Þar kom að því. Bíómynd um ævi Cecilia Sophia Anna Maria Kalogeropoulus eða Maria Callas er á leiðinni og enn meiri tímamót í rauninni að hún hefði orði 100 ára þann 2. desember nk. Því ætlar Flandrr að gera góð skil og á döfinni er sérstök Maria Callas ferð til Ítalíu 14. - 23. júní 2024.
Ég er ekki frá því að það hafi tekist vel til með að velja leikkonuna sem túlkar Mariu, en ég velti fyrir mér hver muni syngja Mariu, því það verður ekki auðvelt að tileinka sér gullbarkann hennar Mariu. Það verður fróðlegt að sjá hvernig myndin mun nálgast þetta, en mér skilst að mest verði fjallað um síðustu ár hennar.
Leikstjóri er Pablo Larraín sem gerði myndina Spencer um Diönu prinsessu. Hann gerði líka mynd um Jacqueline Kennedy Onassis sem var eiginkona Aristoteles Onassis. Þar er skýr tenging, því Maria átti í ástarsambandi við Onassis áður en hann gifist Jacky.
Hér eru fyrstu tvær myndirnar sem birtar eru opinberlega af Angelina í hlutverki Maria en tökur standa yfir og áætlað er að þeim ljúki í desember. Spennandi að vita hvenær frumsýnt verður.
Maria Callas var bandarísk, fædd 2. desember á Manhattan í New York en af grískum ættum innflytjenda. Hún lærði óperusöng í Grikklandi frá 13 ára aldri. Hún lést í París 16. september 1977.
Verona, Sirmione, Zevio
Tenging Mariu Callas við Ítalíu, þá sérstaklega Verona, Arenuna og Sirmione við Gardavatn er mjög sterk. Hún sló í raun ekki í gegn fyrr en hún flutti til Ítalíu. Hún debúteraði í Arenunni í ágúst 1947, í óperunni La Gioconda eftir Amilcare Ponchielli. Hljómsveitarstjóri var Tullio Serafin. Næstu tvö ár söng hún víða um Ítalíu en sló ekki í gegn fyrr en sami hljómsveitarstjóri bað hana um að bjarga sér og taka að sér hlutverkt Elviru í I Puritani í óperuhúsinu La Fenice í Feneyjum. Aðalsöngkonan, Margherita Carosio, hafði forfallast. Hún afþakkaði það fyrst í stað og sagðist ekki geta það, enda var hún að syngja Brynhildi í Valkyrjunni eftir Wagner á sama tíma. Hljómsveitarstjórinn sagði henni að hún gæti þetta alveg og Maria lærði hlutverkið á 6 dögum. Hún sló algerlega í gegn og þar með hófst frægðarferill hennar.
Þegar komið er til Sirmione er gaman að ganga fram hjá húsinu sem hún bjó í og var hennar afdrep á milli tarna. Hún dvaldi þar oft til að hlaða batteríin. Hún dvaldi líklega mest í húsi sínu í bænum Zevio sem er skammt suður af Verona. Þar er í dag tónlistarskóli sem helgaður er minningu hennar og verið er að opna safn henni til heiðurs.
Einkalífið
Maria glímdi við ýmis vandamál í lífinu og hneykslismál í einkalífinu. Hún átti í harðri samkeppni við ítölsku óperusöngkonuna Renata Tebaldi og þær skutu föstum skotum hver á aðra. Hún á einu sinni að hafa sagt að reyna að bera saman raddir þeirra væri eins og að bera saman kampavín og Coca-Cola. Hún glímdi við offitu um tíma en tók sig til og grenntist á ljóshraða og varð eftir það eftirsótt af frægustu tískuhönnuðum heims sem báru í hana föt til að skarta.
En hennar persónulega líf var líklega skrautlegra og dramatískara en söguþráður í flestum óperum sem hún söng í. Eftir erfiða æsku og stormasamt fyrsta hjónaband við viðskiptajöfurinn Giovanni Battista Meneghini, sem hún sakaði um að hafa stolið frá sér - hóf Callas áratuga langt samband við Aristoteles Onassis sem á endanum yfirgaf hana fyrir Jacky Kennedy. Það gekk víst mjög nærri henni. Samband hennar við foreldra sína, þá sérstaklega móðir sína, var mjög sérstakt. Óheilbrigt, er kannski rétta orðið.
Heilsubrestur
Það eru margar sögusagnir varðandi heilsubrest sem hún glímdi við og dró hana til dauða, einungis 53 ára að aldri. Þá var hún hætt að syngja fyrir þó nokkru, hafði misst röddina. Sagt er að hún hafi þjáðst af einhverjum tauga-/vöðvasjúkdómi. Í dánarvottorði stendur að dánarorskök sé hjartaáfall en ýmsar aðrar getgátur um hennar heilsufar hafa komið upp og eru enn í umræðunni. Allavega verður ekki hægt að fá úr því skorið, hvað orsakaði hjartaáfallið, því ekki var framkvæmd nein krufning. Ösku hennar var svo dreift á hafi úti, undan ströndum Grikklands.
Eftir henni haft:
Dauðinn er ekki til, einungis lífið, ég mun aldrei deyja...
Takk!