeirra hálfu reyndi hún að fremja sjálfsmorð en tókst það ekki sem betur fer. Eftir það var hún háð stuðningi frá velunnurum sem komu henni gegnum þessa erfiðu tíma.


Efri ár

Zagorka bjó í eigin íbúð við Dolac, aðalmarkaðstorgið í Zagreb. Þar sem hún átti ekki rétt á lífeyri var hún háð stuðningi frá kunningjum og lesendum sem voru hliðhollir henni. Hún ákvað að birta auglýsingu þar sem hún óskaði eftir einhverjum til að færa sér mat. Tveir af umsækjendunum voru herramenn, Nikola Smolčić and Leo Car, sem kynntu sig sem frændur, en voru í raun par.


Heilsa hennar var ekk góð og þegar fór að halla meira undan fæti bað hún þá um að flytja inn til sín til að hugsa um sig. Síðar kom í ljós að þeir höfðu hugsað illa um gömlu konununa, sveltu hana, hundsuðu og misnotuðu sér aðstöðu sína. Þetta kom fram í bréfum sem hún hafði sent á laun til vina sinna.


Hún hafði mælt fyrir um það að eftir sinn dag yrði íbúðin hennar gerð að safni um verk hennar og annarra króatískar kvenna. Þegar hún deyr 1957, 84 ára að aldri, erfir umræddur Smolčić íbúðina, en deyr skömmu síðar. Þá tekur Car við íbúðinni og neitar að virða hennar óskir. Það er ekki fyrr en hann deyr árið 1986 að borgin kaupir íbúðina af ættingjum Car. Þá loksins varð Marija að ósk sinni.


Lífið og lífsbaráttan sem þessi kona háði eru lyginni líkast. Ég hvet ykkur til að til að kynna ykkur sögu hennar og koma í heimsókn heim til hennar við Dolac markaðinn í Zagreb.


Safnið sem áður var íbúðin hennar heitir Marija Jurić Zagorka Memorial Apartment Museum og er núna kvennafræðasetur rekið af samtökum kvenna sem kallast, The Centre for Women's Studies.


The Centre for Women's Studies is a Croatian organization founded in 1995 with the aim of providing education in the field of women’s studies, raising women’s awareness and encouraging research and publishing on women’s studies and feminist subject matters.

Heimilisfang: Dolac 8, 10000, Zagreb, Króatía

Heimasíða safnsins: https://zagorka.net/



Fengið að láni víðsvegar um veraldarvefinn

Recent Posts

See All

Comments

Rated 0 out of 5 stars.
No ratings yet

Add a rating
bottom of page