top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Landafundir

Updated: Aug 21

Ólympíuleikarnir standa sem hæst. Fyrir mig er eiginlega jafn spennandi að sjá frá hvaða löndum keppendur koma. Þegar ég sé nýja fána eða „þriggja-stafa-auðkenni" er ég komin á netið að finna þessi lönd. HÉR er listi yfir þau lönd sem eiga keppendur á Ólympíuleikunum. Á heimasíðu leikanna segir að 203 ólympíunefndir eigi keppendur á leikunum.

Representing 203 National Olympic Committees (NOCs), approximately 10,500 athletes will compete across 32 sports in 329 events at the Games of the XXXIII Olympiad Paris 2024 from 26 July to 11 August.

Ég er eiginlega að há mína eigin leika í landafundum.


Hvað eru mörg lönd í heiminum?


Skv. ýmsum heimildum á veraldarvefnum eru lönd heimsins í dag 195. Þetta munu vera 193 lönd sem eru aðildarríki Sameinuðu þjóðanna. Auk aðildarríkja eiga tvö lönd fasta áheyrnaraðild að allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna: Vatíkanið og Palestínuríki. Málið flækist svo ögn því það eru 13 önnur ríki þar sem fulllveldið er ýmist umdeilt eða óumdeilt. Á Wikipedia er þessi listi birtur og eins og sjá má, er staða sumra ríkja frekar flókin í alþjóðasamhengi.


Erum við þá kannski að tala um töluna 208?


Allavega. Þá er ég búin að fletta upp mörgum spennandi löndum. Eitt þeirra er landið Kyrgyzstan eða...


...Kirgistan, eins og það heitir á íslensku.


Reyndar ritað á margan máta á íslensku (Kirgisistan, Kírgistan, Kirgísia) en Kirgistan eða Kyrgyzstan er það sem mælt er með í lista yfir ríkjaheiti á íslensku. Opinbera nafnið er reyndar Kirgiska lýðveldið. Sá sem kemur frá Kirgistan er Kirgisi og er kirgiskur og talar kirgisku.


Það eru hvorki fleiri né færr en 11 keppendur á Ólympíuleikunum núna frá Kirgistan, flestir í glímu, júdó, hnefaleikum og sundi.


Kirgistan er landlukt ríki í Mið-Asíu með landamæri að Kína í austri, Kasakstan í norðri, Tadsíkistan í suðri og Úsbekistan í vestri. Kirgisar eru meirihluti íbúa landsins en þar búa líka stórir hópar Rússa og Úsbeka. Kirgisíska er tyrkískt mál og er opinbert mál landsins ásamt rússnesku. 90% íbúa Kirgistans eru múslimar og meirihlutinn aðhyllist súnní íslam. Menning Kirgistans ber merki um áhrif Rússa, Mongóla og Írana.


Íbúarnir eru um 6,5 milljón og býr um 1 milljón þeirra í höfuðborginn Bishkek sem jafnframt er stærsta borg landsins.


Kirgistan hefur verið hluti af ýmsum menningarsvæðum og stórveldum. Landið var hluti af Silkiveginum og öðrum verslunarleiðum um Mið-Asíu.



Nokkrar sturlaðar staðreyndir um Kirgistan

  • Landið er lengra frá sjó en nokkurt annað land í heiminum.

  • Fjallahéraðið Tian Shan nær yfir 80% landsins og Kirgistan er stundum kallað „Sviss Asíu“.

  • Stöðuvatnið Ysyk-Köl er annað stærsta fjallavatn heims

  • Hæsti tindur Kirgistans, Jengish Chokusu, er í 7.439 metra hæð og það líka talið nyrsta fjall heims sem nær yfir 7.000 metra.

  • Í Kirgistan er að finna mikið af gulli og lantaníðum. Lantaníð eru hópur 15 sjaldgæfra jarðmálma, frá lantan til lútetín, með sætistölurnar 57 til 71.

  • Afar sjaldgæf dýrategund, snæhlébarðar, er að finna í Kirgistan.

  • Kirgisar eiga mynt sem er þriggja eininga, sem sagt ekki túkall, heldur þríkall.

  • Einungis 36% landsamanna búa í borgum og bæjum.

  • Ódysseifskviða á ekki roð í kviðu Kirgisa sem heitir Manas kviðan með 500.000 ljóðlínum sem gerir hana 20 sinnum lengri en Ódýsseifskviðu.

  • Það er m.a. Kirgisum að kenna að Kínamúrinn var reistur, því þeir herjuðu mjög á landamæruum og þóttu herskáir og kænir hermenn.


Kurmanjan Datka

var goðsagnakenndur kvenleiðtogi frá Kirgistan sem var þekkt fyrir hugrekki sitt og leiðtogahæfileika.


Hún varð foringi Alai fjallafólksins í konungsríki sem var á því landsvæði sem Kirgistan, Úsbekistan og Tadsíkistan er núna.


Hún fékk viðurnefnið „Fjalladrottningin" (Queen of the Mountains) og var sögu hennar gerð góð skil í mynd frá 2014 með því nafni. HÉR er myndin í fullri lengd á YouTube með enskum texta.


Kurmanjan er enn þann dag í dag minnst fyrir hæfni sína í málamiðlun og fyrir að bjarga þjóð sinni frá algjörri eyðileggingu þegar Rússar réðust inn í landsvæði þeirra á þeim tíma.



Fánninn

Orðið Kyrgyz er dregið af tyrkíska orðinu yfir „fjörutíu“ og vísar til ættbálkanna 40 sem sagnahetjan Manas sameinaði gegn Úígúrum. Kyrgyz merkir bókstaflega „við erum fjörutíu“. Á 9. öld réðu Úígúrar yfir stórum hluta þess sem í dag eru Mið-Asía, Mongólía, Rússland og Kína. Viðskeytið -stan kemur úr persnesku og merkir „staður“ eða „land“.


Sólin í fána Kirgistans er með fjörutíu geisla sem vísar til ættbálkanna fjörutíu, og hringurinn í miðjunni er lykilhringurinn, tunduk, efst á júrt, tjaldhýsi sem hirðingjar Mið-Asíu bjuggu í.


Nokkrar myndir





Ef ég ætla að komast yfir að skoða fleiri lönd í þessum heimi, þá þarf ég að fara að stækka landafundasvæðið.


Kirgistan er komið á kortið í september 2025!


Kemurðu með? Ef já, þá er hér ágætis undirbúningur






Heimildir af veraldarvefnum m.a. héðan

Recent Posts

See All

Bình luận

Đã xếp hạng 0/5 sao.
Chưa có xếp hạng

Thêm điểm xếp hạng
bottom of page