Tónlistarfólk frá Marche
- Ágústa Sigrún Ágústsdóttir

- Jul 25
- 6 min read
Updated: Sep 7
sem hafa komist á spjöld listasögunnar:
Giovanni Battista Pergolesi (1710-1736) frá Jesi
Gaspare Spontini (1774–1851) frá Maiolati Spontini (Ancona)
Gioacchino Rossini (1792-1868) frá Pésaro
Beniamino Gigli (1890-1957) frá Recanati
Franco Corelli (1921-2003) frá Ancona
Renata Tebaldi (1922-2004) frá Pésaro
Fleiri heimsfræg nöfn úr listasögunni eru listmálarinn Raffaello (1483-1520) frá Urbino og eitt ástsælasta skáld Ítala, Giacomo Leopardi (1798-1837) sem er frá Recanati.
Bærinn Jesi og þeir Pergolesi og Spontini
Teatro Pergolesi var byggt honum til heiðurs á árunum 1791-96 og er eitt af helstu óperuhúsum Ítalíu í dag. Hýsir líka Pergolesi-Spontini hátíðina sem heiðrar þessi framúrskarandi tónskáld 18. aldar frá Marche, þá Pergolesi og Spontini sem fæddur var skammt frá í Maiolati Spontini nálægt Ancona.

Pergolesi er ennþá mikið fluttur og þá sérstaklega Stabat Mater sem hann samdi einungis 26 ára gamll, rétt áður en hann lést. Já, hann náði ekki háum aldri, lést úr berklum 16. mars 1736. Stabat mater er eitt af áhrifamestu kirkjulegu tónverkum 18. aldar, samið fyrir tvær raddir, sópran og alt með strengi og continuo. Textinn „Stabat Mater dolorosa“ lýsir harmi Maríu meyjar við kross Jesú. Mikil fegurð er í melódíum í barokkstíl, en með léttleika og tilvísun í klassíska stílinn sem var að ryðja sér til rúms.
Grínóperan La serva padrona / Þernan sem húsmóðir var samin árið 1733 og er ein þekktasta opera buffa í tónlistarsögunnar.
Pergolesi lék lykilhlutverk í umbreytingu tónlistarinnar frá síð-barokki yfir í „galant stíl“ og klassík. Hann var einn þeirra sem gerðu hina ítölsku opera buffa að alþjóðlegu fyrirbæri. Talið er að hann hafi haft mikil áhrif á tónskáld sem á eftir honum komu s.s. Haydn, Mozart og Rossini.

Spontini kom úr fátækri fjölskyldu en sýndi snemma mikla tónlistargáfu. Hann stundaði tónlistarnám í Napólí, þar sem hann kynntist ítölsku óperuhefðinni. Hann flutti til Parísar árið 1803 og naut verndar keisaraynjunnar Jósefínu Bonaparte, eiginkonu Napóleons.
Hans helst verk er óperan La Vestale frá árinu 1807. Tónlistin er dramatísk og áhrifarík. Þetta verk hafði mikil áhrif á tónskáld eins og Berlioz, Meyerbeer og Wagner.
Árið 1820 varð hann tónlistarstjóri við hirð Friðriks Vilhjálms III í Berlín. Ennfremur starfaði hann sem tónlistarstjóri prússneska ríkisins þar til um 1840. Var mikils metinn og var aðalaður með titilinn greifi (conte).
Tónlistarhátíðin Pergolesi-Spontini
Hátíðin þeim til heiðurs var sett á laggirnar árið 2001 af Pergolesi‑Spontini stofnuninni í samvinnu við Marche hérað, Ancona‑umdæmið og bæjarfélögin Jesi og Maiolati Spontini.
Hátíðin leggur áherslu á að sýna og flytja verk Pergolesi og Spontini í frumútgáfu með vísindalegum nálgunum, stundum með frumflutningi nýfundinna tónverka. Hlutverk stofnunarinnar er að safna, rannsaka og sýna viðurkennd verk af Pergolesi og Spontini með fræðilegri nákvæmni og listfengi.
Dagskráin í ár: https://www.fondazionepergolesispontini.com/festival-pergolesi-spontini/programma-festival-pergolesi-spontini-2025/
Gioacchino Rossini (f. 29. febrúar 1792 - d. 13. nóvember 1868)
Jú, hann er fæddur á hlaupársdag og er því 56 ára en réttur aldur miðað við mannsár sé 233 ár.

