top of page

Landafundurinn Kirgistan

  • Writer: Ágústa Sigrún Ágústsdóttir
    Ágústa Sigrún Ágústsdóttir
  • Aug 6, 2024
  • 3 min read

Updated: Jul 24

Hvað eru mörg lönd í heiminum?


Skv. ýmsum heimildum á veraldarvefnum eru lönd heimsins í dag 195. Þetta munu vera 193 lönd sem eru aðildarríki Sameinuðu þjóðanna. Auk aðildarríkja eiga tvö lönd fasta áheyrnaraðild að allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna: Vatíkanið og Palestínuríki. Málið flækist svo ögn því það eru 13 önnur ríki þar sem fulllveldið er ýmist umdeilt eða óumdeilt. Á Wikipedia er þessi listi birtur og eins og sjá má, er staða sumra ríkja frekar flókin í alþjóðasamhengi.


Erum við þá kannski að tala um töluna 208?


Eitt þeirra er landið Kyrgyzstan eða...


...Kirgistan, eins og það heitir á íslensku.


Reyndar ritað á margan máta á íslensku (Kirgisistan, Kírgistan, Kirgísia) en Kirgistan eða Kyrgyzstan er það sem mælt er með í lista yfir ríkjaheiti á íslensku. Opinbera nafnið er reyndar Kirgiska lýðveldið. Sá sem kemur frá Kirgistan er Kirgisi og er kirgiskur og talar kirgisku.


Það eru hvorki fleiri né færr en 11 keppendur á Ólympíuleikunum núna frá Kirgistan, flestir í glímu, júdó, hnefaleikum og sundi.

ree

Kirgistan er landlukt ríki í Mið-Asíu með landamæri að Kína í austri, Kasakstan í norðri, Tadsíkistan í suðri og Úsbekistan í vestri. Kirgisar eru meirihluti íbúa landsins en þar búa líka stórir hópar Rússa og Úsbeka. Kirgisíska er tyrkískt mál og er opinbert mál landsins ásamt rússnesku. 90% íbúa Kirgistans eru múslimar og meirihlutinn aðhyllist súnní íslam. Menning Kirgistans ber merki um áhrif Rússa, Mongóla og Írana.


Íbúarnir eru um 6,5 milljón og býr um 1 milljón þeirra í höfuðborginn Bishkek sem jafnframt er stærsta borg landsins.


Kirgistan hefur verið hluti af ýmsum menningarsvæðum og stórveldum. Landið var hluti af Silkiveginum og öðrum verslunarleiðum um Mið-Asíu.


ree

Nokkrar sturlaðar staðreyndir um Kirgistan

  • Landið er lengra frá sjó en nokkurt annað land í heiminum.

  • Fjallahéraðið Tian Shan nær yfir 80% landsins og Kirgistan er stundum kallað „Sviss Asíu“.

  • Stöðuvatnið Ysyk-Köl er annað stærsta fjallavatn heims

  • Hæsti tindur Kirgistans, Jengish Chokusu, er í 7.439 metra hæð og það líka talið nyrsta fjall heims sem nær yfir 7.000 metra.

  • Í Kirgistan er að finna mikið af gulli og lantaníðum. Lantaníð eru hópur 15 sjaldgæfra jarðmálma, frá lantan til lútetín, með sætistölurnar 57 til 71.

  • Afar sjaldgæfa dýrategund, snæhlébarða, er að finna í Kirgistan.

  • Kirgisar eiga mynt sem er þriggja eininga, sem sagt ekki túkall, heldur þríkall.

  • Einungis 36% landsamanna búa í borgum og bæjum.

  • Ódysseifskviða á ekki roð í kviðu Kirgisa sem heitir Manas kviðan með 500.000 ljóðlínum sem gerir hana 20 sinnum lengri en Ódýsseifskviðu.

  • Það er m.a. Kirgisum að kenna að Kínamúrinn var reistur, því þeir herjuðu mjög á landamæruum og þóttu herskáir og kænir hermenn.

ree

Kurmanjan Datka

var goðsagnakenndur kvenleiðtogi frá Kirgistan sem var þekkt fyrir hugrekki sitt og leiðtogahæfileika.


Hún varð foringi Alai fjallafólksins í konungsríki sem var á því landsvæði sem Kirgistan, Úsbekistan og Tadsíkistan er núna.


Hún fékk viðurnefnið „Fjalladrottningin" (Queen of the Mountains) og var sögu hennar gerð góð skil í mynd frá 2014 með því nafni. HÉR er myndin í fullri lengd á YouTube með enskum texta.


Kurmanjan er enn þann dag í dag minnst fyrir hæfni sína í málamiðlun og fyrir að bjarga þjóð sinni frá algjörri eyðileggingu þegar Rússar réðust inn í landsvæði þeirra á þeim tíma.



Fáninn

ree

Orðið Kyrgyz er dregið af tyrkíska orðinu yfir „fjörutíu“ og vísar til ættbálkanna 40 sem sagnahetjan Manas sameinaði gegn Úígúrum. Kyrgyz merkir bókstaflega „við erum fjörutíu“. Á 9. öld réðu Úígúrar yfir stórum hluta þess sem í dag eru Mið-Asía, Mongólía, Rússland og Kína. Viðskeytið -stan kemur úr persnesku og merkir „staður“ eða „land“.


Sólin í fána Kirgistans er með fjörutíu geisla sem vísar til ættbálkanna fjörutíu, og hringurinn í miðjunni er lykilhringurinn, tunduk, efst á júrt, tjaldhýsi sem hirðingjar Mið-Asíu bjuggu í.


Nokkrar myndir



Sannkölluð ævintýraferð til Kirgistan stendur fyrir dyrum. Uppselt er í ferðina, en önnur ferð er fyrihuguð vorið 2026







Heimildir af veraldarvefnum m.a. héðan

Comments

Rated 0 out of 5 stars.
No ratings yet

Add a rating
Uppruninn
  • Facebook
  • Instagram

Flandrr ferðamiðstöð varð til sem umgjörð og samnefnari fyrir ferðablæti Ágústu Sigrúnar.

 

Í hinu alræmda kófi magnaðist ferðaþráin mjög mikið og Ágústa ákvað að bjóða landsmönnum í sýndarferðalög í gegnum Zoom. Heimsferðir stukku strax á þessa hugmynd og þegar upp var staðið höfðu orðið til 10 sýndarferðalög og yfir 10.000 manns höfðu tekið þátt.

Í framhaldinu fannst henni eðlilegt að útfæra allan þann fróðleik sem hún hafði bætt við sig með einhverjum hætti og pistlaskrifin hófust. Í kjölfarið urðu til hugmyndir að ferðum sem mótast af hennar áhugasviði sem eru hreyfing, menning, tónlist og léttleiki.  

 

Heimsferðir og/eða Fiðrildaferðir eru söluaðili ferðanna og sjá um bókanir, innheimtu, skilmála og tryggingar skv. ferðakskrifstofuleyfi  gefnu út af Ferðamálastofu.​

Flandrr ferðamiðstöð

© 2023 Flandrr. Website by CC Website Design.

bottom of page