Saga Ítalíu er saga þess fólks sem byggt hefur Appennínaskagann sunnan Alpafjalla frá örófi alda.
Nútímaríkið Ítalía varð í raun fyrst til þegar flestöll ríkin á skaganum sameinuðust í eitt konungsríki árið 1861. Saga Ítalíu er því saga Appennínaskagans/Ítalíuskagans sem hefur verið byggt ýmsum þjóðum með ólíka menningu og tungumál, þótt saga þeirra sé að meira eða minna samtvinnuð. Lengst af skiptist þetta svæði milli nokkurra ríkja sem ýmist voru sjálfstæð eða undir yfirráðum stærri ríkja.
Þjóðflokkurinn Písenar settist að á afmörkuðu svæði þar sem Marche hérað er nú á dögum og norðurhluti Abruzzo. Marche er héraðið sem er aftan á kálfanum á stígvélinu.
Talið er að Písenar séu að uppruna Sabínar sem bjuggu í Lazio þar sem Róm er núna en flæmdust þaðan af einhverjum ástæðum.
Ég hef ákveðið að íslenska heitið fyrir piceni sé Písenar, í stað Píkenar... hef líka rekist á þýðingunu píkenumenn... einmitt... Písenar skal það vera.
Á myndinni sem táknar búsetu á skaganum á bronsöld eru þessi svæðin þar sem Písenar bjuggu merkt með gráum lit (Suður-Písenar) og hvítum lit (Norður- Písenar). Í nyrðri hlutanum voru íbúarnir reyndar fjölþjóða vegna þess að um 390 f.Kr. höfðu Gallar/Gaulverjar (senoni gauls) sest að á svæðinu og blandast þeim sem fyrir voru. Á tímum Rómverja var það svæði kallað Ager Gallicus (franska svæðið) en Marche í heild sinni bar nafnið Picenum á tímum Rómverja.
Í fornleifasafninu í Numana er hægt að rekja sögu Písena og virða fyrir sér þá muni sem fjarlægðir hafa verið úr gröfum sem fundist hafa í nágrenninu.
Fornleifauppgröftur hefur gefið mikla innsýn í sögu Písena á svæðinu. Grafreitirnir eru yfir 2000 talsins sem teygja sig á milli bæjanna Numana og Sirolo. Grafir sýna að Písenar lögðu lík í jörðu vafin í fatnað sem þeir höfðu klæðst í lifanda lífi. Stríðsmenn voru grafnir með hjálm, vopn og ílát fyrir mat og drykk. Perlur, bein, sylgjur og raf sem finnst í mörgum gröfum benda til að virk verslun hafi verið við Adríahafsströndina á níundu og kannski tíundu öld f. Kr. Í gröfum kvenna er oft að finna mikið af skrautmunum og skartgripum úr bronsi og járni.
Merkustu gripirnir sem fundist hafa eru úr gröf drottningar einnar af ættbálki Písena og auðæfi sem hún var grafin með, þar á meðal vagninn sem notaður var við útför hennar.
Safnið tengist fornleifasvæðinu þangað sem hægt er að fara og litast um. Upplýsingaskilti varða leiðina fyrir þá sem hafa áhuga á að virða fyrir sér þessa fornu grafreiti.
Safnið er á neðri hæðinni í ráðhúsinu í Numana. Það var opnað almenningi árið 1974 með það að markmiði að sýna gripi sem fundust við uppgröft sem fram fór frá lokum sjöunda áratugarins og byrjun þess áttunda. Á þessu tímabili voru meira en 500 píverskir grafreitir afhjúpaðir. Með þessari uppgötvun var staðfest að Numana væri mikilvægasta miðstöð Písena frá fornöld.
Lokun Þjóðminjasafnsins í Ancona í kjölfar jarðskjálftans árið 1972 leiddi til þess að nýtt safn í Numana var stofnað.
Gripi frá Numana og Sirolo er einnig að finna í nokkrum mikilvægum söfnum um heiminn, svo sem British Museum í London og Metropolitan í New York.
Antiquarium Museum – Numana Historical Center, Via La Fenice, 4.
Mér finnst ég ekki vita nándar nærri mikið um Písena og finn lítið af efnið um þá á veraldarvefnum. Það væri gaman að vita meira.
Comments