Í Pésaro er árlega haldin Rossini óperutónlistarhátíð í ágúst í bænum Pesaro, núna næst í 46. skiptið. https://www.rossinioperafestival.it/en/archive/year-2025/
Pesaro bar sigur úr býtum í vali á menningarhöfuðborg Ítalíu árið 2024. Árlega er valin ein borg eða bær sem hlýtur þennan titil. Síðustu ár hafa Parma, Procida, Brescia/Bergamo verið valdar og árið 2025 verður það Gorizia menningarhöfuðborgin 2025. Gorizia vegur salt á landamærum Ítalíu og Slóveniu og heitir Nova Gorica á slóvensku.
Benjamino Gigli (f. 20. mars 1890 - d. 30. nóvember 1957
Frægur ítalskur tenór, jafn þekktur og Caruso. Þegar Caruso fell frá, sagði John McCormack aðdáanda sínum að mesti tenór sögunnar væri fallinn frá og sá næsti hefði ekki enn komið fram. Það reyndist ekki rétt því þá þegar hafði arftaki hans komið fram – og verið að syngja í sjö ár.

Benjamín var mjög fær belcanto söngvari og varð sérstaklega frægur fyrir túlkun sína á Mefistofele eftir Arrigo Boito. Benjamín átti 40 ára söngferil þar af samfellt í 12 ár í Metropolitan þar sem hann söng í 369 skipti. Oftast kom hann fram í La Boheme, 31 sinni. La Gioconda 29 sinnum. L’Africaine 28 sinnum, Andrea Chinai 27 sinnum og síðast en ekki síst í Mefistofele 24 sinnum. Hann söng 61 óperuhlutverk og til eru um 300 upptökur á plötum með söng hans. Auk þess lék hann í 16 bíómyndum á árunum 1935-1951.
Hann var fæddur í bænum Recanati. Hann byggði sér villu af stærri gerðinni í námunda við heimabæ sinni með 60 herbergjum. Villan eða Villa Beniamino Gigli—eins og hún er oft kölluð—er glæsileg sérhannað bygging frá árunum 1920–27 og stendur á toppi Colle di Montarice, rétt hjá Loreto, Recanati og Porto Recanati í Marche. Villan er enn í eigu Gigli-fjölskyldunnar, þó að hún hafi stundum verið í fréttum vegna mögulegrar sölu eða tilrauna til að gera hana að safni. Það hefur einnig verið rætt um að setja villuna undir stjórn opinberra stofnana eða sem menningarlega arfleifð til varðveislu. Villan var til sölu á uppboði árið 2021 með upphafsverði á 8 milljónir evra. Sala hennar var háð samkomulagi við ríkisvaldið, þar sem sveitarfélögin (Recanati, Loreto og Porto Recanati) fengu forkaupsrétt. Síðan hefur ekkert spurst út um stöðu mála.
Til heiðurs þessum syni fræga syni Recanati hefur verið komið á fót merkilegu safni þar í bæ, því eina af þessu tagi sem tengist óperusögunni. Museo della Musica (MUM) & Beniamino Gigli https://www.museobeniaminogigli.it/
Hér er meira um Benjamín: https://historyofthetenor.com/beniamino-gigli/
Franco Corelli frá Ancona (f. 8. apríl 1921 - d. 29. október 2003)

