Árið 1974 uppgötvuðu vísindamenn að sumt fólk í bænum Limone við Gardavatn hefur stökkbreytt form próteins í blóði sínu, kallað ApoA-1 Milano. Þetta prótein stuðlar að heilbrigðu kólesteróli sem leiðir til minni hættu á æðakölkun og annarra hjarta- og æðasjúkdóma. Próteinið fjarlægir fituna fljótt úr slagæðum og leiðir inn í lifrina sem eyðir því á endanum.
Þessi uppgötvun komst á spjöld hinnar alþjóðlegu sjúkrasögu þegar gamall maður var lagður inn á spítala í Milano árið 1974. Maðurinn var greindur í miklum áhættuhóp (mjög lágt HDL og hækkuð þríglýseríð) og hefði í raun átt að vera dáinn. Því urðu læknarnir gáttaðir að komast að því að ekki sáust nein merki um æðakölkun eða vandamál af því tagi, Við nánari rannsóknir kom í ljós að æðakerfið í honum var eins og í unglingi.
Limone hafði aðeins 1.000 íbúa á þeim tíma og þegar blóðprufur voru gerðar á öllum íbúum þorpsins reyndist stökkbreytingin vera til staðar í um 3,5% íbúa. Þetta var mjög einföld og frekar nákvæm rakning á bæjarbúum, þar sem bærinn var einangraður allt til ársins 1931 og eina leiðin til að komast þangað var siglandi. Það flutti því gott sem enginn til bæjarins og enginn frá honum. Uppruni stökkbreytingarinnar var á endanum rakin aftur til manns að nafni Giovanni Pomarelli sem fæddist í Limone árið 1780.
Þetta stökkbreytta prótein hefur því veitt íbúum þorpsins, afkomendum Giovanni, mikið langlífi. Það er nokkuð algengt að þar búi fólk sem hefur náð 100 ára aldri og gott betur.
Þessu til viðbótar þá hefur bærinn upp á að bjóða eðal ólífuolíu og sítrónurækt var mjög mikilvæg fyrir bæinn í upphafi síðustu aldar. Það er því ekki ólíklegt að gæði í matvælum hafa stuðlað að enn heilbrigðara og lengra lífi fyrir íbúa Limone.
ApoA-1 Milano próteinið hefur því komið bænum Limone á kortið í læknavísindunum og gefið von í baráttunni við hjarta- og æðasjúkdóma. Ýmsar rannsóknir hafa farið fram. Nánar hægt að lesa um það hér.
Við sem förum að skoða Limone við Gardavatn erum hinsvegar fyrst og fremst að upplifa stemminguna í þessum gamla sítrónuræktarbæ sem er eins og smurður utan í fjallshlíðina.
Þegar ég fór með hóp til Limone fyrir tveimur árum sáum við þessa "háöldruðu" konu út um gluggann á sítrónusafninu og við slógum því föstu að hún væri amk, 105 ára !
Það er líka gaman að átta sig á því að nafn bæjarins LIMONE hefur ekkert með límónur eða sítrónur að gera, heldur er dregið af latneska orðinu Limen sem þýðir landamæri eða mörk, og á sér systurorð í ensku, limits.
Súrt, ekki satt?
コメント