Það eru margar frægar gönguleiðir sem liggja niður eftir Ítalíuskaganum og aðrar sem þvera stígvélið. Appennína fjallgarðurinn var áður fyrr mikill farartálmi en núna liggja margar leiðir þar í gegn. Það er ekki þverfótað fyrir sögufrægum gönguleiðum í Toskana!
Ég ætlaði að minnast á nokkrar gönguleiðir í þessum pistli en það er eiginlega ekki nokkur leið þannig að hann hefur lengst í annan endann og kemur vonandi að góðum notum.
Hér er að finna staðbundnar gönguleiðir sem kenndar eru við kastaníur, forfeður, múlasna, marmara, smala, myllur, hveitikorn og vatn svo eitthvað sé nefnt. Þetta eru virkilega skemmtilegar gönguleiðir sem hafa verið stikaðar og sagan sögð við hvert fótmál.
Hér fyrir neðan er hægt að skoða ýmsar ferðir sem ferðamálayfirvöld í Toskana hafa tekið saman.
Stríð og friður
Gotneska víglínan lá í gegnum Toskana þar sem beggja vegna var barist upp á líf og dauða. Í Apúan ölpunum er vísað til þessara stíga í dag sem friðarstíga sem rekja sig eftir gotnesku línunni og eru virðingarvottur til minningar um þessa hörmulegu atburði.
Gotneska línan lá þvert yfir stígvélið frá Toskana við Miðjarðarhafið yfir Apúan alpana og Appennína fjöllin og kom niður við Pesaro, rétt fyrir sunnan Rimini.

Einn slíkur örlagastaður var í bæ sem heitir Stazzema þar voru framin voðaverk sem hafa líka ratað inn í kvikmyndir. Eina slíka gerði Spike Lee og heitir Kraftaverkið við Sant'Anna. Myndin er byggð á sönnum atburðum að hluta til og fjallar um 92. herdeild bandaríska hersins sem kölluð var "Buffalo" herdeildinni. Hún var að störfum í fjöllunum fyrir ofan Lucca haustið 1944.
Via Francigena
Pílagrímaleiðirnar á Ítalíu eru eins og æðakerfi sem liðast niður eftir Ítalíuskaganum og sameinast svo eftir því sem nær dregur Róm. Svæðið inn til fjalla í Norður Toskana er á þekktri gönguleið pílagríma (Via Francigena) sem áttu erindi til Rómar til að hljóta blessun og fyrirgefningu. Þessi leið hefur fengið nafnið Suðurgangan eða Suðgurgöngur á íslensku. Það mætti segja að þetta væri Jakobsvegur Ítalíuskagans, þó svo að áfangastaðurinn hafi verið annar.
En hvers vegna heitir hún Via Francigena?
Margir halda að nafngiftin tengist heilögum Frans en svo er ekki. Eins og oft er það ekki alveg vitað eða fleiri en ein tilgáta við lýði. Flestar heimildir aðhyllast að nafnið tengist áðurnefndum Frönkum (Franchi) sem voru við völd á stórum hluta Ítalíuskagans og öttu stríði við Býsansveldið. Í sumum heimildum er þessi leið þá kölluð Romea eða Francesca og virðist því tilviljun ráði því að hvaða nafn varð ofan á.
Árið 2001 voru stofnuð samtök til að stuðla að kynningu á þessari leið og þjónustu við ferðalanga. Haldið var upp á 20 ára afmæli samtakanna árið 2021 og leiðin gengin og gerð stutt heimildarmynd sem þið getið skoðað HÉR.
Garfagnana dalurinn

Í gegnum þennan dal er ein besta tengingin yfir fjallgarðinn yfir í Pó-dalinn og Adríahafsins. Stalla mín, Steinunn Harðardóttir, sem hefur rekið Göngu-Hrólf hefur verið með skipulagðar gönguferðir í Garfagnana dalnum í mörg ár. Hún segir að norðvestur svæði Toscana sé af mörgum talið eitt best geymda leyndarmál Ítalíu. Þetta afskekkta hérað býður upp á einstaklega fjölbreytta náttúrufegurð. Stórbrotin fjallasýn blasir hvarvetna við, auðug flóra skartar sínu fegursta og mannlífið byggir enn á gömlum hefðum. Mæli með að þið fylgist með því sem Steinunn og Göngu-Hrólfur eru að gera á Ítalíu.
Matthildarvegur
Matthildarvegur eða La Via Matildica er forn pílagrímaleið á Norður-Ítalíu en furðu lítið þekktur stígur nefndur eftir Matilda af Canossa, sem var valdamikil greifynja á 11. öld. Lönd hennar og yfirráðasvæði náðu frá Langbarðalandi, gegnum Emilia-Romagna, yfir Apennína fjöllin til Toskana. Via Matildica er ein af hinum fornu pílagrímaleiðum sem tengdi Mantova við Lucca og er hluti af Via Francigena.
Hægt er að skipta gönguleið Matthildar upp í þrjú söguleg einkenni:
La Via del Preziosissimo Sangue (Vegur hins dýrmæta blóðs) (frá Mantova til Reggio í 3 áföngum); 90 km
San Pellegrino leiðin (frá Reggio til San Pellegrino í Alpe í 5 áföngum); 115 km
Via del Volto Santo (Vegur hinnar heilögu ásjónu) (frá San Pellegrino í Alpe til Lucca í 3 áföngum). 80 km