Hann hafði einstaklega kraftmikla rödd, með dökkan hljóm, en þó mikla birtu með fyllingu í hæðinni. Hann hafði mikið vald á styrkleikabreytingum, sem er ekki algengt fyrir svo þykka og stóra rödd. Hann gat t.d. gert undravert diminuendo á síðasta háa Bb-inu í Celeste Aida. Hann tileinkaði sér að syngja með barkakýlið í lágri stöðu eða eins og hann lýsti því: „Lækkað barkakýli gefur manni stóran hljóm, sterka og tindrandi rödd, eins og stál, en það er ekki eins auðvelt að syngja mjúkt, mezza-voce og legato.”
Ekki spillti kynþokkinn fyrir, hann leit út eins og grískur guð og var kallaður maðurinn með gylltu lærin. Hann varð þekktur fyrir hetjulega rödd, ótrúlega háa tóna, sviðsframkomu og karisma.
Hann var mjög gagnrýninn á sjálfan sig og tók upp hverja sýningu. Eiginkona hans, Lauretta di Lelio, sat í búningsherberginu að loknum sýningum með upptökurnar og benti honum á það sem betur hefði mátti fara. Þau voru fræg fyrir heiftarleg rifrildi í búningsherberginu.
Ofsasviðsskrekkur hrjáði hann alla tíð. Hann hætti því að syngja í óperum 55 ára þó hann væri að undirbúa Otello sem hefði sennilega orðið flottasta hlutverk hans. Corelli var þá að margra mati enn í frábæru söngformi þó svo hann hafi kannski raddlega séð staðið á hátindi ferils síns nokkrum árum áður. Þá hafði hann sungið Hann söng á La Scala, Metropolitan Opera og öllum helstu óperuhúsum heims – oft á móti söngkonum á borð við Renata Tebaldi, Maria Callas, Birgit Nilsson og Leontyne Price – en sem dæmi má nefna að á Metropolitan söng hann 282 sýningar í 18 hlutverkum.
Corelli varð sérlega dáður í hlutverkum eftir Verdi og Puccini, eins og Radamès (Aida), Cavaradossi (Tosca), Manrico (Il Trovatore), og Calaf (Turandot).
Hér er flott samantekt og viðtal sem tekið var við hann, þýtt á íslensku: https://fisis.is/franco-corelli/
Renata Tebaldi (f. 1. febrúar 1922 - d. 19. desember 2004)
Var frá Pésaro eins og Rossini. Hún veiktist af mænusótt þriggja ára að aldri en eftir margra ára meðferð mun hún hafa náð sér að fullu. Hún ætlaði upphaflega að verða píanóleikari en þegar hún var 13 ára flutti hún til Parma þar sem hún byrjaði í söngnámi sem hún tók síðan fram yfir píanónámið.
Tebaldi var ein af mest spennandi sópranröddum síðustu hundrað ára, rödd gullna tímabils og bel-canto vakningarinnar eftir seinni heimsstyrjöldina. Raddgerð hennar var spinto-soprano: rödd sem sameinar mýkt lýrísks sóprans og dramatískan kraft. Renata var um árabil ein helsta stjarnan á La Scala og í Metropolitan óperunni.
Árið 1946 tók hún þátt í opnun La Scala undir stjórn Maestro Arturo Toscanini, sem kallaði hana „rödd engils“, lýsing sem fylgdi henni alla tíð.
Hún er oft borin saman við Maria Callas. Þær voru nánast jafngamlar, en Maria Callas var fædd 2023. Þær eiga oft að hafa skipst á skotum hvor á aðra.
Safn um Renata Tebaldi er staðsett í Busseto, sem er bær rétt hjá Parma. Busseto hefur sterka tengingu við óperutónlist en Verdi er einmitt fæddur þar skammt frá. Safnið Museo Renata Tebaldivar opnað til heiðurs henni og arfleifð hennar.
Hún flutti til San Marino eftir að hún hætti að syngja. Þar fékk hún frið sem hún þráði og hún dvaldi þar síðustu árin og er jörðuð þar.
Þar hafið þið það. Svo eru auðvitað mikið fleiri sem eru nær okkur í tíma sem hafa gert Marche garðinn frægan, en sú upptalning bíður betri tíma.

.png)









Comments