Pegasus gönguklúbburinn...
...í Bagni di Lucca hefur verið mjög virkur undanfarin ár að finna út fornar leiðir á milli staða. Félagarnir eru áhugahópur um sitt heimasvæði og þau setja upp stikur og skilti og taka saman sögurnar sem tengjast þessum leiðum.
Dæmi um slíkar leiðir eru:
Gönguleið vatnsins sem liggur í gegnum bæjarkjarnan í Bagni di Lucca og þær heilsulindir sem nýttu sér vatnið.
FAI - (Fondo Ambiente Italiano)
FAI eru frjáls félagasamtök sem bjarga sögulegum verðmætum, byggingum, görðum, og stöðum þar sem náttúran er í aðalhlultverki. Samtökin voru stofnuð árið 1975 af „aðdáendum" Ítalíu og hefur það að markmiði að hjálpa til við að varðveita þjóðargersemar svo að komandi kynslóðir geti notið einstakrar arfleifðar sem tilheyrir öllu mannkyninu. Ítalía er jú með fleiri skráningar á UNESCO heimsverndarlistanum en nokkurt annað land.
FAI bjóða upp á skemmtilegar heimsóknir, göngu- og skoðunarferðir til þeirra staða sem samtökin hafa tekið undir sinn verndarvæng.
Hér er stutt myndband sem sýnir þá 30 staði sem FAI hefur skilgreint undir sinn verndarvæng. Af þeim eru tveir í Toskana. Fór einmitt að skoða þetta minnsta leikhús í heimí í Vetriano og skrifaði pistil um það.
Dante Alighieri
Þetta höfuðskáld Ítala á auðvitað gönguleið í Toskana sem kennd er við hann. Hans spor liggja þar víða, enda fæddur og uppalinn í Flórens. Þar eru því margir staðir sem eru beintengdir skáldinu en hann var ungur gerður útlægur þaðan fyrir, tja, stjórnmálaskoðanir sínar. Hér eru nokkrir
Í þessum pistli um Dante eru nokkrir staðir sem ég hef komið á og tengjast skáldinu. Ég myndi elta hann á endimörk alheimsins ef ég gæti.
Ég kom á einn þeirra sem heitir Montefegatesi í námunda við Bagni di Lucca fyrir stuttu síðan. Þar er að finna minnismerki um Dante sem stendur efst í bænum í 850 m hæð og ber heitið „ghibellin fuggiasco“ sem þýðir gíbellínski flóttamaðurinn með tivísun í útlegðina frá Flórens sem hann sætti mestan part lífs síns. Ástæðan fyrir staðsetningunni er sagan um að Dante hafi komið til Orrido di Botri og heillast af þröngum gljúfrunum og notað það sem innblástur í fyrsta kafla Gleðileiksins, Víti. Dulúðlegur staður, hættulegur á köflum og með fleiri þjóðsögulegar tengingar við karlinn í neðra.

Heilagur Frans - andlegt ferðalag
Annan mann má líka elta á röndum í Toskana, heilagan Frans frá Assisi. Þó svo að Assisi tilheyri næsta héraði, Umbria, þá var hann mikið á ferðinni á þessum slóðum og átti oftar en ekki leið hér um í sínu andlega ferðalagi og trúboði.
Hér eru klaustur, gönguleiðir og hæglætisstaðir sem kenndir eru við Frans og tengjast venjulega innri vinnu jafnt á við ytri fótavinnu. Þessi skilgreinda leið heilags Frans sem nær yfir Toskana og Emilia Romagna er um 300 km. Fólk nálgast þessa leið ekki ósvipað og Jakobsveginni með eigin upplifun sem leiðarljós, hvort sem hún er trúarleg eða andleg, tenging við náttúruna eða aftenging við krefjandi lífsstíl.
Комментарии